Leita í fréttum mbl.is

Misheppnað bankarán er sorglegt bankarán

heim2Alltaf þykir mér jafn leiðinlegt, að ég ekki segi sorglegt, þegar góð áform, tilraunir eða viðleitni fullhuga misheppnast, rennur út í sandinn og verður ekki að neinu. Ég veit að mörgum var gráti næst þegar fréttin af illa lukkuðu bankaráni í Hafnarfirði í nótt. Þessar hrakfarir ræningjans leiða hugann að því hvort undirbúningi hafi verið áfátt, ræninginn hafi ekki verið með nægilega kraftmikinn bíl í sinni þjónustu eða dráttarkeðjan hafi ekki verið nógu sterk. Þetta notar Kaninn alltaf akkeriskeðju og öflugt akkeri þegar þeir slíta allskonar strengi, og leiðslur á sjávarbotni í sundur og kenna Rússum um. 

Einu sinni drógu glaðir drengir þunga og langa keðju um miðja nótt yfir þakið á íbúðarhús geðstirðs manns; þeir notuðu hesta til að draga keðjuna. Aðgerðin tókst vel og karlinn sturlaðist og kallaði út sýslumann og lögreglu daginn eftir og krafðist réttarhalda á stundinni yfir glæpamönnunum og þeir yrðu dæmdir í ævilangt fangelsi. Í öðru tilfelli reif skapríkur vörubifreiðarstjóri burt garðhýsi nágranna síns og hitapott með vöruflutningabifreið sinni og sterkum togvír af togara; draslið kastaðist út af lóðinni við átakið og var þegar úr sögunni.

En sennilega er Hafnfirðingum flest betur gefið en að fremja viðunandi bankarán. Okkar mestu bankaræningjar rændu sína banka með því að eignast þá fyrst að nafninu til. Í Kópavogi rændu menn spilakassapéníngum á svo fagmannlegan hátt að það mun aldrei sjást einn einasti eyrir af þeim auðæfum. Og í Garðabæ kunna menn ýmislegt fyrir sér í ránsskap sem kunnugt er. En Hafnfirðingar eru svo heillum horfnir að þeir geta ekki framið glæp, bankarán eða morð, öðruvísi en að upp um þá komist og þeir fari í steininn, og þó held ég Hafnfirðingar hafi fullan hug á að fremja fullkomin glæpaverk til jafns við aðra og komast upp með það.


mbl.is Ók í gegnum rúðu og reyndi að nema banka á brott
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband