Leita í fréttum mbl.is

Hefjum sinuelda aftur til vegs og virðingar

eldurEkki viljum vér vera minni en þau lönd þar sem skógareldar geysa. Því miður höfum vér ekki enn nægilega skóga til að kveikja í svo af verði skógareldur. Nei nei. Gömlu mennirnir, forfeðurnir, glæpaurtirnar frá Norðvegi, létu þræla sína írska og skoska höggva landnámskóinn niður í brenni og til kolagerðar. Síðan hefir verið fátt um elda í skógum hjá oss. Þeir kalla þennan hégóma í Norðurárdal ,,gróðurfarselda" eða eitthvað ámóta skammarlegt. Enn skammarlegra er þó að ónáða slökkviliðsmenn með því láta þá eltast við auvirðilega sinuelda og sviðnan á mosaþembum.

Í þá gömlu góðu daga, þegar allt var gott og blessað og fólkið vinnusamt og guðhrætt, var maður sendur tíu ára og þar um kring með eldspýtustokk út á mörkina til að kveikja elda í sinu. Þetta var vandaverk, sem skyldi haga þannig að girðingarstaurarnir mundi ekki verða eldinum að bráð. En stundum varð lítt við ráðið og nokkrir girðingarstaurar voru að leik loknum eins og illa farnir eldibrandar. Þegar vindátt var hagstæð kveikti maður upp rétt fyrir ofan sjávarmál, en síðan sá golan um að láta heilu fjöllin standa í ljósum logum og reykurinn sást í öðrum héruðum. Já, maður hugsaði sér oft gott til glóðarinnar með Búlandshöfðann á vorin og indælt að sjá hann hverfa um stund í eldtungum og þykkum reykjabólstrum.

Nokkrum dögum eftir að sinan og mosadrullan voru brunnin var hlíðin orðin vel græn eins og upplitaður framsóknarskrokkur á Klaustri og fuglarnir réðu sér ekki fyrir kæti og byrjuðu að verpa í þúfnakollum, sem fyrir skömmu síðan voru brunarústir einar. Þegar lambfénu var sleppt út í frelsið vóð það þegar upp þangað sem eldurinn hafði logað glaðast og lömbin, þá lítil og óæt, átu sína fyrstu magafylli af splunkunýju grængresi. Um haustið vóru þau orðin gríðar stór og feit svo lýsið bókstaflega lak af af lærum þeirra og síðuhuppum þegar þau vóru orðin að hangiketi á jólunum.


mbl.is Mikil eyðilegging í Norðurárdal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband