Leita í fréttum mbl.is

Hanaslagur og illir draumar

gogg2Þeim er ekki fisjað saman Eyjamönnunum þegar frumstæð villimennska er annar vegar. Kapphlaup þeirra um að ná ,,bestu stæðunum" undir hvítu tjöldin er fyrirtaks sönnun á því. Hanaslagur og rottukapphlaup eru þeirra ær og kýr. En nóg af Eyjmönnum, hræsni þeirra og spjátrungshætti, að sinni. Víkur sögunni nú beint að hræðilegum draumförum Kolbeins Kolbeinssonar skrifstofustjóra og framsóknarmanns. Undanfarnar nætur hefir Kolbeinn hvað eftir annað hrokkið upp öldungis skelfingu lostinn og helblár í framan, líkast því að að honum sækti verulega illur andi. Það má líka segja með nokkrum sanni, að hann hafi orðið fyrir aðsókn djöfla og andskota úr ríki myrkranna.

Fyrir nokkrum nóttum síðan hrökk frú Ingveldur upp við hroðaleg öskur í Kolbeini, lík því að hann væri að berjast við að losa sig út úr andarteppu. Þá var hann búinn að rífa sængina sína og koddann í tætlur og jafna náttborðið við jörðu. Frú Ingveldur hringdi þegar í neyðarnúmerið 112 og heimtaði lögreglan væri send eftir Kolbeini til að fara með hann á Klepp, því mannandskotinn væri orðinn svo kolgeggjaður að ekki væri viðlit fyrir eina varnarlausa konu að hafa svo hættulega, stórbilaðan mann inni á heimilinu. Sá er varð fyrir svörum hjá 112 sagði frú Ingveldi aftur á móti að hún gæti sjálf ekið sínum geðsjúklingi inn á Klepp og látið leggja sig sjálfa þar inn í leiðinni, því ekki virtist vanþörf á. Þetta svar varð til þess að athygli frú Ingveldar beindist frá Kolbeini og að neyðarþjónustumanninum. Hún kastaði kápu yfir sig og ók af þríelleftum ofsa að bækistöð Neyðarþjónustunnar, óð þar inn og tókst að koma þar öllu á tjá og tundur á augabragði með ofstopa sínum grimmd. Þegar hún fór aftur var Neyðarþjónustan eins og vígvöllur þar sem fólkorrusta hefir fram; allir símar hringjandi en starfsfólkið í öngviti.

mara1En aftur að draumförum Kolbeins: Honum dreymdi sem sé að hans bestu vinir, Máría Borgargagn og Indriði Handreður kæmu skríðandi inn um gluggann og Handreðurinn gripi strax um kverkar hans eins og hann hyggðist kyrkja hann, en á meðan dró Borgargagnið rauðglóandi járnsköndul upp úr pússi sínu og þókti Kolbeini að hún ræki þennan eldibrand beint upp um bláendan á honum so hann fékk meira að segja sviðabraggð í munninn. Svo miklar vóru kvalirnar sem fylgdu þessari misþyrmingu, að Kolbeini fannst sem augun væru komin út úr tóftunum og það eina sem hann gæti gert í málinu væri, fyrir utan að öskra eins og naut, að rífa sængina og koddadjöfulinn í tættlur og reka hnefann af heljarafli í náttborðið. Þessi vofeiflegi draumur hefir síðan yfirhellst Kolbein margsinnis á hvurri nóttu upp á síðkastið og hefir frú Ingveldur því komið honum fyrir í miðstöðvarkompunni, en þar er fremur lítil hætta á að hann geti valdið teljandi spjöllum. Hvað þessir draumar Kolbeins boða er hreint ekki auðvelt um að spá, en varla vita þeir á gott.


mbl.is Börðust um bestu stæðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband