Leita í fréttum mbl.is

Kúnstug múgfirring brostin á ...

AuðvaldskrakkiHvernig sem á því stendur þá virðist brostin á lítilfjörleg múgfirring sem lýsir sér á þann veg, að dálítill hópur fólks sér sig knúið til að verja vissa hörmung sem ekki er á nokkurn hátt verjandi. Varnarræðurnar steyma þessa dagana eins og skítugar fúasprænur úr kunnugum fjóshaugum og eru eflaust til þess ætlaðar að lengja pólitíska lífdaga einhvers hjákátlegasta stjórnmálamanns sem fram hefir komið á Íslandi á síðari öldum. Þessi Æritobbi stjórnmálanna, sem kunnur er af innihaldslausu grobbi, er nú í þeirri stöðu, að húsbóndi hans, gamla Framsóknarmaddaman, treystir sér ekki lengur til að ala pólitíska önn fyrir honum og vill hann burt úr öllum bókum Framsóknarfjóssins; sú gamla hefur meðal annars látið útúr sér í hóp útvaldra húskarla og griðkvenna, að ekki sé lengur verjandi að hafa þennan kynduga súkkulaðipjakk fyrir formann og þá ekki heldur á framboðslista flokksins.

Kolbeini Kolbeinssyni er málið kunnugt og hefir hann staðið í ströngu við að reyna að koma í veg fyrir að Æritobbi verði klappaður upp. Hann hefir rekið sig á, að við ramman reip er að draga, því ruddamenni úr öðrum flokkum vinna nú hörðum höndum við að endurreisa hinn laskaða formann Framsóknarflokksins, honum og Framsóknarflokknum til háðungar. Æritobbi hefir auðvitað aungann skilning á að dólgar úr myrkviðum Sjálfstæðisflokksins séu að spila með hann eins og auðvirðilegt hirðfífl og mænir uppá þá eins og einn sólargapi.

En hin sprungna formannsblaðra Framóknar á samt enn einn sannan hauk í horni þar sem Þjóðfylkingin er. Frá Þóðfylkingarhersveitinni renna varnarræður fyrir drenginn fram af tvíelleftum þrótti á internetinu og útvarpi Sugu. Því miður virka varnarræður Þjóðfylkingarhermannanna öfugt við það sem þeim er ætlað; að fá liðsauka úr þeirri átt kemur einungis meira óorði á framsóknarfrömuðinn og setur honum þann stimpil að hann sé kolvitlaus öfga- og æsingamaður sem aldrei sést fyrir í vitleysunni. Að öllu samanlögðu, þá eru öll sund lokuð fyrir Sigmund Dávíð, hann verður að leggja niður skottið og láta sig hverfa útí eyðimörkina, nema hann söðli um og fari hreinlega í Þjóðfylkinguna, það kvað vera eftirspurn eftir hönum. 


mbl.is Aldrei kynnst viðlíka óheiðarleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband