Leita í fréttum mbl.is

Af matsveininum Svenna Hor og misjöfnum súpum og sósum hans

kokk2Það er víst fátt sem ekki finnst í súpunum. Ekki síst á misjöfnum veitingastöðum og hjá alræmdum matsveinum til sjós, en sannast sagna eru slíkir matreiðslumenn því miður að verða útdauðir. Við sem komnir erum til vits og ára og vorum á sjó í gamla daga munum flestir eftir þeim fræga matsveini Svenna Hor. Svenni Hor var, eins og nafnið ber með sér, heldur óásjálegur náungi, ævilega sveittur og klístraður í andliti og þar með lítt lystaukandi fyrir skipverja að sjá til hans við eldavélina.

Eitt var að Svenni Hor væri einlægt eins og fuglahræða til fara við vinnu sína, svo ófríður og álkulegur að til þess var tekið, en hitt var öllu verra hve lúmskur, illgjarn og heiftrækinn hann var. Það varð honum að lokum að falli. Ef einhver um borð móðgaði hann, eða honum mislíkaði eitthvað við áhöfnina, lét hann sér ekki muna um að snýta sér í súpurnar og sósurnar í hefndarskyni. Og ef það lá sérlega illa á karli, mé hann hiklaust inn í ofinn og yfir steikina, ofan í pottana og svo framvegis. Svo fóru piltarnir að leggja saman tvo og tvo og komust að þeirri rökréttu niðurstöðu að matsveinninn Svenni Hor sæti á svikráðum við þá, bæri fyrir þá görótta rétti, undarlega kryddaða, vægast sagt.

Eitt landstímið sátu þeir fyrir Svenna þegar hann þurfti að fara upp að pissa. - Þarna ertu djöfullinn þinn, sögðu þeir við hann um leið og þeir lögðu á hann hendur og báru hann aftur á rassgat og köstuðu honum út um lagningslúguna. En þar með var ekki öll sagan sögð. Skömmu eftir brotthvarf Svenna Hor fóru menn að verða varir við að hann gekk aftur um borð og það svo um munaði. Þeir láta skjaldnast á sér standa ólánsmennirnir að ganga aftur eftir dauðann og gera óskunda í ríki lifenda. Hér verða ekki tíunduð afdrif þeirra sem stóðu að því að taka hann af lífi, en það er löng og ljót saga. Til dæmis gengu stýrimaðurinn og fyrsti vélstjórinn af vitinu í einum og sama róðrinum og voru fluttir í böndum í land. Skipstjórinn varð líka brjálaður og keyrði skipið af alefli á bryggjuna með þeim afleiðingum að bæði skipið og bryggjan voru dæmd ónýt með öllu. En örlög hásetanna varð því miður ein slík samfelld hryllingssaga, að engum hrollvekjumeisturum kvikmyndasögunnar hefði getað dottið annað eins í hug. 

  


mbl.is Fann glerbrot í súpunni sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband