Leita í fréttum mbl.is

Óviðeigandi uppástöndugheit hásetaræfla

skip2Það er þriflegur fjandi að lítilfjörlegir hásetaskrattar skuli gera sig breiða með því að henda skít í góðgjörðamenn sína, sægreifana, og fella þennan fína kjarasamning sem greifarnir færðu þeim á silfurfati. Nú verður Valmundur Sjómaður að gyrða sig í brók, þókt götótt sé, berja þennan andstyggðar þvergirðingshátt og óviðeigandi uppástöndugheit hásetanna niður með harðri hendi svo greifarnir geti sofið fyrir óánægju með þræla sína. Ja, annars setja greifarnir Valmund Sjómann af og svipta hann framfærslu til eilífðarnóns.

Hér á árum áður gjörðu hásetar Þorgarðs Þorgarðssonar skipstjóra samblástur gegn honum á miðum úti. Enginn þeirra kom í land úr þeim róðri og hafa ekki sést eftir það nema á miðilsfundum. Í skýrslu sjóslysanefndar stendur það eitt um þetta tilfelli, að samkvæmt Þorgarði skipstjóra hafi allir karlarnir fokið út með einni og sömu netatrossunni þegar brotsjór gekk yfir skipið á lögninni og votta meðlimir sjóslysanefndarinnar Þorgarði sína dýpstu samúð vegna þessa sorglega atburðar. Hinsvegar segja skýrslur Veðurstofu Íslands, að daginn sem hásetar Þorgarðs hurfu í sjávardjúpin hafi verið sunnan andvari og sex stiga hiti.

Það sér hver maður, að ekki er líðandi að hásetaræflar stöðvi íslenska flotann, svona beint ofan í kóvíðs faraldurinn, verkföll Eflingar og Úkraínustríðið; það gæti lagt efnahag landsins í rúst og komið á þúsund prósénta (1000%) verðbólgu, fjöldagjaldþrot og landflótta. Ef hásetar vilja hafa slíkt á samviskunni, þá þeir um það. Síðasta hálmstráið er að treysta á Valmund Sjómann og samherja hans, greifana, að koma vitinu fyrir hásetana með góðu eða illu.


mbl.is Sjómenn felldu kjarasamninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband