Leita í fréttum mbl.is

Umbúðir og innihald. Hvernig vinstriflokkur er VG þegar allt kemur til alls.

Í Fréttablaðinu í dag, er grein eftir Svandísi Svavarsdóttur undir fyrirsögninni: ,,Vinstri græn - umbúðarlaus". Mér datt þegar í stað í hug, eftir að hafa lesið yfiskriftina, að þarna væri áreiðanlega á ferðinni afdráttarlaust tímamótaávarp um allan sannleikan viðvíkjandi Vinstrihreyfinguna - grænt framboð og jafnframt upplífgandi herhvöt til allra róttækra vinstrimanna, nær og fjær, að blása nú til öflugrar baráttu fyrir réttindum verkalýðsstéttarinnar.

En auðvitað varð ég fyrir heilmiklum vonbrigðum við að lesa sjálfa greinina, sem ég kraflaði mig í gegnum samviskusamlega, allt til enda. Það sem vakti fyrst athygli mína, er þessi sérkennilega ládeyða, sem svífur yfir vötnum; einhverntímann hefði maður kallað svona lagað, moðreyk eða holtaþokuráf. En hvað um það, Svandís byrjar á því að kasta fram kenningu um, að það séu ekki bara áherslunar á ,,umhverfisvernd, velferð og kvenfrelsi?" sem laði fólk að VG í skoðanakönnunum, heldur séu ,,andrúmsloftið, áferðin, og málflutningurinn" ekki síður til þess fallin að glæða áhuga kjósenda á fyrirtækinu. Hvað Svandís á þarna nákvæmlega við er ekki gott að segja, það verður víst hver og einn að reyna að finna það út.

Síðan heldur Svandís áfram og segir: ,,Við ætlum að leggja okkar að mörkum til að kosningabaráttan verði jákvæð og skemmtileg, og við ætlum þess vegna fremur að tala fyrir okkar áherslum og stefnumálum en að setja út á stefnumál annarra flokka". Hvern fjárann er kosnigastýran að fara? Maður fær á tilfinninguna að hún og hennar liðsveit ætli sér að hoppa og tralla í gegnum kosningabaráttuna eins og hverjir aðrir discovæddir stuðboltar. Hvað áherslunar og stefnumálin varðar, vona ég að þær verði ekki eins og fyrir síðustu alþingiskosningar þegar VG skrölti í gegnum kosningabaráttuna á dauðmeinlausri og almennt orðaðri stefnuskrá, sem greinilega hafði verið sullað saman til þess eins að flokkurinn gæti verið gjaldgengur í ríkisstjórn með hverjum sem er. Guð forði okkur frá, að þurfa að horfa upp á annað eins hörmungarleikrit aftur.

Í niðurlagi greinar sinnar kemst kosningastýran loks á smá-flug, afar lágt að vísu, en flug samt. ,,Fyrst og fremst leggjum við vinstri græn þó áherslu á að tala skýrt", segir stýran. ,, Við viljum að kjósendur geti treyst því sem við segjum - að við komum til dyranna eins og við erum klædd." Auðvitað er ég sammála því, að fólk eigi almennt að vera hreint og beint í samskiptum sínum við heiminn eins og hann birtist hverju sinni - og að hver og einn eigi að koma til dyranna eins og hann er klæddur. En þá vaknar spurningin: Hvernig lítur klæðaður VG út, dags daglega? Að minnsta kosti er ég hræddur um að sá góði flokkur birtist ekki í dyragættinni uppáklæddur vinnuskyrtu og gallabuxum að hætti erfiðisvinnumanna. Og þá kem ég að helsta veikleika VG sem trúverðugs stjórnmálaflokks. Vinstrihreyfingin - grænt framboð kynnir sig iðulega sem róttækan vinstriflokk. Samkvæmt mínum skilningi, er róttækur vinstriflokkur afl sem byggir í grunninn, að minnsta kosti, á baráttu verkalýðsstéttarinnar til aukinna áhrifa og velsældar, með öðrum orðum: stéttarbaráttu. En þar stendur hnífurinn í kúnni. VG er nefnilega ekki þessháttar flokkur, þrátt fyrir að innan flokksins séu margir sannir og staðfastir verkalýðssinnar og nægir að minna á Ögmund Jónasson í því sambandi, fremstan meðal jafningja. Mér er nær að halda, að þeir sem ráða raunverulega ferðinni í VG vilji ekkert með verkalýð og verkalýðsbaráttu hafa, af því að ekki ,,inn" að mati þessa ágæta fólks; það sé púkó og illa lyktandi að leggja áherslu á svoleiðis pólitík. Flokkur sem kallar sig vinstriflokk, já og það róttækan þegar vel liggur á eignunum, en vill ekkert með verkalýðsbaráttu hafa, er í mínum augum enginn vinstriflokkur og kemur þar af leiðandi ekki til dyranna eins og hann ætti að vera klæddur, heldur eins og góðborgari í ódýru leikriti. Það skiptir nefnilega engu máli í hvernig umbúðum Svandís og co vöðla utan um málflutning VG, eða hvort engar umbúir verða notaðar, ef vörumerkið á innihaldinu er rangt.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Er "dalalæða" ekki ágætis nafn líka ?

Níels A. Ársælsson., 2.4.2007 kl. 23:09

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú talar að minnsta  kosti hreint út Jóhannes minn. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.4.2007 kl. 11:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband