Leita í fréttum mbl.is

Þá Ólafur bóndi og Gölla kona hans töluðu um lóuna og láfuna

gun3Hún hét Gölla, kérlíng Ólafs bónda. Þetta var út af fyrir sig sæmilegasta kona, en óttaleg bora ef á reyndi. Eitt vorið stóð hún eins og þvara við eldhúsgluggann og hvimaði augum út um allt og ekkert. Ólafur bóndi sat við eldhúsborðið og ropaði hvað ofan í annað af skyrinu, sem frúin bauð honum að slafra í sig. Karlanginn skildi lítt í öllum þessum ropum og fór að bölva meðfram blástrunum og ók sér í herðum líkt því að ógrynni lúsa hefði verið helt niðrí hálsmálið hans.

En allt í einu kvað Gölla húsfreyja upp úr með, að lóan væri komin. En Ólafi bónda misheyrðist af því hann var önnum kafinn við að ropa og bölva og spurði til baka hvort láfan væri að koma. -Ójá, svarað konan að bragði, - víst er hún komin. Ólafi bónda varð svo hverft við orð konu sinnar að hann gleymdi að ropa meira en opnaði þess í stað buxnaklauf sína upp á gátt. Svo bætti konan við, vongóð í röddinni, að vonandi kæmi nú aunginn sem mundi skjóta greyið. En Ólafur bóndi hrópaði upp yfir sig: - Heldur þú kona að einhver mundi skjóta láfuna? - Já, sagði konan, - einhver soltinn aumingi væri vís til að gera það.

Nú varð Ólafur bóndi svo gáttaður af orðum konu sinnar að við lá að hann ryki upp með látum. Á síðustu stundu tókst honum að stilla sig og fékk sér slurk neftóbaks í nasirnar og í vörina. En konan var ekki af baki dottinn og minnti mann sinn á atvik, sem Ólafi bónda var með öllu hulið, en það fjallaði um þegar hann rotaði lóuna með grjótkasti, hérna bak við galtann á túninu. Aftur heyrðist Ólafi konan tala um láfa og í þetta sinn hefði hann heiðrað umrædda láfu með því að grýta hana eins og hún væri bersyndug. Og nú varð honum hugsað til þess þegar hann og aðvífandi drós, verið hafði gestkomandi hjá þeim hjónum, höfðu gamnað sér nokkuð ótæpileg bak við heykös á flötinni niður af fjárhúsinu. Þau voru í hvarfi frá bænum og glyrnum húsfreyju, en það sást til þeirra af næstu bæjum í sjónaukum og öll sveitin gnötraði af hlátri og Ólafur bóndi hafður að háði og spotti lengi á eftir. En nú stóð Ólafur bóndi upp úr hægindi sínu, færði sig að eldhúsglugganum og rýndi fast út á hlaðið og sagði svo vonsvikinn? - Hva - hvar er þessi láfa? En þá var Gölla húsfreyja búin að taka sér stöðu í búrdyrunum, sem vissu inn í eldhúsið, með hlaðna byssu í hönd, sem hún miðaði beint á eignmann sinn og skipaði honum að hypja sig út á stundinni, annars hefði hann verra af, því hún mundi aldrei, ekki undir nokkrum kringumstæðum, líða honum klæmast hér innanhúss og líkja saklausum fugli við einhverja láfu.  


mbl.is Lóan er komin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband