Leita í fréttum mbl.is

Sárgrætilegur andskoti fyrir þrautþjálfaða afreksmenn

hlaupaÞá eru þeir búnir að slá olympísku leikana af. Það fór í verra, því olympísku leikarnir eru fyrir afreksfólk, þ.e. heljarmenni sem ekki drepast svo glatt úr flensuskratta eins og þessu kórónukóvídi, eða hvað það heitir. Þá er ekki heldur verið að taka tillit til þeirrar óumræðilegu sorgar þeirra sem hafa æft íþróttir sínar hörðum höndum í allt að áratug, eða jafnvel áratugi. Nú eru allar þær æfingar til einskis, farnar í súginn. Eftir situr, til dæmis, Jón Íþróttamaður með sárt ennið og fær aungvann botn í tilræði Japana við hina olimpísku leika.

Sem oftar hefir Jón Íþróttamaður lagt nótt við dag, árum saman, í þrotlausar æfingar til að fá að taka þátt í olimpísku leikunum, þrátt fyrir blákalt bann allra íþróttasambanda við því að hann fái að keppa á opinberum íþróttaviðburðum. Að vísu tókst honum að smygla sér inn á olimpísku leikana í Mexícó árið 1968 undir dulnefni; hann kallaði sig Jan van Ithretti og kvaðst vera frá Belgíu. Þetta gekk ljómandi vel hjá Jón þar til kom að keppninni sjálfri, en þá gerðust einkennilegir hlutir, sem aldrei hefir fengist skýring á.

Fyrsta keppnisgrein Jón Íþróttamans þarna í Mexícó 68 var langstökk og vakti hann gríðarlega athygli fyrir stórbrotinn árangur, sem fólst í því að hann náði aldrei að hitta sandgryfjuna í neinu stökki; ef hann ekki rak tánna í plankann og flaug á hausinn þá hafnaði hann einhversstaðar handan við annan hvorn bakka gryfjunnar og í einu stökkinu var aungvu líkar en hann svifi eins og einglill yfir alla gryfjuna og kastaðist síðan langar leiðir eftir að hann lenti. Þarna var ótvírætt um stórkostlegt heimsmet að ræða, en því miður var stökkið dæmt ógilt eins og öll önnur stökk hans á þessum leikum. Í fimmþúsund metra hlaupinu gjörðust þau tíðendi helst, að Jón Íþróttamaður tók þegar í stað forustu með upphafsspretti, sem átti aungvann sinn líkan í allri samanlagðri þiþróttasögu heimsins. Það blátt áfram glampaði sigurgleðin og krafturinn af okkar manni, slíkir voru yfirburðirnir. En svo tóku menn allt í einu eftir því að Jón Íþróttamaður var búinn að skipta um hlaupastefnu og rann nú á harðaspretti móti straumnum, á móti hinum keppendunum. Og þegar hinir réttskreiðu komu í mark eftir að hafa skokkað þessa fimm kílómétra var Jón Íþróttamaður enn á fullum dampi og lét ekki af hlaupum sínum fyrr enn síðla um kveldið, en þá var hann líka búinn að hlaupa fleiri kílómetra en tölu varð á komið.


mbl.is Ólympíuleikunum frestað til næsta árs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband