Leita í fréttum mbl.is

Baldur að Bessastöðum að því tilskyldu að ...

sveit.jpgAuðvitað væri verulega skæslegt að fá blessaðan öðlinginn hann Baldur Þórhallsson á Bessastaði, að því tilskyldu að þar sé rekinn voldugur og þjóðlegur búskapur. Það væri ekki minna en dásamlegt fyrir höfuðborgarbúa, sem og aðra landsmenn, að taka sér lystitúr útá Álftanes um helgar og sjá hinn vaska ESB-pilt úr háskólanum stunda gegningar að vetrum, dreifa taði um velli, slóðadraga eða berja taðið með kláru að vori og sveifla orfi og ljá eins dansmær um hásláttinn. Að hausti tæki svo við smalamennska, réttir og heimaslátrun ásamt sláturgerð og blóðpönnukökum. Þá væri Baldur trúboði orðinn þjóðlegur framsóknarkrati með tóbaksdósir og neftóbaksklút uppá vasann.

Eflaust væri auðvelt að selja ferðamönnum aðgang að því að sjá ,,stjórnmálafræðinginn" sem breyttist í einagraðan bóndadurg utan ESB og alls heimsins mjalta kýr uppá gamla mátann, hleypa til ánna á aðventunni, sparka hænsnunum af eggjunum í hænsnakofanum eða leiða yxna kú undir griðunginn. Hinsvegar er ómögulega að segja hvað gæti orðið um hann Felix ef Baldur gerist húskarl og smali að Bessastöðum með öllum þeim flórmokstri og hlaupum eftir rolluskjátum sem þeirri vegsemd heyrir til. Felix er óttalega óbóndalegur og hætt við að blessaðar skepnurnar verði sturlaðar af hræðslu ef Baldur færi með hann með sér í fjós og fjárhús.

Svo fer velferð Baldurs og Felixar auðvitað mikið eftir því hver verður húsbóndi að Bessastöðum eftir að félagi Ólafur Ragnar bregður þar búi. Nú ku Framsóknarmenn og Sjálfstæðishetjur leita dyrum og dyngjum að hæfilegri persónu til að stýra búi og þá væntanlega Baldri húskarli að Bessastöðum. Leit þessi gengur að vonum illa því að bæði er að framsóknar- og íhaldsjálkar eru einkar illa búmannlega vaxnir nú til dags og þá er ekki síður til trafala að þeir hafa leiðindaorð á sér fyrir bánkarán og aðrar ófélegar tiltektir. Er örvæntingin orðin svo mikil í leitarflokknum að þegar leitarmenn eru drukknir tala þeir fullum fetum um að vekja löngu liðnar sjálfstæðishetjur uppúr gröfum sínum með forsetaframboð í huga; eru þar ekki minni persónur nefndar til sögunnar en byskubbarnir Brynjólfur Sveinsson og Jón Vídalín ásamt þeim Gretti Ásmundarsyni, Jónasi Hallgrímssyni og Njáli bónda Þorgeirssyni að Bergþórhváli, en hvort nefdir heiðursmenn hafi verið hallir undir íhaldsframsóknarmennsku er síðan annað mál.


mbl.is Baldur og Felix á Bessastaði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband