Leita í fréttum mbl.is

Hún kisa mín gamla var stólpagripur og gleypti fleiri fugla og mýs en tölu varð á komið

jol3Það þarf ekki frekar vitanna við: Kattarandskotinn atarna hefir gleypt músina áður en henni tókst að hlaupa inn á skrifstofuna. Það er auðséð á kettinum, vambmikill sem hann er, að hann er nýbúinn að gleypa fleiri en eina mús og fleiri en tvær; ég mundi giska á tylft músa í belgnum á helvískum. 

Svo er það skelmissvipurinn á dýrinu, hann er blátt áfram uggvænlegur og glampinn í augunum er sannur morðglampi, - þekki ég þann glampa rétt, sem ég þekki. Ég man kött, glæsilega læðu sem ekki var allra, sem frá vori og fram á haust á hvurju ári, jagaði fugla af slíkri elju, að á hvurjum morgni var þvottahúsgólfið þakið fiðri. Ljóst var að kisa gat étið nokkra farfugla yfir nóttina, en var samt alltaf jafn liðug og rennileg. Spóar, stelkar, hrossagaukar, þúfutittlingar, kríur, hettumávar, óðinshanar og andarungar, allir hurfu þeir ljúft ofan í gin læðunnar okkar. Á haustin, þá farfuglarnir, sem sluppu undan kisu gömlu, voru flúnir til annarra landa og heimsálfa, hófst músavertíðin. Og það segi ég satt og get ekki sannara orð talað, en að þá fór kisa hamförum og veiddi og át þvílíkt magn músa, að sá ágæti músastofn hefir ekki enn borið sitt barr eftir þau strandhögg. Eitt sinn, síðsumars, náði hún að fella sjö næstum fleyga stokkandarunga í einum rykk; hún komst í veg fyrir þá þegar andamamma hugðist fara með hjörð sína út á vatn, en var svo seinheppin að leiðin lá einmitt um hlaðið á bænum. 

Já, hún kisa gamla var forkur til verka, sumir segja hún hafi verið morðóð, aðrir að hún hafi verið óseðjandi og enn aðrir að hún hafi verið sælkeri í mat og sókt í fjölbreytta fæðu. Minnst fjórum sinnum jagaði hún fullorðna hrafna, en það er vandi að veiða þann fugl. Mér er minnisstætt þegar hún kom á miklum hraða innum þvottahússgluggann með gargandi hrafn í kjaftinum. Á þvottahúsgólfinu reyndi krummi að berjast á móti, en allt kom fyrir ekki, og kisa lógaði þeim svarta og át hann þar til einungis vængirnir og goggurinn voru eftir. En það var lengi vond lykt út úr kettinum í kjölfar þeirrar máltíðar. Minka og melrakka, sem nálguðust bæinn, drap kisa miskunnarlaust; ennfremur krækti hún sér í silunga úr gilinu á fögrum sólskinsdögum. Já, hún kunni sko að gleypa mýs og fugla hún kisa mín gamla, enda var hún stólpagripur, og fiskmeti þókti henni sælgæti. Löngu síðar réði þessi annálaði veiðiköttur sig til hennar Grýlu, móður jólasveinanna, í embætti jólakattar og eru nokkrar harðla óþægilegar sögur, sem ekki verða sagðar nú, til veiðum kisu eftir það. 


mbl.is Dularfulla músahvarfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband