Leita í fréttum mbl.is

Af landi og sjó - brot 2.

Fám dögum eftir að Jón rithöfundur settist að á Hellubergi, birtist grein eftir hann í bæjarblaðinu "Brunninum". Grein þessi stakk nokkuð í stúf við annað efni blaðsins fram að þessu. Þar fullyrti greinarhöfundur semsé, að þrátt fyrir allar hinar gífurlegu framfarir, sem orðið hefðu í heiminum á síðustu árum, væri samt um hreinlega afturför að ræða í atvinnuvegum Aðalvíkinga, sem og annarra sambærilegra staða, á umræddu tímabili. Allrahanda auðvaldspótentátar hefðu auðsjánlega fengið að grasséra í þjóðfélaginu svo um munaði, líkt og bakteríur sem valda graftarkýlum og öðrum óþverraútbrotum. Stórútgerðin á Íslandi hefði til dæmis náð þeim framúrskarandi árangri, að stela öllum fiskimiðunum umhverfis landið, ásamt öllu kviku sem þar hefðist við, án þess að almenningur hefði getað rönd við reist. Þessa dýrðlegu þjófnaðaraðferð kallaði auðvaldið "kvótakerfi" og væru margir í vinnu við að réttlæta þennan bíræfna ránsskap og hefja upp til skýjanna sem einhverkonar "endanlega lausn lausn á fiskveiðivandamálinu".

Síðan vék Jón máli sínu að nafngreindum dólgum, sem komist hefðu yfir svo og svo mikinn fiskikvóta með heldur vafasamri framgöngu og væri nú svo komið, að þessir auðvaldspervertar hefðu mestar og öruggastar tekjur af að leigja kvótalausum einyrkjum og hugsjónamönnum veiðiheimildir fyrir okurborgun út í hönd. Þessi vinnubrögð kölluðu stjórnvöld "nauðsynlega hagræðingu, heilbrigða samkeppni og almenna skynsemi" enda væri stjórnvaldselíta þessi, fyrst og fremst opinber stjórnmálaarmur hins Íslenska auðvalds og væri með endemum að almenningur í landinu gerðist sekur um að styðja slíkt hyski og skítapakk jafn ákaft í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum og raun bæri vitni.

Greininni lauk svo á því að höfundur hennar hvatti Aðalvíkinga, sem og landa sína alla, að segja valdaíllyrmum landsins stríð á hendur og freista þess að binda í eitt skipti fyrir öll endi á stelsýki þeirra og óvandað hjartalag.

-Ja, hvur djöfullinn sjálfur, varð Hinriki Guðmundssyni forstjóra Hraðfrystihúss Aðalvíkur og forseta bæjarstjórnar, að orði þegar hann hafði stautað sig í gegnum grein Jóns rithöfundar í "Brunninum". Hann reif til sín símann og hringdi í Ólaf ritstjóra "Brunnsins" og spurði með óduldu þjósti, hvað svona óþverragrein í "Brunninum" ætti að fyrirstilla; hvort hún þýddi nýja ritstjórnarstefnu blaðsins - eða hvað?. -Þú skalt athuga það, kall minn,urraði Hinrik að Ólafi ritstjóra, -hvað svonalagað kann að hafa í för með sér fyrir jafn skuldsett blað og "Brunnurinn" svo sannarlega er. Ólafur reyndi að verja sig með því, að hann hefði alltaf auglýst, að blaðið væri öllum opið varðandi greinarskrif af öllu tagi.

-Hverskonar helvítis bull er þetta, hvæsti Hinrik á móti. -Þú skalt gera þér grein fyrir, að það eru takmörk fyrir öllu. Og ef ég sé meira af svo góðu í blaðinu hjá þér eftir þennan helvítis aumingja, sem búinn er að hreiðra hér um sig með tveimur kellíngum, er mér að mæta.

-Já, það er best að skoða aðsent efni betur eftirleiðis. Satt að segja hugsaði ég ekkert út í hvað stóð  í greininni, áður en ég prentaði hana í blaðið, kjökraði Ólafur bljúgur og undirgefinn og ók sér í ritstjórastólnum.

-Þetta líkar mér að heyra, svarði Hinrik, ögn mildari á manninn, en samt ekki alveg laus við hótunartón í röddinni. -Þú verður alltaf að skoða aðsent efni ofan í kjölinn og út frá öllum hliðum og hafa ætíð í huga hvað kemur sér best fyrir byggðarlagið. Níð, óhróður og skemmdarverkaskrif falla náttúrlega ekki undir það markmið.

-Nei, auðvitað ekki.

-Jæja vinur. Við getum þá treyst því að svonalagað gerist ekki aftur.

-Já  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Glæsilegt. Svona er raunveruleikinn.

Níels A. Ársælsson., 24.3.2007 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband