Leita í fréttum mbl.is

Vilborg Anna minnir einkennilega mikið á garpinn Jón íþróttamann

jon_i2.jpgÞegar ég les um pólfarann og háfjallaskottuna Vilborgu Önnu dettur mér einlægt í hug þjóðsagnapersónan Jón íþróttamaður.

Eins og þjóðin veit, var Jón íþróttamaður einver mesti garpur sem uppi hefur verið á Íslandi, enda dáði þjóðin hann, elskaði og virti. Á sínum tíma voru víðavangshlaup Jóns íþróttamanns heimsfræg, einkum fyrir þá sök, að hann náði aldrei á sínum langa ferli að gildu hlaupi í íþróttakeppnum þrátt fyrir óteljandi tilraunir. Þetta ólán stafaði af því, að Jón var mjög óratvís maður og því villtist hann alltaf einhvers staðar á hlaupaleiðinni og hljóp þá gjarnan klukkutímum saman í leit að markinu, án árangurs, en lenti þess í stað í margskonar óvæntum ævintýrum. Á Jótlandi, sem ekki er einusinni land, skaut bóndadurgur á eftir honum með byssu þegar hann rann eins og fellibylur yfir akra bóndans. Og í árlegu víðavangshlaupi í Austurríki hljóp hann þvílíka villu, að hann lét ekki staðar numið fyrr en í Tékklandi og hafði þá ekki einungis tapað af hlaupabrautinni heldur og sjálfu landinu sem hlaupið fór fram.

Flestum er kunnugt um, að boltaíþróttir áttu ekki beinlínis vel við Jón íþróttamann vegna óbilandi kapps hans og harðfylgni og var honum því bönnuð þátttaka í þeim greinum af alþjólega íþróttasambandinu. En í vertraríþróttum þókti hann öllum djarfari; var sagður yfirnáttúrlega snjall á skautum og skíðum og undantekningarlítið í lífshættu þegar hann var kominn með þessháttar tól undir iljarnar. Á fögrum ísilögðum fjallavötnum þaut hann á skautum sem fugl flygi uns hann hafnaði í andstyggilegri vök eða á einhverri óútskýranlegri ójöfnu sem þeytti honum eins og pappaspjaldi útí loftið. Skíðaferðum Jóns íþróttamanns lauk afturámóti oftastnær á gaddavírsgirðingu eða grjótnybbu, og ef ekki þannig, þá úti í nærliggjandi vatnsfalli, eða á einhverrri manneskju sem á vegi hans varð.

Að öllu samanlögðu, er ég afar feginn að Vilborg Anna skuli af sérstakri fórnfýsi hafa tekið upp merki Jón íþróttamanns og haldi minningunni um ótrúlegan fræknleik hans á lofti með tiltektum sínum uppá fjöllum og firnindum, eins sem á gaddfreðnum víðáttum Suðurpólsins.
mbl.is „Hakuna matata“ orð að sönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband