Leita í fréttum mbl.is

Sagan af Olló matreiðslumeistara og einnig dálítið um skíthrædda ferðaokrara

kokkurÞað virðist vera rokin upp gífurleg skelfing í ferðamannabransanum vegna orðróms um að í sumar verði bara íslenskir ferðamenn á faraldsfæti um landið en aungir útlendingar. Strax á vordögum eru ferðaþjónustubændur farnir að kvarta undan Íslendingum, saka þá um fáheyrðan sóðaskap, áfengisfýsn og óspektir á almannafæri. Sennilega eru eigendur ferðamannastaðanna skíthræddir við að bölvaðir Íslendingarnir vilji ekki láta okra á sér og verði með nöldur, pex, hótanir og jafnvel barsmíðar þegar þeim verður gert að greiða krónur tvö þúsund fyrir eina kleinu og annað eins fyrir bolla af þunnu kaffigutli.

Nú eru það einhverjir gemsar, sem telja sig hafa yfirráð yfir volgum drullupollum, sem eru að ýfa burstirnar og hreyta ónotum í landa sína. Þessir grínarar lát líta svo út að þeir hafi aldrei heyrt af hjónunum, sem migu iðulega í litla laugarpollinn, sem þau þóktust eiga, stundum oft á dag, og seldu síðan útlendingum aðgang að herlegheitunum fyrir okurfé. Það var ekki laust við að sumir útlendingarnir væru hlandbrunnir þegar þeir stigu upp úr drullupollinum og hundskuðust á braut.

Þó tók út yfir allan þjófabálk þegar Olló skítkokkur tók að sér að reka vegasjoppu í ein tvö sumur. Það var búið að reka Olló af gjörvöllum skipaflotanum og eigendur veitingastaða í Reykjavík siguðu þá hann hundum, ef hann vogaði sér að biðja þá um vinnu. En það þókti fullgott fyrir ferðamanninn, einkum þann útlenska, að kaupa sér mat og kaffi hjá Olló, þar sem hann kokkaði langt úti á landi. Svo gerist það eftir síðara sumarið hjá Olló í sjoppunni, að Heilbrigðiseftirlitinu fór að berast erindi utan úr heimi, sum hver miður kurteisleg. Það hafði sem sé farið að bera á því að einstaklingar, sem ferðast höfðu til Íslands í sumarleyfum sínum, veiktust sumir hverjir hastarlega eftir heimkomuna og það svo að þeir höfðu týnt grunsamlega tölunni; höfðu, með öðrum orðum, dáið úr ókennilegri uppdráttarsýki eða öðru þaðan af verra. Sýnatökur leiddu í ljós, að hinir sjúku voru uppfullir af allrahanda kólíbaktéríum og öðrum baneitruðum óþverra, sem borist hafði inn í líkami þeirra. Á Íslandi bárust undir lokin böndin að veitingatéríu Olló við veginn, en engin leið var að sanna neitt. Að síðustu voru menn sendir í leyniför út á land mikið af fullkomnu sprengiefni með sér. Og eina kalda nóvembernótt sprakk vegasjoppa Olló í loft upp, svo rækilega að lítið sem ekkert varð eftir af henni. Í leiðinni sprungu niðurgrafinn bensíntankur og einnig hráolíutankur. Eftir varð mikill gígur og á barm hans var sett skilti, sem á stóð, ,,Hér fórst Olló matreiðslumeistari í voveiflegu slysi þann 23. nóvember. Blessuð sé minning hans."


mbl.is Íhuga að fylla upp í laugina vegna umgengni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband