Leita í fréttum mbl.is

Aldrei gleymum vér Snata sem stjórnaði dýrbítahópnum

dogAldrei gleymi ég, né aðrir, honum Snata, blessuðum kallinum, sem í eina tíð stjórnaði hóp dýrbíta til margbrotinna fjármorða á fjöllum. Hvað eg best veit, þá er Snati vel-lifandi enn þann dag í dag, háaldraður að vísu, en óvenju heilugóður og ávökull sem fyrr. Hinsvegar eru félagar hans úr dýrbítaherdeildinni löngu látnir; þeir vóru dæmdir til dauða og hengdir á einu bretti; karlarnir settu langan staur milli gilbarma og hengdu rakkana neðan í honum. Síðan eru liðnir þó nokkuð margir áratugir. Snati, sem þó var foringinn, slapp; það féll ekki einusinni grunur á að hann væri viðriðinn ódæðisverkin, svo var hann séður og ávökull. 

Síðan félagarnir voru teknir af lífi hefir Snati þó ekki stið alveg auðum loppum. Við og við hefir hann tekið upp þráðinn og jagað einn og einn dilk sér til tilbreytingar og heilsubótar. Fyrir nokkrum árum tóks honum að vinna á afrenndum kynbótahrúti, er vó yfir 140 kíló á fæti. Snati sat fyrir hrútgerpinu í gildragi einu á fjalli uppi og byrjaði á að rífa undan honum hreðjarnar til að fríska hann upp fyrir frekari átök. Kynbótahrúturinn gjörtrylltist við aðförina og tók á rás út í veður og vind, en Snati sá við honum og lagði hann að velli við stóran stein og át af honum annað lærið. Það var ekki laust við að eigandi hrútsins reiddist þegar hann skilaði sér af fjalli geltur og þrífættur.

Eins og gefur að skilja hefir Snati fjarri því verið hvers hunds hugljúfi. Eftir að félagar hans í dýrbítasveitinni höfðu hafnað í gálganum, gjörðist Snati nokkuð forn í skapi og einrænn og sérstaklega varð hann fráhverfur hinum nýju hundum, sem bændur fengu sér í staðinn fyrir hengdu hundana. Bændum varð hins vegar ekki um sel þegar nýju hundarnir fóru að týna tölunni á dularfullan og vofeiflegan hátt; þeir fundu hunda sína rifna á hol og öldungis steindauða úti á bæjarhóli eða út við gil, - slík firn vóru með öllu óþekkt í sveitinni. Ekki þarf að orðlengja, að það var Snati sem vó nýju hundana, og þeim sið hefir hann haldið fram á þennan dag, enda hafa bændurnir aldreigi komist að hinu sanna í málinu.

Meðfylgjandi mynd er af Snata þegar hann vó Bæjarselsfant, en Bæjarselsfantur var talinn sonur ísbjarnar og sjéffíertíkur.


mbl.is Dýrbítur drap fé í Ölfusi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Þessi téður "Snati" hefur verið algjört villidýr!

Helgi Þór Gunnarsson, 14.10.2018 kl. 20:38

2 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Tja, ekki segi ég nú að hann sé algert villidýr, en hann er séður vel og kann að koma ár sinni fyrir borð.

Jóhannes Ragnarsson, 14.10.2018 kl. 20:47

3 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

:-(

Helgi Þór Gunnarsson, 14.10.2018 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband