Leita í fréttum mbl.is

Af þeim frækna garpi Snata og afrekum hans fáeinum

dog5_870748.jpgÞað var laglega af sér vikið hjá hundunum að ná álftarunga og rífa hann í sig eins og jólaköku. En þessir hundar voru tveir, svo verk þeirra var ekki eins merkilegt. Hinn merki hundur Snati var oft einn við að vinna sín frækilegustu afrek; en hann fór vel með svo aunginn vissi hvurn hund hann hafði í raun og veru að geyma. Við höfum áður vikið örlítið að því þegar Snati lógaði húsbónda sínum, Ólafi bónda, með því að ýta honum fyrir sextugan hamar. Að öðru leyti hefir Snati oftliga jagað sauðfé, fullorðnar ær, dilka og jafnvel gríðarlega hrúta hefir hann að gamni sínu vanað með því að hlaupa eldsnöggt aftan að þeim og klippa undan þeim punginn með hárbeittum tönnum sínum.

Hinsvegar rak bændur í sveitini í rogastans þegar kýrin Mókolla fanst örend einn sumarmorgun í haga; hún hafði verið bitin á háls af einhverju hrottakvikindi, sem var mikið stærra og öflugra en nokkurt óargadýr sem menn höfðu spurnir af, mikið stærra en ísbjörn eða afríkuleón. Aunginn vissi sem var, að þar hafði Snati komið aðvífandi um nóttina með hundasveit sína fullmannaða og gengið frá mjólkurkúnni Mókollu á afgerandi hátt. Í annað sinn trylltist þarfanaut sveitarinnar, yxnið mikla, sem geymt var innan rammgerðrar gaddavírsgirðingar, reif niður girðinguna í ofsafengnu áhlaupi og rann á harðastökki fyrir björg og á sjó út og sást aldrei meir. Þetta var skammt frá þeim stað er Ólafur bóndi hrapaði til bana. En það er einkennilegast þótti við atburð þenna var að hreðjar yxnisins fundust í reiðileysi innan vébanda gaddavírsgirðingarinnar ásamt dauðrotuðu hvolpshræi; en hvolpinn hafði Snati sent á yxnið til að klippa undan því.

Jú, vissulega hefir Snati unnið á göglum sér til gamans, oft þá með unghunda með sér til að æfa þá til morða. Heilli svanafjölskyldu unnu þeir eitt sinn á við litla og fagra tjörn. Stóru álftirnar voru hinar verstu viðureignar, en Snati, eldsnöggur sem hann hefir ætíð verið og ráðagóður, beraði tönnur sínar drifhvítar á hárnákvæmum augnablikum, tvívegis í röð, og tók sundur hálsa beggja illfyglanna svo hratt að auga fékk ei numið. Og enn er Snati í fullu fjöri, orðinn tæplega fertugur, elstur hunda í landinu og fjarri ellimörkum; sjón hans og heyrn virðist yfirnáttúrleg og þefvísin með afbrigðum. Síðas í gær fékk hann sér lystigöngu undir hamarinn, hvar Ólafur bóndi týndi sínu lífi í urð af eggjagrjóti; það var hörmuleg aðkoma. Og ekki var annað að sjá, en hinn reynslumikli hundur væri bærilega ánægður með afrek sín, því hann dillaði rófunni ákaflega er hann hnusaði af þeim stað sem Ólafur heitinn hafði fundist á sínum tíma illa í sundur hogginn af beittu eggjagrjótinu í urðinni, en Snata var sem kunnugt er afar í nöp við Ólaf bónda, enda var sá karl hinn versti hrotti og sadisti. 


mbl.is Hefði getað farið á hinn veginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Arnar

og burtséð frá því í þessu tilfelli held eg að muligvis voru bara  ekki þessi foreldrar bara  aðdeins "ligeglad" voru  eflaust þeirra "førstfødte" og því ekki visir um hvað þeir ættu að ábyrgjast - En þetta "unga" par leggur eflaust egg igen igen næsta ár þau og þá passa þau sig betur á "snötunum" og verða eflaust á vakt!

Jón Arnar, 30.7.2019 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband