Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016

Sigur í jafnréttisbaráttunni vannst við bálför jólageitarinnar

geiÞað er sannarlega ánægjulegt, að brennuvargarnir gættu fyllsta kynjajafnréttis við að leggja eld að bévítans geitinni atarna. Og fyrir jafnréttisbaráttuna er þetta mikill sigur því löngum hefir stétt íkveikjumanna verið nær eingöngum skipuð körlum og feðraveldið hefir verið þar ákaflega ríkjandi. Til dæmis var engin kona viðriðin Njálsbrennu, nem þær sem brunnu inni, þannig að baráttunni fyrir jafnrétti hynjanna hefir fleygt fram síðan þá. Að vísu voru tvær konur og einn karl fremst í flokki þegar Natan Ketilsson var veginn og brenndur, sem segur okkur það eitt, að Norðlendingar vóru Sunnlendingum fremri í jafréttismálum á þeirri tíð.


hr1Hinsvegar gegnir furðu hve sólgnir brennuvargar eru í að koma vilja sínum fram á jólageitum IKEA. Það er eins og helvítin fái flog þegar þetta ólögulega klauffé er risið og þeir fái engan frið í sínum beinum fyrr en það orðið að öskuhrúgu. Sem betur fer fer fáum sögum af tilburðum kynferðislegra dýraníðinga í kringum jólageitur, enda eru brennuvargarnir ugglaust fljótari að hugsa en skepnuperrarnir. En fyrst talið hefir borist að öfuguggum sem herja á búpéníng, þá er ekki nema rétt að upplýsa, að síðasliðinn vetur fannst dauður pervert, með allt niðum sig, í hrútastíunni hjá Valgeiri bónda að Syðri Gnípum. Af verksummerkjum á vettvangi mátti glöggt ráða, að hinn látni hafði verið stangaður í hel af stórhyrndum hrútum. Niðurstaða þessa hlálega morðmáls lyktaði með því, að Valgeir bóndi var áminntur alvarlega fyrir að gæta fjár síns ekki nægilega vel og fyrir aflífa ekki mannýga hrúta í sinni eign.

gapEn nú ku geitarbrennufólk vera í haldi bak við lás og slá og yfir þeim sveiflast svipa réttvísinnar og valdstjórnarinnar. Hæfileg refsing í þessu tilfelli eru varla meira en 12 vandarhögg og sólarhringsvist í gapastokki á Austurvelli. Svo ætti vinnueftirlitið eða slökkviliðið að taka að sér koma því inní hausinn á IKEA forkólfum að nota framvegis óeldfimt efni, svo sem eins og blautt þang eða gaddavír, í déskotans jólageiturnar og máta þar með brennuvargana.



mbl.is Kona og karl í haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðgunargirnd og sjálfsbjargarviðleini skattsvikara

auð1Ljótu óþrifnaðarkallarnir þessir skattsvikarar. Og ekki skattsvikakéllíngar betri. Það er vandséð hvað á að gera við soleiðis kvikindi. Kunningi minn, sem er grandvar maður, skikkanlegur og talfár, gat ekki orða bundist um skattsvikara og sgaði sem svo í vitna viðurvist, að henging, hálshöggning og hæg fláning væru of væg refsing fyrir þessa andskota. Þegar þessi kunningi minn mælti þessi hógværu orð hafði ekki heyrt um þorpara og þrjóta sem svíkja skatt í gegnum Mossak Fonseca, Tortólu og fleiri staði, sem allir eiga það sameiginlegt að heita skrýtnum, annarlegum nöfnum. 

Nú er það svo, að skattaundanskot eru sprottin af auðgunargirnd skattsvikaranna, náttúrlegri sjálfsbjargarviðleitni þeirra og skefjalausum nánasarhætti. Sumir vilja eflaust bæta við þessa upptalningu atriðum eins og glæpaviti, skítlegu eðli og mafíuhneygð, en það eru auðvitað ekki mín orð. Allt um það, þá annast fjáraflamenn um peningana sína af sömu alúð og samviskusöm móðir börnin sín; að láta frá sér pééénííínga í krumlurnar á skattstjóra er þessum mönnum það sama og móður að afhenda börn sín alræmdum barnaníðingi.

Á dögunum vöktu nokkra athygli ummæli einhverra uppþornaðra umskiptinga og pappakassa þess efnis, að skattheimta væri ofbeldi, eða eitthvað í þá áttina. Þessi einkennilegi munnsöfnuður fangaði ekki hugarheim fólk af þeim sökum, að þetta væri eitthvað frumlegt sem öllum hefði yfirsést fram til þessa, heldur var ástæðan sú, að fólki þótti sem þeir er hefðu slíkan talsmáta um hönd væru að leggja til að Íslendingar gerðust skrælingjar til orðs og æðist, líkamlega sem andlega. Svo má líka líta á ummælin frá því sjónarhorni, að skattsvikarar færu hulduhöfði með peningana sína um öll heims- og foldarból til að losna undan grimmilegu ofbeldi andstyggilegra, sadistískra hrotta og væri þeim full vorkun. En auðvitað verður hver að dæma fyrir sig í alvarlegu málefni að þessu tagi.   


mbl.is Undanskotin nema hundruðum milljóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illfygli sem virðir mannslíf og siðferði einskis, enda óhræsi kallað

fu3Það er ábyrgðarfullt starf, sem krefst fórnfýsi og sjálfsafneitunar, að berjast gegn rjúpnaplágunni. Rjúpur eru sem kunnugt er sérlega skæð illfygli, sem fara um með morðum og eyðileggingu svo liggur við landauðn á þeim stöðum sem þessi vargur hefir hreiðrað um sig. Öll munum við þegar rjúpnahópurinn kom aftan að rjúpnaskyttunni um hábjartan dag og tætti hana í sundur og át hana. Það var hryllilega vofeiflegur atburður. Eða þegar rjúpan velti stórgrýti úr fjallshlíð á tvær skyttur, sem þegar í stað biðu bana. Ekki var það féleg uppákoma, ekki síst vegna þess, að tvímenningarnir gengu umsvifalaust aftur og réðust á menn og skepnur í sveitinni sem þeir voru staddir í þegar rjúpan vann á þeim.

Einhverju sinni orkti Jónas Hallgrímsson kvæði um herskáa rjúpu, sem var að eltast við fálka sem hún hugðist drepa. Því miður lenti rjúpan í snjóéli og villtist innum glugga hjá konu nokkurri sem bjó í torfbæ sínum við þröngan kost. Ekki hafði rjúpan fyrr komið auga á hina merku húsfreyju en hún rauk á hana með fáheyrðu offorsi og hjó hana í spað með goggnum. Þegar bóndi konunnar kom á vettvang var konan dauð, en rjúpan tók viðbragð og skaust sem ör af boga í andlit bóndans og spændi það þvers og kruss í sundur og lét ekki staðar numið fyrr en það var afmyndað. Síðan var bóndi þessi aldrei kallaður annað en Grettir Glámsson; hann kvæntist ekki aftur vegna þess að engin kona vildi sjá hann nálægt sér. Það var því við hæfi, að Jónas skáld kallaði kvæði sitt um rjúpuna ,,Óhræsið."

Þær er óteljandi sögunar um illvirki rjúpunnar og hermdarverk. Því skulum vér minnast hinna hugrökku manna, sem hætt hafa lífi sínu og limum í styrjöldinni gegn þessum óvægna óvini, og minnast þeirra í bænum okkar. Til dæmis er voðalegt þegar rjúpnaskytta hleypir af á rjúpnahóp og hæfir aungva þeirra, því þá eru þær óðar búnar að steypa sér yfir skyttuna, áður en hún hefir ráðrúm til að hleypa af aftur, og ganga af henni dauðri á svipstundu og blóðvöllurinn er slíkur í hvítum snjónum, að aungvu er líkara en að skyttan hafi orðið fyrir öflugri sprengju.


mbl.is Skutu rjúpur á sumarbústaðalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gráttu ekki,drengur minn, gráttu ekki

dog1Það er rangt af Pírötum að vera sárir útí Björtu framtíðina fyrir það eitt að vilja deyja inní Sjálfstæðisflokkinn í stað þess að verða úti a milli bæja eins og umkomulaus flækingur. Björt framtíð er alveg jafn mikill hægriflokkur og Sjálfstæðisflokkurinn og báðir eru þeir langt til hægri eins og Viðreisnin, sem aftur er einhverskonar hænsnakofi, sambyggður Höfuðbólinu á sama hátt og Björt framtíð er hundakofi, sambyggður viðreisnarpútuhúsinu. Í þessu fyrirkomulegi felst dásamleg samkennd og samstaða auðvaldsins; og í túnfætinum blasa við sjónum niðurníddar hjáleigur Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn, sem eins og flestir vita einungis fjós með furðumörgum skúmaskotum.

threy.jpgEn hvað við getum gert fyrir og við Píratana er ekki ljóst á þessari stundu. Þetta er enn sem komið er óttaleg gemlingahjörð, sem á eftir að hlaupa af sér hornin sem að sjálfsögðu standa í ýmsar áttir; sumt af gemlingunum er frjálshyggjuauðvald, annað mótþróaauðvald, þriðja soldið samfélags- og sameignarsinnað á grunnan, en velviljaðan hátt, í fjórða lagi eru þeir Píratar sem eru núll og nix. Þetta er auðvitað allt gott og blessað meðan krakkaskammirnar hafa gaman að þessu. En með tímanum brotna af þeim hornin, þeir verða kollóttir og værukærir eins og geltir fresskettir, þá verða einhverjir aðrir komnir til skjalanna undir öðru nafni og öðrum sérviskum. Allt þetta veit gamla sjálfstæðisflokksauðvaldið á Höfuðbólinu.

Ég er líka viss um, að Gunnar Hrafn, sem sumir Píratar halda að sé sonur Brýgýttu og Helga Hrafns, á eftir að átta sig á þessu öllu og hættir að vera sár útí Proppana í Björtu framtíðinni.

cat_1244576.jpgHitt er annað mál, að nú er lag fyrir svokallaðan ,,vinstrivæng" að halda áfram þeirri hundahreinsun, er hófst á honum í síðustu kosningum. Helstu óværurnar, sem búið höfðu um sig í Samfylkingunni, hreinsuðust útaf skepnunni og niður í rotþrónna. Og nú þarf hún Kata litla Jakk að sýna úr hverju hún er gerð og senda Steingrím, Svavarsfjölskylduna, Álfheiði og annan slíkan flokkseigendaóþrifnað niður í svartholið þar sem leyfarnar af Össuri, Ömma Au., Árna Páli og mr. Hjörvar hvíla í ró.


mbl.is Ekki óskað eftir Pírötum í forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vér skulum taka þá og kenna þeim þá lexíu sem þeir gleyma aldrei

danJá já, hann er samur við sig, helvískur Bauninn, þegar vér Íslendingar erum annarsvegar. Þeim munaði ekki um að troða dragúldnu méli, iðandi af möðkum og pöddum, ofaní oss hér fyrr meir og senda oss Stóradóm og húsagatilskipun og fjandann Jes Ló svínahirði, sem keypti Snæfríði Íslandssól af júngkæranum í Bræðratungu fyrir brennivín og drápu þjóðskáld vor og menntamenn úr knæpueitrun í Kaupmannahöfn og köstuðu líkum þeirra í síkin eins og hundshræum eða grófu þau utangarðs hjá dönskum glæpamönnum. Þeir níddu oss niður með 14-2 í knattspyrnu og nú svívirða þeir Gvönd okkar handboltaþjálfara á frámunalega sóðalegan hátt. Það er með ódæmum að vér skulum ekki hafa sagt þessari ófyrirleitnu skítaþjóð stríði á hendur fyrir lifandis löngu.

dan1En er vér rérum til síldar í Norðursjó, milli 1970 og 1980, og lönduðum í Danmörku komum vér fram nokkrum hefndum á þessum andstyggilega þjóðflokki. Vér drukkum þeirra sterka öl og börðum þá; vér hreinsuðum útúr knæpunum og skutum borðum og stólum útum gluggana; vér spörkuðum í afturendann á kerlíngum, sem báru á borð í knæpunum og sýndu oss lítilsvirðingu, svo að þær skondruðust langar leiðir og glösin brotnuðu og ölið heltist niður; vér lékum á portdækjurnar og stungum leigubifreiðastjórana af frá stórum skuldum; vér tókum kvensniptirnar af þeim á knæpunum og skutum á þá úr loftrifflum til að bægja þeim og þeirra illu ráðum frá skipum vorum er þeir vildu endurheimta kvennþjóðina; vér tókum reiðhjól þeirra traustataki uppí bæ og renndum á þeim niður á kæjann, en hjólunum fleygðum vér í sjóinn, með bros á vör, enda var þetta handónýtt drasl eins og annað í þessu auma landi. Loks tóku þessir andskotar uppá því að banna oss að veiða síld í Norðursjó til þess eins að losna við oss.

spenn2.jpgMeð baráttu vorri við Dani á áttunda tug tuttugustu aldar, sýndum vér, að auðvelt væri að vinna fullan sigur á Dönum, ef vér beittum oss af öllum vorum þunga. Nú ættum vér, afkomendur kónga og kappa úr Norðvegi og af Skotlandeyjum, að nota tækifærið, sem ruddaleg framkoma Dana við hann Gvönd okkar handboltamann hefir fært oss í höndur, og yfirtaka þennan flatlendiskika, sem þeir kalla Danmörk, og beygja hann undir oss og sýna þeim sathans ungum, í eitt skipti fyrir öll, hvar Dávíð heypti ölið. Og ef þeir verða með ótilhlýðlegt múður og undanbrögð, skulum vér leiða þá í sannleikann um hvar Sigmundur Dávíð kom laumupéééníngunum sínum í geymslu. 


mbl.is Guðmundur svekktur út í Dani
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það liggur í augum úti hvurja Dónaldur skipar

xd1_1058396.jpgEinboði er að Dónaldur Trump geri Sigmund Dávíð Gunnlaugsson að ráðherra í ríkisstjórn sinni, en hann er landlaus flottamaður um þessar mundir, sennilega fær Sigmundur innanríkis eða hermálaráðuneytið. Þá hefir Trump heilan hug á að gjöra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að heilbrigðisráðherra og Jón Magnússon hrl. að dómsmálaráðherra. Enn fremur liggur í augum úti, að Trump muni sækjast eftir að fá Arþrúði Karlsdóttur sem fjölmiðlaráðherra og Gústaf Níelsson ætlar hann að skipa ráherra innflytjendamála. Þá verður Gjeir okkar hérna Haaardý fjármálaráðherra og Hannes Hólmsteinn Gissurarson spunamálaráðherra.

Auðvaldssví 2Eins og sést af upptalningunni hér að ofan, ætlar Dónaldur að sækja til oss Íslendinga einvalalið til starfa. Fyrst mun hann að sjálfsögðu láta kanna niður í kjölinn, hvort nokkur þessara Íslendinga séu múhámeðstrúar, eða hafi einhver tengs eða óleyfileg mök við íslámísta, eða annan óþjóðalýð. Vissulega mun hryggjarstykkið úr Íslensku Þjóðfylkingunni hverfa til verkefna í Washington, en þeir munu, allir sem einn, nýtast frábærlega með Söru Palín og öðrum mannvinum af hennar kalíberi í Hvíta Húsinu.

Sem betur fer er Trump nú þegar farinn að vinna í því að bjóða öllum sjálfstæðisflokksmönnum, viðreisnarfólki og vissum, valinkunnum framsóknarmönnum hér af Íslandi til að sitja öll þing Repúblíkanaflokksins meðan hann verður forseti. Dónaldur Trump er nefnilega þeirrar skoðunnar, að það sé svo undurgott að hafa íslenska aría með rétt viðhorf í kringum sig.


mbl.is Hverja skipar Trump í ríkisstjórn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Önnum kafinn síra Baldvin gaf sér tíma til pólitískrar erindisgjörðar

x25Á dögunum gjörði síra Baldvin, prestur og prófastur til Gemlufallsþinga, ferð sína heim til Steingíms J. Sigfússonar, þeirra erinda að pína hann valdi, einkum handafli, til að hundskast í ríkisstjórn með Bjarna Ben og hans frændgarði. Það kom síra Baldvini því í gjörsamlega opna skjöldu, að Steingrímur varð fyrri til og tjáði honum, eins og bljúgur drottinssauður í framan, að hann væri á leið í ríkisstjórn með Bjarna, enn fremur að þeir Bjarni væru í stöðugu símasambandi og væru nú þegar langt komnir með stjórnarsáttmálann. Hinn mikli kirkjuhöfðingi setti mjög í brúnirnar undir ræðu Steingríms, en hann hélt fyrst að þessi bölvaður dári væri að gera narr að honum. Eftir stundarþögn, hóf síra Baldvin upp rödd sína og tilkynnti Þistilfjarðarundrinu, að ef hann væri að ljúga að sér núna kæmi hann aftur og þá mundu aungin vettlingatök vera við höfð. Er skemmst frá að segja, að síra Baldvin kom ekki aftur til Steingríms.

séraAnnars hefir í mörgu verið að snúast hjá síra Baldvini í aðdraganda aðventunnar. Til dæmis ætlar hann að bannfæra nokkra skálka og féinar skaðræðiskvinnur við hátíðarmessu á fyrsta sunnudag í aðventu og veita nokkrum upprennandi illræðiskvikindum alvarlega áminningu. Ófremdarfólki, sem á yfir höfði sér bannfæringu, er þvi miður allt flúið úr prófastsdæmi síra Baldvins, svo að hann má innan tíðar leggja land undir fót til að hafa uppá ræxnunum, birta þeim bannfæringuna og veita þeim verðskuldaða hirtingu í kaupbæti. 

Á aðventunni í fyrra bannfærði síra Baldvin einn sérdeilis óþverra, sem hafði gert sér lítið fyrir og sagað krossinn af einu annexíuguðshúsi síra Baldvins. Og til að kóróna viðbjóðslegt og guðlaust eðli sitt hafi þessi ódámur dregið sömu nótt hyrndan lambhrút inní sömu kirkju og ausið hann vatni uppúr skírnarfontinum og gefið honum nafnið Djöfull og Andskoti. Hrúturinn þakkað nafngjöfina með því að stanga skírnafontinn um koll og lá hann þannig, brotinn og bramlaður, þegar að var komið. Enn fremur, hafði ónefndur sóknarnefndarmaður hvíslað því að prófasti, að óþverrinn sem sagaði krossinn af, hefði neytt eiginkonu sína til að koma sér upp tilbera með öllum þeim satanísku meðölum sem til þeirrar óhæfu er brúkuð. Síðan þetta gerðist hefir síra Baldvin vaktað sóknarbörn sín nótt sem nýtan dag af enn meiri kostgæfni en áður. 


mbl.is Formlegar viðræður fyrir lok vikunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófyrirleitinn skítaskapur, sem minnir á ljótan atburð í íslensku sjávarþorpi

voffÞað er ótrúlegur andskoti, að fulltrúi valdstjórnarinnar í Bandaríkjunum láti sig hafa að gauka hundaskít, í felum milli tveggja brauðsneiða, að einum af sínum minnstu bræðrum. Og hvernig ætli mannveslingnum hafi orðið af þessum kræsingum valdstjórnarinnar? Eftir því sem ég veit best, þá er hundaskítur afar snauður af næringarefnum, fyrir nú utan að vera vondur á bragðið og líklegur til að valda velgju þeim er etur.

Reyndar minnir þessi hundasaurshistoría út Guðseiginlandi á atburð, sem gerðist okkur nær, það er að segja á sjálfu Íslandi, vöggu þingræðis í heiminum. Það gerist sem sé í útgerðarþorpi einu, að glaðbeittur náungi safnaði sínu eigin taði í eina fimm daga, en að svo búnu tróð hann afrakstrinum ofaní beittan línubala óvinar síns. Þegar línan var lögð þeyttist kukkurinn yfir langningsmennina, meira að segja framaní þá. Að vonum brugðust þeir ókvæða við þegar þeir uppgötvuðu hverskyns var, svöðvuðu langninguna og steðjuðu uppí brú til kaptugans og tilkynntu honum að þeir létu ekki bjóða sér að vera grýttir með mannaskít á lögninni og skipuðu honum með ofsa að keyra þegar í stað í land. Þeir lögðust að bryggju um morguninn þegar allir beitningamennirnir voru mættir til vinnu og skipti engum togum, að hinir svívirtu lagningsmenn réðust þegar til inngöngu í beitningarskúrinn og flugu á beitarana með fáheyrðum ofstopa. Þegar innrásamennirnir höfðu lokið verki sínu og allir beitararnir lágum hver um annan þveran í valnum, meira eða minna meðvitundarlausir, héldu hinir reiðu menn til skips og kaptuginn lét þegar í haf, til að ljúka því verki þar sem frá var horfið þegar saurhríðin hófst við lagninguna.

Af beiturum er það að segja, að þegar þeir komust aftur á lappir eftir leiftursókn þá er þeir máttu þola, ruku þeir til lögreglu og sýslumanns og lögðu fram kæru um tilefnislausa árás og líkamsmeiðingar ótíndra villimanna á þá. Þegar umrætt línuskip kom aftur til lands, beið lögreglusveit ásamt sýslumanni á bryggjunni og handtók áhöfnina og hafði með sér til varpa þeim í dýflissuna. Uppúr þessu hófust langvinn málaferli með tilheyrandi flokkadráttum, sem jöðruðu við borgarastríð í hinu friðsæla útvegsþorpi, en það er löng saga og hræðileg og verður ekki rakin hér.    


mbl.is Gaf heimilislausum hundaskítssamloku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krataeðlið er erfiður og hættulegur sjúkdómur


Einkathotur-rikisstj-geir_1152654354En nú er þessi Logi, sem aunginn veit hvur er nema eftir vill fáeinir Akureyringar, sem sé orðinn krati eftir að hafa verið á netabáti í æsku. Á Íslandi merkir orðið ,,krati" auðvaldssinni, sem segirst vera vinstrisinni, jafnvel sósíalisti. Pétur Pálsson framkvæmdastjóri í Sviðinsvík kvaðs sjálfur vera ,,sósíalist" þrátt fyrir að hann væri svæsnasta auðvald og íhaldsmenni í sínum landsfjórðungi. Auk þess þarf sá maður á Íslandi, sem er krati, að vera haldinn þekktri skapgerðar og karakterveiklun, krataeðlinu, svo það hann geti umborið tvískinnung sinn og lífslygi, já og alla sína lýgi og pólitíska ruglandi almennt. Og það mega kratar vita, að þeir eru haldnir krónískum sjúkdómi, sem er ólæknanlegur eins og til að mynda sykursýki.

myndir_520.jpgAð öllu samanlögðu, þá eiga menn að vera áfram á sínum netabát, uns þeir verða reknir í land sökum ellihrumleika og saltbruna í augum, í stað þess að lenda á villigötum í landi og enda kanski í ræsinu eða verða kratar. Þetta heilræði hefði Logi þessi skriðjökull átt að hafa í huga áður en hann tók þa afdrifaríku ákvörðun að stökkva í land á besta aldri, - þá væri ef til vill ekki svona komið hans ógæfu, að vera orðinn krati.

ing7.jpgFyrir margt löngu kyrkti frú Ingveldur einhvern mannaumingja, sem nú er löngu gleymdur, af því að hún hélt að hann væri krati. Svo hengdi hún líkið upp í snöru, þannig að þeir sem að komu töldu óyggjandi og fullvíst, að hinn látni hefði stytt sér aldur. Þessi litla saga segir oss, að það kann að vera lífshættulegt að vera krati, því fátt fer meir í taugarnar á öðru fólki en kratar og krataeðli. Framferði frú Inveldar í þessu máli er ámælisvert, en sýnir bæði henni og oss sjálfum, að návist krataeðilis getur auðveldlega firrt fólk viti og komið því til að fremja ódæðisverk.  


mbl.is Arkitekt, pólitíkus, dansari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er gæfa að komast í útstrikunarflokkinn

x24Eins og áður hefir fram komið, setti Sigmundur Dávíð á dögunum glæsileg heimsmet í útstrikunum. Hér með er Sigmundi Dávíði óskað innlega og hjartanlega til hamingjum með glæsilega heimsmetið, sem sannarlega er ekki lítilfjörlegra en önnur heimsmet kappans. Nú rær Sigmundur krappann sjó á Kögunnardoríunni innan Framsóknarflokksins og á eflaust eftir að slá einhver heimsmet í þeim róðri.

x25Svo áttu víst nokkur kvennsköss með sé í útstrikunum, allar vel til þeirrar íþróttar fallnar. Árangur þeirra varð góður, svo sem við mátti búast, enda eru þessar flaumósa frenjur kappsfullar í framapoti og sjást ekki fyrir í bægslagangi sínum og frussi. Ánægjulegasta árangrinum í útstrikunum kvenna náði frú Álfheiður Ingadottir, en hún fékk fullt af útstrikuðunum þrátt fyrir að vera ósköp neðarlega á lista. En Álfheiður er vel að útstrikununum komin, enda hefir kérlíngin sú verið kvenna iðnust við að eyðileggja vinstripólitík á Íslandi.

ing5Um hinar útstrikunardömunar þarf ekki að fjölyrða, því að lágkúran hefir löngum verið þeirra fylgikona, líkt og hjá nútíma pólitískum karlsperrileggjum og spjátrungum. En því miður er árangur kvennanna í útstrikunum ekki enn ásættanlegur, sökum þess að kjósendur eru ekki enn búnir að tileinka sér útstrikunartæknina nægilega vel. Samt er það gæfa hvers stjórnmálamanns að komast í útstrikunarflokkinn og sárt að sjá hvursu fáir ná þeim eftirsóknarverða árangri.


mbl.is Oftast strikað yfir konurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband