Leita í fréttum mbl.is

Bjarni Bjarnason og Sólveig kona hans.

  -Hvaða skoffín er nú þetta, spurði Bjarni Bjarnason konuna sína og benti út um stofugluggann á frú Ingveldi þar sem hún þaut einsog íturvaxin gyðja á þröngum Nike-búningi eftir gangstéttinni fyrir framan húsið.  -Veit ekki. Þekki ekki þessa konu, svaraði Sólveig kona Bjarna Bjarnasonar, undrandi og snortin af þeirri sjón sem við blasti á gangstéttinni.  Svo leit hún niður eftir sjálfri sér og varð sorgleg til augnanna: rauður bómullarbolur, margþvældur og þveginn, með fáránlegu hvítu merki framan á brjóstunum og þar fyrir neðan larfslegar, ljósbláar joggingbuxur, sögðu henni allt sem segja þarf. –Maður er orðinn samdauna öllu þessu fjandans basli; farin að grotna niður án þess að taka eftir því, hugsaði Sólveig hnuggin. Ósjálfrátt laumaði hún annarri hendinni afturfyrir sig og kleip sig í aðra rassakinnina, brá henni síðan leifturhratt framfyrir sig og lagði hana þétt að kviðnum, rétt um það bil sem þar sem naflinn er. –Ömurlegt! Allt slappt og þrútið! Ég er eins og marglytta, sagði hún við sjálfa sig í hljóði. –Það er eins og ég hafi vaxið einhverntímann út úr mér án þess að taka eftir því þegar það gerðist. Að minnsta kosti stenst ég engan samanburð við konuna sem var að hlaupa hérna framhjá áðan – þó erum við trúlega á sama aldri.  Fimm mínútum síðar laumaði Sólveig sér inn á baðherbergi, afklæddi sig í snatri, stillti sér að svo búnu upp fyrir framan spegilinn á nærbuxunum einum.  Hún gat ekki leynt vanþóknunarsvipnum á andlitinu yfir því sem fyrir augu hennar bar í speglinum – reyndi það heldur ekki.  -Að sjá þetta, tuldraði hún önug og togaði í kviðholdið á sér. Og til að kóróna hörmungina, löfðu brjóstin á henni eins og tveir blautir þvottapokar langleiðina niður að nafla.  -Andskotinn, sagði hún næstum upphátt við konuna í speglinum og langaði að taka hana og fleygja henni í klósettið og margsturta niður á eftir henni,  því svona ómynd væri án efa best geymd í klóakrörum bæjarins.  Svo datt henni annað í hug: Hvern fjandann átti það að þýða hjá Bjarna Bjarnasyni bónda hennar, að vera að skjalla hana með því að hún væri falleg. Gullhamrasláttur af því tagi í hennar garð, var eðli málsins samkvæmt í meira lagi grunsamlegur, í besta falli hótfyndni, ef ekki beinlínis háð. Ofan í kaupið hafði hún lagt trúnað við þennan skammarlega þvætting og haldið að Bjarna væri full alvara. En miðað við útlitið á kvenmanninum í speglinum, var ljóst að hann hafði bara verið að gera gys að henni. Næst þegar hann slægi fram einhverju fáránlegu orðagjálfri, með smeðjusvip á andlitinu um meinta fegurð hennar, tæki hún því ekki orðalaust og með bros á vör. Aldeilis ekki. Hún skyldi slá hann svoleiðis utanundir, að hann stæði á öndinni eins og graðhestur sem étið hefði hundrað kíló af steinsteypu í ógáti.  Djöfulsins padda þessi Bjarni Bjarnason sem hún hafði búið með í stinn tuttugu ár og átt með fjóra uppivöðslusama krakka...       

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já fegurðin býr í auga sjáandans.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.4.2007 kl. 10:33

2 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Ljóta skepnan þessi Bjarni Bjarnason.

Níels A. Ársælsson., 30.4.2007 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband