Leita í fréttum mbl.is

Djöfladans í tröllahöndum loddara

xd13_1053333.jpgÞað lítur út fyrir að allnokkrir ætli í andlausu ráðaleysi sínu að leggja leið sína á kjörstað í næsta mánuði og til að efla óhamingju sína með því að kjósa einhvern af þeim aragrúa af hægriflokkum sem að líkindum verða á kjörseðlinum. Margir segjast ætla að kjósa Vinstrihreyfinguna grænt framboð, sem þó er ekki til vinstri né sérstaklega græn, og er skipuð að mestu leyti argvítugum flokkseigendum og undanrennuhvolpum þeirra. Undarlegur fjöldi kveðst hafa í hyggju að kasa atkvæði sínu á Sjálfstæðisflokkinn þó að hann verði æ óstjórntækari með hverjum mánuði. Nú er það von samtakanna sem kenna sig við sjálfstæðið, að þeim takist að mynda ríkisstjórn með VG og sjá fyrir sér, að með því móti komist þeir langt með að verka þann flokk eins og þeir verkuðu Framsókn og Samfylkingu, Viðreisn og Björtu framtíðina, sem eins og kunnugt er eru í henglum eftir hórdóm með Sjálfstæðisflokknum.

Og víst er um það að eigendur VG fýsir mjög í bólfarir með Sjálfstæðisflokknum, enda eru Steingrímur, Álfheiður og Svavarsfjölskyldan afar háborgaraleg í eðli sínu og munar lítið um að svíkja allt sem unnt er að svíkja, ekki síst það sem eitthvað er alþýðlegt og til vinstri. Þessi þokkafénaður lét heldur ekki standa á sér þegar hann kom höndum undir 2009 að bjarga auðvaldinu á Íslandi þá að kreppti og endurreisa Gamla Ísland Engeyinga, fjárglæframanna og frjálshyggjupostulanna. Það var vel af sér vikið, enda mun VG loks launað erfiðið með því að fá að skríða eins og pöddur upp í ból höfðingjanna á Höfuðbólinu og koma sér fyrir í kríkum þeirra.

Um flengrifnar og grúskítugar gólftuskur á borð við Samfylkingu og Framsókn, ásamt Viðreisn og BF, þarf ekki að fást því á þeim vígstöðvum fer fram sjálfseyðingarferli og uppdráttarsýki. Sama er að segja um Pírata, sem þó hafa aldrei verið í ríkisstjórn. Þá er einungis óupptalinn, af þeim flokkum sem líklegir þykja til að fá þingmenn kjörna, rasista og lýðskrumsflokkinn sem kallar sig Flokk Fólksins, en það endemis fyrirbæri virðist á heilmikilli siglingu í ólgusjó heimskunnar. Af þessu má sjá, að enn er óralangt í land hjá Íslendingum að öðlast ásættanlegan andlegan þroska á stjórnmálasviðinu og megum vér bíða enn um hríð eftir að úr rætist og fari að sjá til sólar.


mbl.is VG stærsti flokkurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband