Leita í fréttum mbl.is

Aðför að lýðræðinu og saga af ferð á hvalaslóðir

drunk1_843097.jpgNú heitir það ,,aðför að lýðræðinu" að bjóða ungum fasteignasala á hraðri uppleið á vertshús og veita honum gómsætar steikur og valin vín úr sparivínkjallara hússins. Í gamla daga var slíkt kallað höfðingsskapur og gestrisni og var þeim er veitti til fremdar í þjóðfélaginu. Og þó svo fasteignasalinn hafi orðið kátur af veitingunum og launað fyrir sig með því að segja þeim er honum veitti skemmtilegar sögur af sjálfum sér og pápa sínum, þá er það eitthvað sem varast ber að leggja út að versta veg.

boy.jpgEkki höfum vér, er fylgst höfum með bægslagangi og sporðakasti Nonnýboy í dag, mikla trú að að maðurinn sem bauð fasteignasalanum út að borða hafi látið bera hvalþjós og súran gambra fyrir hann. Ónei, það var nú eitthvað annað; réttirnir sem fasteignasalinn át og vínin sem hann svalg voru allir upp á franska tungu á matseðlinum, og verðið á því góssi í þeim hæðum sem hver meðalmaður verður saddur einungis við að lesa tölurnar á reikningnum, sem þjónninn lagði á borðið. Og þetta kallar Nonnýboy ,,aðför a lýðræðinu!" Hvað ætli hann mundi kalla þann verknað að lauma Stjána Loftssyni á flot í skjóli myrkurs með byssugarganið tilbúið á hvalbaknum?

kata3Annars var nú helvíti gott þegar vissir labbakútar fóru á sjó, væddir handskutlum, haglabyssum og rifflum. Úti í miðjum Flóa komu þeir að hrefnu og köstuðu skutlinum þegar í stað í bakið á henni með tilþrifum. Hrefnan ærðist að vonum við áreitið og tók hart viðbragð og tók stefnuna á hafsauga með fleytu labbakútana í eftirdragi og þá sjálfa skelfingu lostna um borð. Þeir hleyptu allt hvað af tók af haglabyssunum og rifflunum, en skothríðin sú hafði þveröfug áhrif: hrefnuandskotinn jók aðeins ferðina og nú tók sjór að þyngjast og þoka lagðist yfir Faxaflóann. Daginn eftir hugkvæmdist labbakútunum loks að skera á línuna sem bundinn var við skutulinn, sem alltaf sat sem fastast í bakinu á illhvelinu. Og enn vandaðist máli, því hinir vösku hvalfangarar vissu ekkert hvar þeir voru staddir, þeir höfðu brotið kompásinn í óðagotinu er þeir börðust við hrefnuna, hvergi sást til lands, svo þeir létu skeika að sköpuðu og sigldu bara beint af augum. Viku síðar fundust þeir nær dauða en lífi á Dornbanka, þá orðnir olíulausir og einn þeirra labbakútana orðinn sturlaður, þann grip undu hinir tveir að fornum sið rígfastan við frammastrið. 


mbl.is „Þetta er aðför að lýðræðinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband