Leita í fréttum mbl.is

Grjótari og Jakobsleiðin á hálendi Íslands

kol6Hverskonar nafn er þetta Grjótarfjall og hvar skyldi það vera? Og hvaðan er þetta Grjótar ættað í íslensku. Allt er þetta eitthvað hálf kúnstugt og óskiljanlegt. Og ofan á annað bætast svo við jarðskjálftar á þessu Grjótari, hvað sem það nú er. Það er alveg svakalegt að lenda í lesmáli af þessu tagi og tekur á taugar og sálarkrafta og eyðir dýrmætum tíma í fáránlegar vangaveltur um örnefni sem ekki er til.

Ég man svo lengi sem land byggist, þegar frú Ingveldur og Kolbeinn Kolbeinsson skrifstofustjóri og framsóknarmaður, fréttu af frábærri gönguleið á hálendinu sem héti ,,Jakobsvegurinn" og væri milli Seylingsstaðarhnjúks og Garðavatns, en náttúrfegurð var sögð fram úr hófi mikil á þessu svæði. Þau fengu með sér nokkra valinkunna fjallagarpa, svo sem hjónin Indriða Handreð og Máríu Borgargagn, Brynjar Vondulykt, og Sigurveigu nokkra , sem þá var í aðra röndina heitkona Brynjars, en að öðru leyti kennd við Dræsustaði og þókti vanmetapéníngur. Sigurveig er dauð núna og varð fáum harmdauði.

En þegar til kom fundu þau frú Ingveldur og Kolbeinn hvergi þann stað á hálendinu sem meint Jakobsleið átti að vera; þar var enginn Seylingsstaðahnjúkur og ekkert Garðavatn og náttúrfegurðin mjög í slöku meðallagi, fyrir utan þokusudda og kulda. Út af þessu reiddist meðreiðarfólk þeirra hjóna og sló í harða brýnu þar sem Kolbeinn fór helst hallloka og lá í öngviti meðan eiginkona hans barist eins og ljón við hitt fólkið og hafði sigur um síðir. Seinna kom upp úr kafinu að tildrög þessarar fjallaferðar var óljós draumur sem Kolbeini hafði dreymt eftir nokkuð harðskeytt kenndirí, en sá draumur virtist byggður á einhverjum sjónvarpsþætti þar sem Jakobsvegurinn á Spáni og Gardavatn í Sviss komu eitthvað við sögu, auk kvensniptar, Seyling að nafni, líklega ættaðri frá Ítalíu. Þessi undarlegi draumur hafði líkamnast, ef svo mætti segja, í huga Kolbeins þar til að hann varð glæsilegri gönguleið á hálendi Íslands millum Seylingsstaðarhnjúks og Garðavatns. Ætli geti ekki verið að tilurð þessa Grjótarvatns hafi orðið til með eitthvað svipuðum hætti og Jakobsleiðin Kolbeins?


mbl.is Ellefu skjálftar síðasta sólarhringinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband