Leita í fréttum mbl.is

Ófögur saga

x31Það segir sína sögu um þingflokk Sjálfstæðisflokksins, að hann skuli hafa lýst yfir fullu trausti við vandræðagepilinn Bjarnaben eftir að hann hrökklaðist eins og halaskelltur útigangsrakki úr embætti fjármálaráðherra í kjölfar þess að hafa orðið uppvís af hlálegri, en þó alvarlegri spillingu og undanbrögðum á öllum vígstöðvum. En því miður er Sjálfstæðisflokkurinn orðinn veikgeðja glans- og glimmerpíuflokkur, þar sem ringulreið, sýndarmennska og óslökkvandi græðgi ræður för; það má líkja óberminu við sökkvandi fúadall þar sem skipverjar eru allir niðri í lest að berjast, hver og einn, við að ræna sem mestu af farminum í eigin vasa áður en hripið hverfur í sæ.

Nú ku hjörðin í Valhöllu ætla að einbeita sér næstu daga við að flæma Swandeesý Swabbó úr matvælaráðuneytinu, af því að hún móðgaði einn af stóreigendum Sjálfstæðisflokksins, tók af honum veiðileyfi og dylgjaði með að hann væri dýraníðingur. Það liggur í augum uppi að það verður að hefna fyrir minni sakir en slíkan ósóma. Sjálfstæðismenn eru svo vel settir að þeir geta treyst á að Katrín Jakkó éti allt ofan í sig sem þeim dettur í hug að bera á borð fyrir hana og á meðan hún hefir mestu nautn af að láta Bjarnaben og hans varga fífla sig og niðurlægja, þá er Íhaldið í góðum málum. Ekki er heldur að sjá, að innan þingflokks VG, og VG yfirleitt, séu einhverjir þeir bógar við lýði, sem hafa vit og burði til að berja í borðið og segja hingað og ekki lengra, svo samdauna eru þeir undarennuungar nýfrjálshyggju, stríðsdólgakapítalisma og óheiðarleik.

hyena1Nú sitjum við uppi með ríkisstjórnarnefnu, sem hvorki getur lifað né dáið; það er ekki einusinni til líknardeild til að leggja svona skepnu inn á, þar sem henni er hjálpað til að geispa golunni, öllum til gleði og ánægju. Og þó svo að núverandi ríkisstjórn verði lógað og kastað í mógröf, þá er ekkert í sjónmáli sem gefur fyrirheit um annað en það sem verið hefur síðustu tuttugu til þrjátíu árin. Ekki vantar okkur flokkafjöldann, einir átta slíkir merahópar eiga sæti á þingi og sá níundi, Gunnarsmári, bíður úti á tröppum eftir að fá inngöngu í þá spillingu sem honum hæfir. Þessi ósköp eru að sjálfsögðu ekki stjórnmálaflokkar, heldur eru þetta athvörf lukkuriddara, lýðskrumara og sjálfhverfra siðblindingja með pípuhatta og montprik. Já, vinir mínir, tímarnir eru erfiðir núna og fátt til bjargar.  


mbl.is Bjarni fékk fullt traust: „Fallegt samtal“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband