Leita í fréttum mbl.is

Enn er víða reimt þótt rafmagnið sé komið og ljósaperurnar

drauÞað er vandaverk að umgangast drauga svo sómi sé að, það veit maður af áratuga reynslu. Ég man til dæmis einkar vel eftir draugunum sem sem voru á sveimi, oft upp úr miðnætti, í gömlu, frægu húsi, skammt frá Ljónagryfjunni, sem þá var og hét, og Stjórnarráshúsinu. Við unga fólkið hokruðum svo í einu herbergi þar á jarðhæðinni innan um allar þessar kynlegu afturgöngur, sem gengu inn gangana frá útidyrum, eða einhverjum afkima þar skammt undan, og fram á salerni, sem var tvo metra frá herberginu þar sem við höfðumst við. Lengi höfðum við hlustað á fótatakið án þess að gruna að eigendur þess voru ekki þess heims; héldum bara að þetta væru drykkfelldir fasteignasalar, eða eitthvað svoleiðis, og við höfðum hugboð um að ættu innangengt á klósettið frá hliðarhúsi. Svo tókum við eftir, að þessir klósettkarlar sturtuðu aldrei niður eftir sig, þannig að í kjölfar einnar toiletheimsóknar drauganna fórum við og gættum að verksummerkjum, en gripum í tómt: taðskálin skraufþurr innan niður að vatnsrönd og handlaugin enn þurrari, svo þurfti vitnanna við, að þarna hafði ekki nokkur mennskur maður kukkað né haft þvaglát svo klukkustundum skipti, og hefði svo veri þá var ljóst að þessir karlar voru ekki upp á það komnir að þvo sér um lúkurnar eftir losun. Þannig var nú það.

Á minni tíð voru sjódraugar algengir, það er að segja duldir andar sem héldu til í borð í skipum eða komu í heimsókn um borð. Eitt sinn lágum við við stjóra á vík einni á utanverðu Snæfellsnesi. Um kveldið hafði verið besta veður, en um miðja nótt, skall á, eins og hendi væri veifað, ofsaveður af norðri og vaktmaður í brú sofandi í stólnum. Þá gjörist það að tekið er í öxlina á vaktmanninum og hann hristur alvarlega til svo hann vaknar. Sér hann strax að stjórinn hefir ekki náð almennilegri festu og brimkóf og hraungrýtisveggir skammt fyrir aftan skipið. Vaktmaðurinn vakti kapteininn, sem spratt upp og þaut á nærbuxunum fram í brú, setti á fulla ferð áfram, svo við færum ekki inn í brimskaflinn, og rak oss hásetana hraðri hendi fram á hvalbak til að hífa akkerið inn. Særokið nam við himinn þennan morgun og það tók mest allan daginn að berja á móti fárviðrinu yfir Breiðafjörð og fyrir Bjargtanga. Þarna hafði sem sé hinn góði skipsdraugur komið okkur til bjargar á ögurstundu og ræst vaktmanninn á kröftugan hátt, en framliðna anda var mjög annt um velferð skipsins og áhafnar þess.

Svona mætti lengi áfram rifja upp atburði sem heimspeki vora ekki dreymir um, en eru samt eins ljóslifandi og hægt er að vera ljóslifandi andspænis eilífðinni. Fræðimenn og Farísear fussa auðvitað og sveia yfir svona sögum, þangað til þeir standa á öndinni og ranghvolfa augunum eins og þeir hafi gleypt hrífuskaft. Nei, soleiðis giljagaurar trúa ekki að bábiljur og ofsjónir, þeir eru raunhyggjumenn? Svo gjörist eina nóttina reimt hjá þeim og þá skíta þeir samstundis í buxurnar af hræðslu, falla í ómeginn, og eru fluttir nær dauða en lífi á geðveikrahælið, því að bábilja með ofsjónum og ofheyrnum hafði komið til þeirra í heimsókn, og á þessháttar uppákomu væri aðeins ein skýring: að þeir væru orðnir geðveikir og tímabært að loka þá inni í einsmannsklefa á Kleppi.     


mbl.is Það er reimt í Háskólabíói
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband