Leita í fréttum mbl.is

Maður fundinn sekur um þríkvæni dæmdur í 10 ára fangelsisvist

gitar_888308.jpgJá, ég held maður muni þegar Jón Glámur gítarleikari kvæntis hér um árið. Við athöfnina var hann væddur rafgígju sinni, ógurlegum magnara, og hátalaraboxum á fjórum hæðum og sendi hrá sér vofeiflega tóna við og við svo prestsskepnan var í mestu vandræðum með að koma lestri sínum yfrir brúðhjónunum frá sér. Loks tóks guðsmanninum að blessa skötuhjúin og láta þau stumra jáinu út úr sér, en strax að því loknu hóf brúðguminn trítilspænandi öfgasóló á gígjuna svo að brakaði og brast í öllu kirkjuskipinu og rúðurnar gnötruðu svo ofboðslega að maðkaflugurnar sem bjuggu í gluggunum lögðu á flótta. Presturinn hóf tilraunir til að stöðva Jón Glám, en honum varð ekki hnikað og mátti ekki miklu muna að brúðkaupsgestir féllu í ómeginn af hávaðanum. 

Það var síðan ekki fyrr en um miðja vikuna eftir brúðkaup Jón Gláms og frökenarinnar að upp kom orðrómur þess efnis að ekki væri allt með felldu við þetta brúðkaup; sumir kváðust vita þá meinbugi á ráðahagnum, að Jón Glámur hefði því miður ekki verið alveg ókvæntur maður þegar hann gekk í hjónaband nokkurm dögum áður. Þegar til þess bærir aðilar fóru að rannsaka málið komust þeir að því sér til skelfingar, að J. Glámur var ekki aðeins kvæntur fyrir heldur tvíkvæntur og engin gögn finnanleg sem færðu sönnur á að hann hefði skilið við þær tvær konur sem hann hafði áður kvænst. Aðspurður svaraði Jón Glámur því til, að hann rámaði eitthvað í að hann hefði kvænst einusinni eða tvisvar áður, en því miður gæti hann ekki svarað því hverjum hann hefði kvænst, hann væri ekki nægilega minnugur til að muna soleiðis nokkuð. Því var það, að fólk komst að þeirri niðurstöðu, að þriðja brúðkaup Jón Gláms væri reginhneyksli, og það hefði annað brúðkaup hans líka verið.

Þegar það var orðin sannprófuð staðreynd, að hinn magnþrungni gítarleikari væri fjölkvænismaður, og þar með úrhrak í lagalegum og siðferðilegum skilningi, var ekki annars úrkosta en að ógilda brúðkaup hans númer tvö og þrjú og láta ríkissaksóknar höfða sakamál á henur honum. Í dómsúrskurðinum færði dómarinn þau rök fyrir dómi sínum, að Jón Glámur gítarleikari hefði gerst sekur fyrir Guði og mönnum um svo svívirðilegt athæfi að sjálf samfélagsskipanin væri í stórhættu ef það fengi að líðast. Því þókti dómaranum réttmætt og sanngjarnt að gítarleikari þessi sætti 10 ára fangelsisvist án möguleika á reynslulausn eða náðun. Mætti glæpamaðurinn vel við una að vera ekki dæmdur eftir Stóradómi að þessu sinni, en ef hann gerðist brotlegur við hjúskaparlög aftur gæti hann reitt sig á að lagaákvæði Stóradóms yrðu endurvakin. 


mbl.is Spilaði í eigin brúðkaupi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband