Leita í fréttum mbl.is

Þeir aðhöfðust meira um helgina en að halda eitthvað um ókunnugan mann

polis2_1271053.jpgÆtíð er jafn upplífgandi að sjá fyrirsagnir fjölmiðla um að einhver hafi verið hnepptur í gæsluvarðhald. Nú hefir lögreglan okkar mann í haldi sem hún heldur að sé frá Marokkó en gæti eins vel verið frá Færeyjum eða Hjaltlandi, nú eða bara frá Íslandi. Minnisstætt er þegar lögregluþjónarnir í Reykjavík tóku manngarm, sem þeir hugðu vera Íslending en var í raun frá Finnlandi, og lokuðu hann inni af því að hann vildi ekki tala íslensku og þvaðraði á óskiljanlegu hrognamáli; lögregluþjónarnir héldu nefnilega að þessi náungi væri að gera gys að þeim og lúskruðu því á honum og létu dúsa einan við vatn og brauð í fangaklefa í rúman mánuð; og því aðeins leyfðu þeir manninum út að hann var dauður þegar þar var komið sögu.

En það þýðir ekkert fyrir lögregluna að halda að skjólstæðingur hennar sé frá Marokkó, hún verður að vita. Og lögregluprjónarnir aðhöfðust fleira um helgina en að halda eitthvað um mann sem þeir þekkja ekki: Aðfaranótt laugardags handsömuðu þeir Brynjar Vondulykt og vörpuðu honum í klefa hvar fyrir vóru þrír nafntogaðir óráðsíumenn og öfuguggar. Að þessum þrifalega félagsskap mátti Vondalyktin búa fram á sunnudagsmorgun, og satt að segja var karlanginn ærið ófélegur þegar hann var látin laus, með glóðaraugu á báðum og buxnalaus. Þegar Brynjar bað um að fá buxurnar sínar, eða einhverjar aðrar buxur áður en hann færi úr húsi, ærðist Hálfdán varðstjóri og fleygði honum á skyrtunni einni fata út í port. Það var því ekkert annað í stöðunni fyrir Vondulyktina en að halda fyrir ósómann á sér, í bak og fyrir, og halda fótgangandi heim til vina sinna, frú Ingveldar og Kolbeins.

Nú er svo komið að Brynjar Vondalykt er að undirbúa málshöfðun á hendur Hálfdáni Varðstjóra og og ruddamennana í fangaklefunum, en þeir djöflar gengu hart að Brynjari, einkum meydómi hans, svo að hann er víða helaumur um kroppinn eftir aðfarirnar. Ef Vondalyktin vinnur málið eru tugir milljona í höfn hjá honum, Hálfdán verður settur af og öfuguggarnir líkast til hengdir án frekari umsvifa. Það ljótasta í málinu, segir Brynjar, sé það að Hálfdán hafi slegist í lið með hinum illmúruðu föngum í viðleitni þeirra við að kvelja sig; hafi varðstjórinn verið ber að ofan og með opna buxnaklauf og allur hinn illúðlegasti og upp úr koki hans hafi hvað eftir annað hrokkið viðurstyggilegar fryggðarstunur, ekki ólíkar urri í villudýri í skógi. Trúlega verður þessu leiðindamáli þó lokið fyrir kvöldmat með því að Brynjari verður boðinn hundraðþúsundkall fyrir að halda kjafti og falla frá málshöfðun.


mbl.is Hnepptur í tveggja vikna varðhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband