Leita í fréttum mbl.is

Ólafur bóndi undir grindum

monni2.jpgHafa menn, sem þurfa að ná sambandi við Ólaf bónda, leitað undir grindunum í fjárhúsum hans að Miðhrauni I. í Miklholtshreppi? Undir grindum fjárhúsa má finna fleira merkilegt en sauðfjársaur, svo sem eins og mýs, músarunga, leyfar af fyrrverandi fuglum, flækingsketti og endrum og sinnum sakamenn í felum. Og fyrst einhverjir sparifjáreigendur telja sig eiga fé hjá Ólafi stórbónda og útgerðarmanni þá skulu þeir veskú skríða undir grindurnar í fjárhúsinu að Miðhrauni I. og leita af sér allan grun.

Reyndar er dálítið kyndugt að sparfjáreigendur hafi falði Ólafi bónda að geyma sparfé sitt. Það getur eiginlega ekki verið að það sé fullorðið fólk með þroskaða vitsmuni sem beðið hefir Ólaf um að hafa ofan fyrir péningunum sínum. Þetta hljóta því að vera krakkar, yngri en tíu ára, sem farið hafa með sparibauka sína til Ólafs og afhent honum þá. Og þar eð títtnefndur Ólafur bóndi er dálítið upp á péningahöndina, þá liggur í hlutarins eðli, að fái hann péninga í höndur er honum fyrirmunað að sleppa þeim úr hendi án eftirgangsmuna og átaka.

Þeir segja það í Miklholtshreppi, að skjaldan hafi í þann hrepp komið utansveitarmaður er hafi verið meiri snæfellingur, samkvæmt skilgreiningu séra Árna á þeirri manntegund, en einmitt sá ágæti bóndi Ólafur Ólafsson, sem land nam á Miðhrauni I. Og mikil var ádáun Miklhreppinga á þessum aðkomna sveitunga þegar hann hóf sig til flugs á þyrlu sinni er hann þurfti að bregða sér bæjarleið. Svo kanteraði þyrlan með stórbóndann innanborðs og kom þjótandi úr háloftunum og skall á bakið í grjóturð og spriklaði þar um stund eins og afvelta maðkafluga. Sem betur fer slapp Ólafur bóndi með lífsmarki úr þessum harkalega árekstri og hefir síðan látið sem minnst fyrir sér fara. Því hyggjum vér, ef krökkunum er alvara í að endurheimta sparibauka sína, farsælast væri þeim að steðja heim að Miðhrauni I. og hverfa beint undir grindur í fjárhúsum bónda og vita hvort hann kunni ekki að vera fólginn þar, ásamt sparibaukunum; undir taðsæng meðal nagdýra og flækingskatta.  


mbl.is Finna ekki Ólaf Ólafsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband