Leita í fréttum mbl.is

Því þambaði hún ekki bjórinn áður en hann féll á tíma?

cat3_1276141.jpgÞað er sorglegra en tárum taki að Brynhildur Pétursdóttir skuli ekki hafa þambað allan jólabjórinn sem gekk af fyrst henni þykir svona mikil sóun af því að hella honum niður. Þessístað rambar hún eins og vofa uppí ræðupúlt Alþingis og hrín yfir því óréttlæti heimsins að jólabjór megi aðeins drekka á jólum annars skuli honum sturtað í holræsið. Þó held ég hafi lyfts örlítið á henni brúni þegar fjármálaráðherra fór að gráta með henni þó svo hann hafi ekki, svo menn viti, reynt að dæla í sig afgangsbjórnum sem var tortímingunni að bráð.

Annars þarf enginn að hafa áhyggjur af afdrifum jólabjórsins sem landsmönnum tókst ekki að drekka sig vitlausa af. Hinn útrunni jólabjór fór nefnilega að stórum hluta í áfengisgeymslu frú Ingveldar og Kolbeins Kolbeinssonar skrifstofustjóra og framsóknarmanns og á þeim bæ er áfengi ekki hellt niður viljandi. Afgangurinn lenti svo í öruggum höndum fólks eins og Máríu Borgargagns og Indriða Handreðs, Brynjars Vondulyktar og Óla Apakattar. Og á ýmsum útvöldum stöðum til viðbótar er enn verið að skála í jólabjór.

Já það er sannarlega hryggilegt að þingdraugum með grátstaf í kverkunum skuli ekki hafa auðnast að slafra í sig öllum þeim jólabjór sem framleiddur var fyrir síðustu jól. Það bendir til að ekki fylgi mikil einurð gráthljóðum þeirra. Sem betur fer er stutt í páskabjórinn og þá fær frú Brynhildur Pétursdóttir, sem og hinn grátbólgni fjármálaráðherra, tækifæri til að sanna hvað í þeim býr þegar baráttan verður hvað hörðust við að klára ölið áður en það fellur á tíma og hverfur klókainu á vald.


mbl.is Fáránleg sóun á jólabjór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Ég sé að þú ert lausnamiðaður og lausnir núna minna nokkuð á afdráttarlausar lausnir Lúðvíks Jósepssonar. Þegar hann var spurður um það í sjónvarpi hvernig ætti að eyða svonefndu kjötfjalli.

Lúðvík sagði það mjög einfalt. Bara éta það. 

Kristbjörn Árnason, 21.1.2016 kl. 14:36

2 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Bjórnum hefði að sjálfsögðu mátt hella í svín. Hann hefði eflaust gert þeim bara gott eitt. Fyrir utan það hvað þeim hefði getað liðið vel í stíum sínum.

Kristbjörn Árnason, 21.1.2016 kl. 14:39

3 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Svo er mér sagt að bjór sé kjördrykkur ofaní bolakálfa sem aldir eru upp í nautaket. Hamborgarar úr þessháttar gripum eru víst engin fantafæða.

Jóhannes Ragnarsson, 21.1.2016 kl. 15:29

4 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Tja og síðan má velta því fyrir sér hvort jólabjór geti talist jólabjór á páskum... og páskabjór standi undir nafni á aðventunni.

Því er ávallt haldið fram að vatn renni auðveldustu leiðina, kannski það eigi við ölið einnig.

Sindri Karl Sigurðsson, 22.1.2016 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband