Leita í fréttum mbl.is

Til umhugsunar 1. janúar 2025

Þórbergur_Þórðarson (1),,Þessa yndislegu ágústnótt uppmálaði ég fyrir vini mínum gervalla heimsins pólitík, alla leið frá samkeppni Satans og Drottins allsherjar í aldingarðinum forðum til samvinnuhugsjóna Jóns skepnunnar Magnússonar. Ég sýndi honum heimsku, rangsleitni, skipulagsleysi og siðspillingu hinnar frjálsu samkeppni. En hjarta vinar míns var hortugt og hart eins og brenndur leir. ,,Ég hata þetta. Ég fyrirlít þessa svívirðilegu öreigastefnu," æpti hann með skilningsleysi idíótsins. Þá lét ég undan síga, því nú fann ég greinilega, að heilagur andi var að byrja að koma yfir vin minn. Hann heldur innreið sína í mannshjartað með geðofsa og skilningsskorti. Þegar menn standa augliti til auglitis frammi fyrir einhverju stórfenglegu, verða þeir að fíflum."
-----
,, Þá var sem allan mátt drægi úr vini mínum, hann féll í djúpan dvala. Klukkan sló þrjú. Skilningsleysi holdsins missti vald á sálinni. Á þessari sömu nótt endurfæddist hann til nýs lífs í guði. Um morguninn var hann orðinn gáfaður jafnaðarmaður, og ásýnd hans ljómaði eins og sól. Augun sem áður voru sljó og dapurleg, sindruðu af eldmóði og framfarahug."
-----
,,Eftir nokkra daga reið hann út um nálægar sveitir og boðaði ríki réttlætisins. Og fólk þyrptist að honum, því að hanna talaði eins og sá, sem vald hafði, en ekki eins og hinir Morgunblaðs-lærðu. Og fregnin um frelsun vinar mínar míns flaug út um öll héruð í þeim landsfjórungi. Og nokkrir réttlátir undruðust þessi stórmerki og sögðu: ,,Hann er einn af spámönnunum." En margir urðu hræddir um eignarréttinn og þeir sögðu sín á milli: ,,Hann er haldinn af djöflinum." Því að á þessum slóðum voru margir Morgunblaðs-lærðir og óvanir að sjá heilagan anda."

(Úr Bréfi til Láru eftir Þórberg Þórðarson, bls. 15-16, útgáfu Máls og menningar frá 1974.)


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband