Leita í fréttum mbl.is

Og allt er þetta lið marínerað og gegnsósa af nýfrjálshyggjuórum og hrunsmenningu

mafia1_892301.jpgEkki eru þeir fríðir flokkarnir, hvorki ,,hæfnisnefndin" svokallaða, eða umsækjendahópurinn, sem ásælist stóla varaformanns Seðlabankans. Allt er þetta fólk margheilaþvegnir og ofstækisfullir kapítalistar, maríneraðir og gegnsósa af nýfrjálshyggjuórum, nýfrjálshyggjuskemmdarverkum og blindri auðvaldsþjónkun og peningahyggjuheimsku. Já, vinir mínir, ekki er það efnilegt og langt í land við að koma böndum á græðisyfirganginn og fáir virðast hafa lært nokkuð af Hruninu góða, sem breyttist á fyrsta kjörtímabili í endurreisn Gamla Íslands og upprisu allra bankabófanna og hinna gjörspilltu stjórnmálamanna; það var nú öll ,,Búsáhaldabyltingin" drengir mínir.

Og byltingin er langt undan - það grillir ekki einusinni í hana út við sjóndeildarhring í besta skyggni. Á Alþingi sitja bófaflokkar, hver öðrum verri og vitlausari en á hliðarlínunni dansa lukkuriddarar, mökkarar og illa áttaðir vitfirringar og þykjast vera að stofna sósíalistaflokk! Þvílíkir andskotans bögubósar! Það hafa margir lagt hönd á plóg í gegnum tíðina, við að afvegaflytja sósíalismann, ljúga allskyns vitfirringslegum stórmælum upp á þessa fögru hugsjón og fótumtroða allt sem þeir halda að til sósíalisma heyri. En þegar falsspámenn, hugsjónalausir og þekktir að eigingirni og græðgi, taka til við að predíka sósíalisma og safna kringum sig biluðum kverúlöntum, besservissurum, hassjóalistum og vesalingum, má með sanni segja að skörin sé farin að færast heldur um of upp í bekkinn. Og upp vaknar hin brennandi spurning: Er sanngjarnt, að hugsjónalaus og öfundsjúkur lukkuriddaralýður fái óáreittur að koma óorði á sósíalismann með því að þykjast vera að stofna sósíalistaflokk, meira að segja Sósíalistaflokk Íslands?!

Hvað þennan Seðlabanka varðar, þá væri viturlegast að leggja þann óþverra niður og reka þá sem þar um sýsla á fjöll. Þegar péníngastarfsemi væri úr sögunni í því húsi sem hýsir Seðlabankann, væri réttast að opna það hús upp á gátt fyrir fíkniefnasjúklinga og brennivínsberserki og leyfa þeim að haga sér þar að vild þar til þetta fræga mammonsmusteri hrynur til grunna. 


mbl.is Vilhjálmur formaður hæfnisnefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband