Leita í fréttum mbl.is

Hann var mestur áhugamaður landsins um skriðuföll og snjóflóð

fall1.jpgHann Jón eitinn, sem kallaður var aumingi, til aðgreiningar frá öðrum Jónum, var mestur áhugamaður um skriðuföll og snjóflóð, sem uppi hefir verið á Íslandi. Hvunær sem von var á einhverju var Jón mættur og farinn að vakka um staðinn eins og soltinn refur, sem grun hefir um æti. Ef hann var svo heppinn að verða vitni að snjóflóði eða aurskriðu hoppaði hann hæð sína í loft upp og öskraði og veinaði af fögnuði. Flestir vóru á því að Jón eitinn aumingi væri fábjáni, innantómur andskotans lúði; aðrir voru fremur á því hann væri geðbilaður og léti sona þess vegna, væri máske með það sem kallað hefir verið géðklofi; enn aðrir töldu að Jón eitinn væri aunginn helvítis fáviti eða sturlaður á géðsmunum. Ónei, Jón væri illa örtuð skepna, rotinn inn í merg og stórhættulegur.

Langtímum saman var ekki neitt að gerast á áhugasviði Jón eitins aumingja og hann varð eirðarlaus, afundinn og hreytti ónotum og jafnvel viðbjóðslega orðuðum svívirðingum í fólk. Það var á þeim stundum, sem Jón reyndi að framkalla náttúruhamfarir upp á eigin spýtur. Hann var dulítið sona að vasast með dínamít uppi í fjallsupsum. Fyrir kom að honum tókst að sprengja einn og einn klett upp og þá horfði hann eftir grjótrennslinu niður hlíðina eins og í leiðslu. En hann fór vel með og sprengdi ekki nema þar sem aungin hætta stafaði af tilraunum hans.

En svo kom hann auga á eitt gríðarlegt bjarg, sem stóð framarlega á klettabrún, en niðrundan klettunum tók við snarbrött hlíð og þar fyrir neðan fjölfarinn þjóðvegur. Af hyggjuviti sínu sá Jón eitinn aumingi í höndum sér, að ef hann sprengdi frekar litla sprengju undir þeirri brún bjargsins er lengra stóð frá brúinni mundi það hafjast aðeins upp og slögvast fram af og þá yrði nú gaman. So, so fór Jón með dínímít upp á fjallsbrún og sprengdi á þaulæfðan og fumlausan hátt. Nú, kletturinn þeyttist af stað og rauk niður fjallið. En því miður fylgdi fjallsbrúin með og Jón eitinn aumingi. Hið mikla bjarg hafnaði auðvitað ofan á flutningabifreið, sem var á ferð um þjóðveginn, og flatti hana út, en svo kom dálítil grjótskriða í kjölfarið, ásamt Jóni eitnum, og lá þetta allt í kös neðan við þjóðveginn þá að var komið, bjargið stóra, Jón eitinn og flutningabifreiðin. En bifreiðarstjóri flutningabifreiðarinnar fannst aldrei og var hans þó lúsleitað út um allt. Hafa síðan margar kenningar verið uppi um hvarf þessa manns; hann hefir meðal annars komið fram á miðilsfundum og svarið fyrir og harðneitað því að hann sé dauður og haft í leiðinni uppi ljót orð um Jón eitinn aumingja. 


mbl.is Engar sterkar vísbendingar um yfirvofandi stórfellt hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband