Leita í fréttum mbl.is

Þessa dagana fer fram leit að Ólavíuhvarerviggu, svo hægt sé að kæra hana

ingv14.jpgÞótt langt sé um liðið man ég vel eftir stelpuhænsni, sem aldrei var kölluð annað en Ólavía hvar er Vigga, skrifað og sagt: Ólavíahvarervigga. Hún var brokkgeng, auminginn, og ekki við eina fjölina felld, neinei, það var af og frá. Ef farið var að tala um lauslæti um borð, en það kom oft fyrir, þá sveigðist umræðan einlægt furðufljótt að Ólavíuhvarerviggu og allir þóktust hafa einhverja hugmynd um hennar innstu og leyndustu afkima; meira að segja náttúrulausir skítadelar létu sem þeir hefðu líka vissu og reynslu af einhverju skuggalegu með Ólavíuhvarerviggu, en það hlustaði auðvitað aunginn vitiborinn maður á soleiðis skoffín.

Einn um borð kvaðst hafa fengið bæði lekanda og hjarðsveinasjúkdóm af Ólavíuhvarerviggu á einni og sömu kvöldstund og annar var grunaður um að laðað að sér fladdaraóværu eftir náin kynni við telpuna. Fimmtíu árum síðar er hann grunaður um að vera enn með sama fladdarastofnin á miðvígstöðvunum. Og drykkfelld var Ólavíahvarervigga á sínum umsvifamestu árum, blindfull á öllum böllum; ennþá fyllri þegar einhver leiddi hana um borð; loks skemmtilega grúttimbruðu þegar hún rankaði við sér í koju úti á sjó. Eftir að skipsfélagarnir komust á virðulegan aldur, orðnir afar og soleiðis, brá svo við að aunginn þeirra mundi eftir Ólavíuhvarerviggu og hafa allir margsvarið af sér kynni við þann kvenmann, fyrr eða síðar. Það er heldur aungvu líkara en jörðin hafi gleypt Ólavíuhvarerviggu í sig, en samt eru allir á einu máli um að ekki sé hún dauð. En hvernig þeir vita að hún sé lífs er afar sérkennilegt, því aunginn þóktist hafa þekkt hana í gamla daga og þá ekki síðar.

Svo kom að því að frú Ingveldur skrifaði bréf, stílað á Ólavíuhvarerviggu, en hefir ekki enn borist svar. Í bréfi sínu rifjar frú Ingveldur upp eitthvert fjölmennt drykkjuóráð, endur fyrir löngu, og það með, að hún, frú Ingveldur, hafi lagst með alræmdri drós, sem kölluð var Ólavíahvarervigga og hjá henni kveðst frú Ingveldur hafa glatað öðrum helmingnum af meydómi sínum. Frú Ingveldur ætlar nefnilega að höfða mál á höndur Ólavíuhvarerviggu um leið og hún finnst og krefja hana skaðabóta fyrir hin hálfa meydóm, sem fór forgörðum, og einnig vill frú Ingveldur fá Ólavíuhvarerviggu dæmda til tukthúsvistar fyrir að hafa lokkað sig til ósæmilegs athæfis, sem Guð gæti aldrei fyrirgefið. Er nú hafin leit að fornvinkvendi okkar, Ólavíuhvarerviggu, og verður þeirri leit ekki hætt fyrr en gæsin finnst. 


mbl.is Ólafía sigraði eftir æsispennu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Ég get lítið hjálpað þér að finna hana. Eina sem ég heyrði í "gamla daga" var að hún væri inná baði að éta súkkulaði.

Sigurður I B Guðmundsson, 25.5.2020 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband