Leita í fréttum mbl.is

Fyrirsjánlegir vinstrigrænir í vanda.

Það fór sem mig grunaði, að VG myndi hliðra sér hjá því á flokksráðsfundinum um síðustu helgi, að taka sér stöðu sem flokkur verkafólks og stéttarbaráttu. Í þeim samþykktum sem liggja eftir fundinn örlar hvergi á neinu slíku. Samþykktir fundarinns voru á allan hátt fyrirsjánlegar; engin ný sjónarhorn, ekkert leiftrandi fjör, engin óvænt tíðindi; aðeins þessi venjubundna skyldusamsuða í anda Hjörleifs, Álheiðar Inga, Steingríms J. og Kolbrúnar. Samkvæmt samþykktum flokksráðsfundarins virðist VG geldur stjórnmálaflokkur og vel það.

Og út á hvað gengur svo hin venjubundna skyldusamsuða flokksráðsfundar VG? Jú, hún gengur út á: 1. Nýtingu vatnsafls. 2. Orkuveita Reykjavíkur áfram í almannaeigu. 3. Heræfingar. 4. Nato. 5. Palestína. 6. Rannsókn á afleiðingum markaðs- og einkavæðingu stjórnvalda undir fyrirsögninni ,,almannaþjónusta." Nú má ekki skilja mig svo, að ég sé ósammála flestu eða öllu sem fram kemur í ályktunum flokksráðs VG, því það er ég alls ekki. Það sem ég er ósáttur við, er það sem mér finnst nauðsynlega vanta í ályktunina. Þar er, eins og áður er getið, ekkert minnst á kjarabaráttu verkafólks sem framundan er, en kjarasamingar ,,hinna lægst launuðu" (svo ég noti næsta ógeðfelldan frasa úr munni falskra stjórnmálamanna) renna út úm næstu áramót. Í ályktuninni er heldur ekki minnst einu orði á sjávarútvegsmál, sem eru í uppnámi um þessar mundir. Því spyr ég: hvað er eiginlega að í Vinstrihreyfingunni grænu framboði? Og mig langar að fá heiðarleg og ærleg svör. Og ég spyr líka: hver er afstaða VG til kjarabaráttu verkafólks og stéttarbaráttu almennt? Á flokkurinn til dæmis ekki að leitast við að blása verkafólki og samtökum þess baráttuanda í brjóst? Heita samtökum þess stuðningi í baráttu þeirra, en gagnrýna þau líka og veita aðhald þegar við á? Og hvernig stendur á því að Vinstrihreyfingin grænt framboð þegir samviskusamlega þunnu hljóði um ekki minni málaflokk en sjávarútvegsmálin? Er VG-félögum virkilega sama um þó að fiskimiðin hafi í raun verið einkavædd og að þau séu nú að mestu leyti undir járnhæl örfárra útgerðarrisa? Og af hverju minnast hinir kappsömu umhverfisverndarsinnar aldrei orði á aðfarir og umgengni sægreifa LÍÚ, sem fara sínu fram undir vernd stjórnvalda og Hafrannsóknarstofunnar? Er það ekkert sem þarf að rannsaka að mati forystu VG?

Að lokum varðandi einkavæðingarmálin: VG hefur barist vel og dyggilega gegn einkavæðingarbrjálæði síðustu ár og eiga þakkir skyldar fyrir það. Hinsvegar hefur ekkert sést frá flokknum hvað það er nákvæmlega sem hann vill að sé samfélagsvætt og ég veit ekki til þess að slíkt hafi verið neitt í umræðunni innan VG. Upp í þessa himinhrópandi gloppu í málatilbúnaði VG þarf að stoppa sem fyrst.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll

 Skemmtileg lesning.

mbk.

Ólafur Sveinn Haraldsson (IP-tala skráð) 4.9.2007 kl. 14:10

2 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Þakka þér fyrir Ólafur Sveinn.

Kveðja,

Jóhannes Ragnarsson, 4.9.2007 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband