Leita í fréttum mbl.is

Óhefðbundin hneigð Kolbeins reytti móður hans til reiði

kol53.jpgÞað gengur víst á ýmsu þegar ungt fólk opinberar kynhneigð, sína pólitískar skoðanir eða bara einhverja sérvisku, einkum ef það er í blóra við skoðanir og viðhorf foreldra og frændgarðs. Á því fékk vinur okkar allra, Kolbeinn Kolbeinsson skrifstofustjóri og framsóknarmaður, að kenna á sínum yngri árum. Ekki var það pólitíkin eða sérviska hans, sem reytti foreldra hans, þá einkum móður hans, til reiði. Og ekki var það beinlínis kynhneigðin sem var honum að falli í augum móður hans, heldur sú staðhæfing hans, að hann hneigðist eindregið til fjölkvænis.

Og móðir Kolbeins Kolbeinssonar tók sér stöðu andspænis syni sínum og spurði hann hreint út: - Jæja helvítis ódámurinn, þú ætlar þá væntanlega að gerast mormón eða múslím, svo þú getir haldið margar kéllínardræsur? Það vantar ekki derringinn í ukkur ungu mennina þó ukkur sé varla farið að vaxa kviðskegg!

En Kolbeinn ungi var ekki á þeim buxunum að hopa fyrir móður sinni og tilkynnti henni, að hann væri hissa á pápa sínum að vera ekki löngu búinn að selja hana í kvennabúr hjá einhverjum olíuslordóna í Sádí Arabíu. - Mér er alveg sama hvað þú segir kerling, ég aðhyllist fjölkvæni og ætla að búa með mörgum kvensum í einu.

Því miður fóru áform Kolbeins á annan veg en hann stefndi að: Í stað þess að kvænast og búa með mörgum konum í einu sat hann uppi með frú Ingveldi eina. Á móti kemur, að frú Ingveldur er ígildi margra kerlínga og svo þurftafrek að til hreinnar hörmungar má telja. Hinsvegar kom Kolbeinn sér upp vænum hópi stórvina úr efrimillistétt og yfirstétt og finnst honum nú, að sá eðla vinskapur taki öllu helvísku fjölkvæni fram. Hann er þó enn vel hneigður til fjölkvænis og hefir í hyggju að virkja Framsóknarflokkinn von bráðar í að berjast fyrir réttindum fjölkvænissinna - og helst anímalista líka.
mbl.is Hent út af heimilinu vegna kynhneigðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband