Leita í fréttum mbl.is

Af ættmennum Gabríels Jónssonar.(1.)

Páll Pétursson, faðir föður míns, var líka hávaxinn en vel þokkalega feitlaginn og með samskonar nef og pabbi. Ég sá hann aldrei öðruvísi en alvarlegan og þungbrýndan, og röddin var rám og ruddaleg. Iðulega lét hann sem hann sæi mig ekki ef ég varð á vegi hans. Það var nefnilega ekki til siðs hjá honum að skipta sér af börnum og gilti þá einu hvort það væru barnabörn hans sem í hlut áttu, að undanskildum Baldri frænda mínum, en hann er sonur Gerðar föðursystur minnar. Það var nú meira hvað þessi leiðindakarl var hrifinn af Baldri, enda var Baldur leiðindakrakki á heimsmælikvarða og síðar á ævinni alræmdur svikahrappur og glæpamaður. Ekki minnist ég þess að Páll afi hafi nokkurn tímann tekið mig tali, en tvisvar sinnum man ég eftir að hann urraði til mín þegar ég var í heimsókn hjá honum með foreldrum mínum, ,,að ég ætti ekki að vera þvælast fyrir.”

            Sólrós Jónsdóttir, föðuramma mín, var fyrir sína parta lítið skárri en karlinn hennar, en á annan hátt þó. Hún var svo snobbuð og fordómafull, að stappaði nærri fullkomnum viðbjóði að vera nálægt henni þegar hún var í ham. Í hennar huga voru menn ekki menn nema þeir væru staðfastir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins. Að hennar áliti voru framsóknarmenn ómenni, en kommarnir úrhrök. Það var einna helst að hún gæti liðið kratana, enda voru þeir um hennar daga, kunnir fyrir fylgispekt sína við Íhaldið. Samt náðu þeir ekki svo hátt í virðingarstiga ömmu minnar að teljast til fullgildra manna; þeir voru varla nema einhverskonar trekvartmenn í hennar augum.

            Þegar réttindabarátta þeldökkra stóð sem hæst í Bandaríkjum Norður Ameríku, var gamla konan æf. Hún skildi ekki hvernig í ósköpunum þessi villilýður gat hagað sér í besta landi veraldar. Það var hennar vissa að blámenn væru af annarri dýrategund en hvítir menn. Eða ölluheldur, væri hvítt fólk menn, en negrar dýrategund. Og mikið varð hún amma mín kát þegar spurðist að séra Marteinn Lúter King  hefði verið myrtur. ,,Lógað” sagði hún glaðhlakkalega um örlög séra Marteins, því það eru menn sem eru myrtir en skepnur drepnar, eða þeim er lógað. Og ekki fagnaði kerlingin minna þegar fluttar voru fréttir af ódæðisverkum Ku Klux Klan. Þá klappaði hún saman lófunum og hrópaði upp yfir sig af fögnuði: -Já!!!, eins og uppáhaldsliðið hennar í fótbolta hefði skorað mark og tekið forustu í leiknum.

            Víetnamstríðið var ömmu minni mikið áhyggjuefni, sem og afa og foreldrum mínum. Í Vietnam áttu guðhræddir Bandaríkjamenn svo sannarlega í höggi við kommúnísk úrhrök; það lægsta af öllu lágu á gjörvallri jörðinni. Mér er í fersku minni hvað foreldrar mínir hlustuðu andaktug á fréttirnar af hildarleiknum þar austurfrá. En það virtist alveg sama hvað Bandaríkjamenn sprengdu mikið, eða Johnson forseti og síðar Nixon forseti sögðu eða fyrirskipuðu, alltaf risu hin gulu smávöxnu kommúnísku úrþvætti, undir stjórn Ho Si Minh, upp aftur og héldu áfram sínum fáheyrða djöfuls- og hrottaskap í gegn Boðberum Frelsis og Lýðræðis, sem og Suðurvíetnömum sem Ho Si Minh og hans djöflar vildu ólmir knésetja undir sína stjórn. Þetta voru hryllilegir tímar, eins og gefur að skilja, í augum minna nánustu. Og þegar við bættust stúdentaóeirðirnar, sem kenndar eru við árið 1968, var fólkinu mínu hér umbil öllu lokið. En þegar Íslenska þjóðin lét sig hafa að kjósa Dr. Kristján Eldjárn sem forseta lýðveldisins varð heilmikið uppnám í fjölskyldunni, og afi fékk hjartaáfall og dó næstum því, en tókst þá naumlega að skrimta en náði sér eiginlega aldrei af þessum krankleika. Hann fékk svo annað hjartaáfall, mun svæsnara, daginn sem Vinstristjórnin tók við völdum 1971, og dó þegar í stað. Hann þoldi ekki lýðræðisfyrirkomulagið betur en þetta þegar til kom.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Þetta hefur verið fyrirmyndar heimili og einstaklega barnvænar uppeldisaðferðir í hávegum hafðar.

Níels A. Ársælsson., 28.4.2007 kl. 18:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband