Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Formaður Sjálfstæðisflokksins í Norður-Kóreu fallin í valinn

cry3Sú hræðilega sorgarfregn hefir nú breiðst útum heiminn á þessum sólarhring, að formaður Sjálfstæðisflokksins í Norður-Kóreu hafi látist úr ósérhlífni og þrælkun nú um helgina. Það er ógn grætilegt, að manndjöfullinn með ljáinn skuli hafa laumast aftan að svo miklum dugnaðarforki sem Kim Jong il og tekið hann af lífi þar sem hann var að grafa skurð með skóflu sinni.

Í dag drúpti fáni í hálfa stöng fyrir utan höfuðstöðvar íslenska Sjálfstæðisflokksins, Valhöllu, vegna fráfalls hins mikla leiðtoga Norður-Kóreu. En innan dyra ríkti myrkur, grátur og gnístran tanna. Björn Bjarnason grét samt mest, hinir gátu þó hætt.
mbl.is Kim Jong-il látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi feli Landlæknisembættinu að skipa rannsóknarnefnd

hogg_1126476.jpgJá, piltar mínir. Það er orðið mjög aðkallandi, að Alþingi feli Landlæknisembættinu að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka hver grefillinn er að störfum í höfðinu á þessum Sigmundi Erni. En manngreyið virðist vera eitt allsherjarflopp, sem veit ekki á hvorum endanum hann stendur eða á að standa. Svona kallar voru í mínu ungdæmi kallaðir ýmsum kyndugum ósæmdarheitum, en ég læt mér næga að segja, að hann sé ekki uppá rönd.

Gáfnaljósið Sigmundur Ernir segir, að algjörlega sé ófært að hengja refsimiða á einhverja einstaklinga, hvað þá einn. Þessi hógværa afstaða þingmannsins bendir til þess að hann vilji ólmur opna allar gáttir á fangelsum landsins og hleypa föngunum út, því ófært er, samkvæmt þingmanninum, að hengja refsimiða á einstaklinga. 

Þá virðist Sigmundur Ernir svo rammvilltur í eigin holtaþoku og myrkviði, að hann heldur að það sé að hengja refsimiða Gjeir okkar hérna Haaardé, að gefa honum tækifæri til að sanna sakleysi sitt fyrir dómstólum! Þetta er því hlálegra, að hér mælir maður, sem nytsamir sakleysingjar í Norðausturkjördæmi, svo sem eins og Jón Ingi Cæsarsson, kusu til að gegna löggjafarstörfum á Alþingi.

Ja, slæmir eru allir þessir undanrennuuppskafningar, sem verma stólana í Alþingishúsinu, svo ekki bætist við þá hjörð einn vindþurrkaður undanrennuspjátrungur, sem veit ekki á hvorum endanum hann stendur.


mbl.is Rangt að ákæra Geir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo gusurnar gengu uppum loft og veggi

piss_1126418.jpgÞað er sumum í fersku minni þegar samstafsfélagar Kolbeins Kolbeinssonar skrifstofustjóra kærðu hann fyrir slóðaskap, spillingu og dónaskap. Samstarfsfélagarnir voru nefnilega orðnir leiðir á að Kolbeinn lokaði augunum fyrir allskonar svindli í nafni skrifstofunnar, hollustu hans við svindlarana og ósannindavaðal hans til varnar ósómanum. Þá báru samstafsfélagarnir Kolbeini á brýn óviðeigandi dónaskap, einkum þegar hann var drukkinn í vinnunni. Til dæmis hefði hann þráfaldlega kastað af sér vatni í blómapott á ganginum og hrist vininn á eftir svo gusurnar gengu uppum loft og veggi. Og þegar skrifstofustúlka ein gerði athugasemd við þetta háttalag, kallaði Kolbeinn hana kommúnistaskrukku og helvíska afturfótagálu, sem hefði gott af því að lenda í klónum á Máríu borgargagni. Í annan stað líkaði skrifstofufólkinu stórilla þegar yfirmaður þeirra óð um skrifstofuna ber að ofan og með opna buxnaklauf og klæmdist við sjálfann sig eins og forhertur sjódrengur.

En svo rofaði til í höfðum undirsáta Kolbeins, þegar Bjarni aðstoðarmaður hans gekk milli fólks á skrifstofunni og sagði því að hundskast til að skrifa undir pappír, þar sem á stóð að þau drægju kæruna til baka og ennfremur að þau bæðu skrifstofustjóra sinn innilega afsökunnar á misskilningnum. Auðvitað þorði blessað fólkið ekki annað en að skrifa undir og var málið úr sögunni. En Kolbeinn hélt sínu striki, færðist í aukanna ef eitthvað var, réði meira að segja Indriða handreð, vin sinn, tímabundið á skrifstofuna til að kenna undirmönnum sínum að haga sér eins og siðaðir launamenn.


mbl.is Málið gegn Geir verði fellt niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komu beint úr veislu hjá Borgargagninu og Indriða handreði

joli.jpgMér er sagt að mikið sé um óskviknar dýrðir í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Enda komu Gnarrið og Hanna Birna beint úr jörvagleðinni hjá Máríu borgargagni og Indriða handreði til að starta jólastemmningunni í Tjarnarsal ráðhússins. Gnarrið var að sjáfsögðu í hátíðaskapi þegar hann setti dagskrána, baðaði út öllum öngum, saup hveljur og blés eins og hvalur útí loftið, en Hanna Birna hvíaði og hneggjaði af kátínu og klóraði sér á báðum hnjánum við skefjalausan fögnuð viðstaddra.

Reyndar þókti börnunum eitthvað meira en lítið bogið við Gnarrið, því fjögurra ára telpa spurði móður sína, hvort jólasveinninn væri alltaf svona rauður í framan og valtur á fótunum. En svo var Gnarrið fótaveikt í dag, að það datt inní jólatréð í Tjarnarsalnum og átti í mesta basli með að krafla sig útúr þeim ógöngum aftur.

Af helgargleðskap Máríu borgargagns og Handreðsins er það helst að frétta, að hann hefur staðið óslitið síðan á hádegi síðastliðinn föstudag og virðist ekkert lát á fjörinu. Í morgun kom til óeirða milli hjónanna, frú Ingveldar og Kolbeins skrifstofustjóra, útaf karllægri konu, sem þau ágirntust bæði. Sem betur fer fór betur en áhorfðist, því þau leystu það má farsællega með því að læsa sig inni á salerni með þeirri karllægu.

 


mbl.is Jólastemning í Ráðhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þúveist þúveist. Innihald ekkert. Nýttnýtt nýttnýtt

fingur4.jpgÞað er greinilegt að Gvöndur Steingríms og Heiða P. ætla að gera eigöngu út á lýsingarorðið ,,nýtt" til að afla fyrirhuguðum, innihaldslausum stjórnmálaflokki þeirra fylgis. Í Silfri Egils, núna áðan, var ,,nýtt nýtt" og ,,þúveist, þúveist - þúst - þúst" upphafið og endirinn á öllu kapítalíska tómhyggjuruglinu, sem þessi skötuhjú höfðu fram að færa.

Annars var dálítið fyndið í aðra röndina, að fylgjast með stirðnaða aulabrosinu, sem Gvöndur karlinn hefur komið sér upp. Þessi furðulegi svipur harmónerar nefnilega algjörlega við hina einskisnýtu flokkstofnun, sem hann þykist vera að bjástra við með Gnarrinu og Heiðu ,,þúveist."


mbl.is Nýtt fólk meldar sig daglega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rottugangur í rúmfataskápnum

ingv12.jpgÞað má svo sem satt vel vera, að desember sé annasamasti mánuður Sigríðar Trolasíus, mig varðar ekkert um það. Hitt kemur mér skemmtilega á óvart, að ungfrú Trolasíus skuli vera slíkur kaffisvelgur og raun ber vitni. En hún verður vissulega að gæta sín, því ekki eru þeir svo ófáir sem hafa orðið vitstola af kaffidrukk og verið lokaðir inni í búri það sem eftir var ævinnar.

Þá þykir mér mikið varið í að hin bráðunga sönggyðja búi í íbúð, sem er á stærð við kústaskáp eða skókassa. Það kemur í veg fyrir óþarfa umsvif og ónytsamlegar tilfæringar.

Hinsvegar er hætt við að rottur geri sig heimakonar í litlum íbúðum. Það er þeirra veikleiki. Ég man til dæmis eftir þremur rottum, sem hreiðruðu um sig í rúmfataskáp í lítilli íbúð, sem kunningi minn leigði. Auðvitað átu bölvuð nagdýrin göt á sænguverin og lökin svo að kunningi minn þorði aldrei að bjóða kvenmanni með sér heim, því það er allt annað en skemmilegt fyrir glaðsinna konu að vakna upp í sannkölluðu rottubæli með ókunnan kauðalegan náunga, auk þess berrassaðan, sér við hlið. Þessháttar getur riðið sómakærri stúlku hreinlega að fullu.

Og ekki orð um það meir. 


mbl.is Róandi og huggulegt að vaska upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrílslæti athyglissjúkra álitsgjafa

ingv7.jpgJá, ég varð þeirrar fávísu ,,ánægju" aðnjótandi í kvöld, að sjá þessa danskeppni, eða hvað það var, útundan mér. Það má segja, að ég hafi orðið var við einhverja skógarpúka hoppa og regja sig á skjánum, en kippti mér ekki upp við það. Afturámóti varð mér nokkuð starsýnt á einkennilegt fólk, sem hafði auðsjánlega það hlutverk að vera gagnrýnendur eða álitsgjafar. Og það var nú meira skrípaliðið. Það ók sér í stólunum eins og það hefði njálg og frussaði útúr sér þvílíku skelfingarbulli að ekki er eftir hafandi. Mér skildist einhvern veginn, að þessir álitsgjafar væru fagfólk, og að það sem það segði væri alvörumál. En þar er skemmst frá að segja, að sú alvara var öll á disneyísku andrésarandarplani, óviðeigandi og gjörsamlega smekklaust sökum fíflalegra og smjaðurslegara upphrópanna, sem ollu því að unga og efnilega dansfólkið féll algjörlega í skuggann fyrir skrílslátum hinna athyglissjúku álitsgjafa.

Guð forði okkur frá fleiri sjónvarpsþáttum af þessu tagi.

 


mbl.is Berglind Ýr sigurvegari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsátak gegn leiðindaskjóðum

piss2_1125491.jpgHugsanlega er Vilhjálmur Egilsson leiðinlegast maður landsins, að Eiði Guðnasyni undanskyldum. Ég hefi stundum verið að velta fyrir mér hvernig það sé að vera svona afburðaleiðinlegur eins og þessir menn, hvort þeir hafi verki með sjúkdómnum, dreymi illa um nætur, og svo framvegis. Það hlýtur að minnsta kosti að vera erfitt hverjum manni að vera svo hvimleiður öllum, að það sé litið svo á að hann sé ekki í húsum hæfur.

En sennilega eru Vilhjálmur og Eiður fæddir undir einhverri ólánsstjörnu, sem hefur gert þá að því sem þeir eru. En mér er svo sem fjandans sama um það. Þeir verða að krafla sig framúr sínu böli sjálfir, - ekki flögrar að mér að hjálpa þeim.

Í einn tíma var ég samskipa afar leiðinlegum manni. Hann var matsveinn, stór, feitur, illa lyktandi og ævinlega með svitadropa á enninu. Ekki lét manntetur þetta við sitja, að reyna að etja okkur ikipsfélögunum saman með rógburði og illmælgi, heldur lét hann sér sæma að pissa og snýta sér útí sósur og súpur, sem hann síðan bar fyrir okkur. Svo sá einn okkar til matsveinsins þegar hann var að míga inní steikaraofninn yfir sunnudagslærin. Þá var skotið á ráðstefnu til að ákveða hvernig best væri að ráða bót á ástandinu. Svo var skepnunni stungið útum lagningsrennuna, og hefur hún ekki sést síðan, sem betur fer. Þar með var málið leyst frasælan hátt og allir tóku gleði sína aftur.

Nú þarf, drengir góðir, að efna til landsátaks gegn leiðindaskjóðum allra kynja og láta ekki staðar numið fyrr en fullnaðarsigur hefur náðst á öllum vígstöðvum.


mbl.is Skerðast lífeyrisgreiðslur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í anda fengitíma sauðkindarinnar

kind1.jpgÞað er flest sem fólki dettur í hug þessa dagana. Í gær slóst Máría borgargagn við ókunna konu úti á götu í Hamraborginni í Kópavogi og dag hleypti Skógræktarfélag Reykjavíkur helvísku Gnarrinu inní Jólaskóginn í Heiðmörk án þess að hugsa nokkurn skapaðan hlut útí afleiðingarnar. Auðvitað var Gnarrið vopnað öxi, sög og sprengiefni og var fljótt að leggja Jólaskóginn í eina rjúkandi rúst.

Þegar Gnarrið hafði eytt skóginum og félagarnir í Skógræktarfélaginu lágu allir grátandi í snjóskafli, hvarf Gnarrið á brott með vini sínum, Kolbeini Kolbeinssyni skrifstofustjóra, og var förinni heitið að heimili Indriða handreðs og Máríu borgargagns, en þar stendur nú yfir aðventuhátíð í anda Þórðar sjóara og fengitíma sauðkindarinnar, með allri þeirri dýrð og tilbrigðum, sem þessháttar hátíð getur boðið uppá. 

 

 


mbl.is Jón Gnarr fékk tré í Grýluskógi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strákakettlingarnir sem lugu upp andláti ömmu þeirra

finnur2.jpgÞað er alltaf jafn einkennilegt þegar menn taka sig til og tilkynna móður sína steindauða. Það minnir mig á þegar strákakettlingarnir, Sigmundur Dávíð, Gvendur Steingríms og Höskuldur Þórhallsson, tóku sig til fyrir síðustu alþingiskosningar og lugu því upp, að gamla Framsóknamadaman, amma þeirra, væri dáin og farin til Guðs. Og ýmsir voru svo einfaldir og trúgjarnir, að þeir trúðu því að gamla konan væri látin. En þegar blöð og netmiðlar fóru fyrir nokkrum dögum síðan, að birta myndir í belg og biðu af Halldóri, Finni, Ólafi bónda á Miðhrauni, Alfreði Þorsteins og fleiri slíkum, dylst engum, að blessuð Framsóknarmadaman er því miður enn í fullu fjöri og ódauð með öllu. Sannast þar hið fornkveðna, að það lifir lengst sem lýðum er leiðast.

 


mbl.is Falsaði dánartilkynningu móður sinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband