Leita í fréttum mbl.is

Viðskipti frú Ingveldar og ættfræðingsins sáluga

ing17Samkvæmt merkri ættfræðiskrá eru þær Ingveldur Thorarensen og frú Ingveldur skyldar í áttunda lið og báðar skírðar eftir ættmóðurinni Ingveldi Garð-Bjálmadóttur, er uppi var á fyrrihluta tólftu aldar. Ættmóður þessarar er hvergi getið í gömlum heimildum, en lífseigar sögusagnir segja að Ingveldur þessi hafi verið allra kvenna áköfust, ástgjörn í betra lagi og sterk sem naut. Á leið sinni frá Ingveldi Garð-Bjálmadóttur til nútímans hafa því miður ýmsir óæskilegir kvistir skarast við annars ágæta ætt þeirra Ingveldanna er fyrst vóru nefndar, en frú Ingveldi hefir tekist að fá ættfræðinga til að höggva þessa kvisti af og er þeirra nú hvergi getið í ættartölum hennar og Ingveldar þeirrar er áskotaðist RafurmagnsBanz í dag.

Á sínum tíma réði frú Ingveldur merkan ættfræðing til að gjöra ættartölu hennar. En þá frú Ingveldur leit yfir töluna atarna, sem fræðingurinn hafði með ærinni fyrirhöfn tekist að snara saman, sá hún strax að við svo búið mátti eigi standa. Í forfeðra og formæratalinu komu upp nöfn sem frú Ingveldi kómu spánskt fyrir sjónir og henni leist ekki nema í illu meðallagi géðslega á. Þarna voru Gottskálk grimmi, Björn frá Öxl og Arnes nokkur Pálsson, svo einhverjir séu nefndir, ennfremur Solveig landafjandi, Grímur borgari og Hallgerður langbrók, kona Gunnars í Hlíðarenda. Öllum þessum nöfnum lét frú Ingveldur sópa út úr ætt sinni á einu bretti. Þarna var líka fullmikið af undimálskvikindum og mannleysum fyrir smekk frú Ingveldar og satt að segja óaði henni við að vera komin út af slíkum endemum.

Þá olli nafnið Jón Þeófílusson frú Ingveldi nokkrum heilabrotum, því hún kannaðist við að hafa séð nafnið áður. Svo kom á daginn að hún hafði séð þetta nafn í Íslandsklukkunni; þar er Jón Þeófílusson sagður galdramaður að vestan og lýst sem sérlega fáfróðu og mislukkuðu lítilmenni, enda var hann að lyktum brenndur á báli í sögunni á sjálfum Þingvöllum. Þessi uppgötvun varð til þess að frú Ingveldur fór að efast um að ættfræðingurinn væri allur þar sem hann var séður fyrst að blandaði persónu úr skáldsögu inn í forfeðratal hennar. Nokkrum dögum síðar fannst ættfræðingurinn andaður að heimili sínu og var um leið ættartala frú Ingveldar á bak og burt. Í dánarvottorðinu segir, að maður þessi hafi látist af völdum sprengingar í scrotum. Og nokkrum dögum þar á eftir birtist merk grein á móti ættfræðingum eftir frú Ingveldi í Morgunblaðinu. Allar götur síðan hafa ættfræðingar haft hægt um sig og farið hulduhöfði, nema sá spaki maður Oddur Helgason, en hann er nú líka enginn meðalmaður að atgerfi. 


mbl.is „Hver vill ekki eignast Benz?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband