Leita í fréttum mbl.is

Siv, bankalýgin og Framsóknarflokkurinn.

Í kosningaþætti, sem nú er nýlokið á Stöð 2., með fulltrúum stjórnmálaflokkanna í Suðvesturkjördæmi, lét heilbrigðisráðherran, Siv Friðleifsdóttir, sig hafa að draga fram lýgina um að Ögmundur Jónasson hafi sagt opinberlega, að reka ætti bankana úr landi. Ég veit ekki af hvaða hvötum fólk tekur til bragðs að éta sömu lýgina upp aftur og aftur án þess að geta með nokkru móti staðið við orð sín. Fyrir u.þ.b. 3-4 vikum átti ég í orðaskaki á blogginu við einn af frambjóðendum Framsóknarflokksins um þetta mál fyrir . Er skemmst frá að segja að framsóknarstjarnan gat með engu móti fært rök fyrir að Ögmundur hefði látið orð falla um að hann vildi reka bankana úr landi, þrátt fyrir yfirlýsingagleði hennar í upphafi. Það varð því ekki að undra þegar ég heyrði heilbrigðisráðherrann Siv reka upp sama andskotans lygagólið því ég veit fullvel að hún getur ekki staðið við þessa fullyrðingu sína fremur en framsóknarframbjóðandinn sem ég átti bloggviðskipti við.

Það er ekki laust við, að maður freistist til að hugsa sem svo, að líklega sé Framsóknarflokkurinn meira spillingar- og óheiðarleikabæli en áður var talið og er þá mikið sagt. Og í þessu ljósi er varla neinum blöðum um það að fletta, að það hlýtur að vera þjóðhagslega hagkvæmt að kjósendur leggi þennan sóðasöfnuð niður í kosningunum í vor.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Jóhannes.

Ég get fallizt á það með þér að leggja Framsókn niður, en það gengur ekkki að segja menn ljúga þessu með Ögmund og bankana.

Náðu þér bara í eintak af fréttablaðinu frá 4. nóvember 2006 og finndu viðtalið við Ögmund.

"Ögmundur Jónasson, alþingismaður og formaður BSRB, segir það til vinnandi að senda viðskiptabankana úr landi til að geta aukið jöfnuð í samfélaginu."

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 18.4.2007 kl. 23:42

2 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Hér fer á eftir pistillinn á heimasíðu Ögmundar sem Fréttablaðið vitnar í. Eins og lesendur geta séð nefnir Ögmundur hvergi að það eigi að reka bankana úr landi:

,,Ólína, góðvina þessarar síðu, nánast fastapenni í lesendadálki, setur fram mjög umhugsunarverða spurningu, sem er meira en þess virði að menn hugleiði. Hún spyr:"Íslenskir bankar græða 120 milljarða á níu mánuðum þeir greiða tíund vegna gróðans á síðasta ári eða um 12 þúsund milljónir. Hve mikið þyrfti hver Íslendingur að greiða meira í beina skatta á ári til að greiða jafn mikið og bankarnir gerðu vegna liðins árs?"

Án þess að ég kunni svarið nákvæmlega þá er engu að síður ljóst að við erum ekki að tala um upphæðir, sem íslenska launaþjóðin stendur eða fellur með.

Sú hugsun sem skrif Ólínu vekja er þessi: Með einkavæðingunni, gróðahyggjunni og braskvæðingunni hefur íslenskt samfélag breyst – eða öllu heldur, því hefur verið breytt. Eignir samfélagsins hafa verið settar í hendur nokkurra einstaklinga, sem makað hafa krókinn. Misskipting og ranglæti þrífst og breiðir úr sér sem aldrei fyrr. Spurningin er þá eftirfarandi: Er jafnaðarsamfélaginu fórnandi fyrir 12 milljarða og nokkra stráka og stelpur í silkigöllum; þotuliðið? Eða eigum við að snúa spurningunni við: Er þotuliðinu fórnandi fyrir meiri jöfnuð og félagslegt réttlæti? Mitt svar er játandi, einnig svar Ólínu.

Um hina nýju milljarðamæringa og um þá sem skópu ranglætið með pólitískum gjörðum sínum, vefst Ólínu ekki tunga um tönn: "Burt með þá sem bera ábyrgð á svona óréttlæti og þá sem nærast á því. Menn breiða ekki yfir það með hoppi og hí með listamönnum í Kvosinni eða með því að ganga í prósessíu inn kirkjugólf í úthverfunum og gefa smámynt til kirkjustarfs."

Ég hvet lesendur til þess að kynna sér bréf Ólínu í heild sinni HÉR, einnig bréf Gunnars Th. Gunnarssonar, sem sýndi mér þann heiður að skrifa til síðunnar með sjónarmið, sem ganga þvert á boðskap Ólínu, sbr. HÉR."

Eins og sjá má af ofanrituðu, gengur ekki að halda því fram að Ögmundur hafi lagt til að reka bankana úr landi. Þeir sem það gera eru í það minnsta að segja ósatt.

Jóhannes Ragnarsson, 19.4.2007 kl. 02:10

3 identicon

"Er þotuliðinu fórnandi fyrir meiri jöfnuð og félagslegt réttlæti? Mitt svar er játandi"

-segir Ögmundur Jónasson.

Hann á augljóslega við eigendur bankanna og annað "gróðahyggjupakk" sem hann tilgreinir sérstaklega í pistli sínum.

Bankarnir myndu nú augljóslega fylgja eigendum sínum þegar þeim yrði fórnað á altari forræðishyggjunnar.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 08:30

4 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Þotuliðið er ekki bankarnir og bankastarfsemi almennt. Eins og þú eflaust veist voru ríkisbankarnir flokksgæðingavæddir á sínum tíma. Alveg eins og bankarnir voru færðir einkavinum, þá hlýtur að vera hægt að samfélagvæða þá aftur. Ef að samfélagsvæðing bankanna myndi hafa í för með sér meiri jöfnuð og félagslegt réttlæti. þá er silkidressuðu þotuliði fórnandi fyrir slikan ávinning.

Eftir stendur að Ögmundur hefur hvergi vikið að því orði að hann vilji reka bankana úr landi. Allt tal framsóknarmanna og annarra um slíkt verður því að skoðast sem veruleg hagræðing á sannleikanum.

Jóhannes Ragnarsson, 19.4.2007 kl. 08:55

5 identicon

Jóhannes, 

Það er greinilega himinn og haf á milli skoðana okkar á ummælum Ögmundar. Þannig að þú og lesendur hér á vefnum þínum verða bara að gera það upp við sig, án frekari aðstoðar frá mér, hvor okkar hefur rétt fyrir sér.

Hafðu það gott og gleðilegt sumar.

kveðja,

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband