Leita í fréttum mbl.is

Hótaði að hengja hann í bindinu upp í tré

Þeir láta sér ekki muna núorðið um að dæma þjóðþekkta landstólpa, annálaða fyrir dugnað, útjónarsemi og manngæsku, í fangelsi. Fyrr má vera meiri djöfulsins smánin. Það má þakka fyrir meðan landsdrottnar og dómaraslektið reisa ekki gálga og höggstokka til að lóga alminnilegu fólki, að maður tali nú ekki um að endurreisa Drekkingarhyl og Stóradóm til fyrri vegs og virðingar.

hangi1.jpgEinhverju sinni munaði ekki nema hársbreidd, að stórbilaðir dómarar með fulltingi ráðherra og annarra ólánsfanta, dæmdu frú Ingveldi til stórkostlegrar refsingar. Henn var sem sé gefið að sök að hafa þvegið pénínga, staðið fyrir vændissölu, gert út á mansal, svikið undan skatti, stundað innbrot og selt þýfi, átt þátt í mörgum líkamsárásum, starfað af undirróðursstarfsemi sem varða við lög um landráð og föðurlandssvik, staðið að baki pólitískra rógsherferða og margoft sést ölvuð á almannafæri.

Þegar málatilbúnaðurinn gegn frú Ingveldi stóð sem hæst, gerði hún bragð úr ellefta boðorðinu og sat fyrir dómsmálaráðherra þegar hann fór út með hundinn að kvöldlagi. Frú Ingveldur gekk, eins og hennar er vani, hreint til verks, þreif í hálsbindi dómsmálaráðherra og herti all-svakalega að. Það fór strax að korra í ráðherranum, hann ýlfraði og baðaði út höndunum, en frú Ingveldur tilkynnti honum með óvinsamlegum hreim í röddinni, að ef hann léti ekki tafarlaust hætta við allt kæraumálavafstur gegn sér myndi hann vonbráðar finnast hangandi í bindinu í einu af trjánum í nágrenninu. Morguninn eftir var frú Ingveldur laus allra mála, enda kann hún öðrum fremur að kippa í þá spotta sem nauðsynlegt er að kippa í þegar réttlætið hefur gengið einu skrefi of langt í óréttlætinu sem betri borgarar þurfa einlægt að búa við.
mbl.is Dæmdir í fangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband