Leita í fréttum mbl.is

Þegar búið verður að leggja bölvaða poletikina niður

poletikÓsköp væri það nú mikið þjóðþrifamál hér á Íslandi ef oss bæri gæfa til að leggja bölvaða poletikina alveg niður til sjós og lands; sturta henni eins og illa þefjandi sorpi í grenndargám. Þá þyrftum við ekki að hlusta á gribbulegar þingkérlíngar orga eins og naut úr ræðustóli í Alþingishúsinu um einhverja meinta, þaulsætna stjórnmálalarfa, væntanlega erlendis, sem væru dregnir, fyrir leiðindasakir, út undir húsvegg og skotnir til bana. Vér þyrftum ekki heldur að sofna með áhyggjur að kveldi út af glæpaeðli, svindilbraski og spillingu stjórnmálamanna og vakna upp um miðja nótt við skelfilega martröð, eða bara hreinlega hjartaáfall. Og hvað segið þér um stríðsóðra og hernaðarblæti vissra ráðherra sem orðnir eru krosssprungnir innvortis af gasólgu og þembu? Nei, þá væri nú betra að vera poletitikurlaus en eiga þennan ömurlega fjanda, sem stjórnmálin eru, yfir höfði sér nótt sem nýtan dag.

En hvað þá ef poletikin væri gjörð brottræk? Það er nú það. Kannski mundi batinn hefjast með því að Ríkisútvarpið færi að segja okkur hlutlausar og sannar fréttir? Ef til vill. Og okur, arðrán manns af manni, eða mönnum, og áfengisdýrkun yrðu svo óvinsæl fyrirbrigði að þau þurrkuðust eins og af sjálfu sér út veraldarmyndinni í landinu. Það mundu auðvitað allir gleðjast yfir þessháttar umskiptum,nema kannski okrarar, arðræningjar og sprúttsalar, en um þá fýra væri öllum alveg nákvæmlega sama þegar þar væri komið sögu. Líklegt væri þó að poletikurlausu landi mundi þrengja nokkuð að loddurum, lukkuriddurum og þeim poletisku villudýrum sem notað hafa poletikina purkunarlaust til að skara og skræla eld að eigin köku, með slíkum jaðarbesefum mundi aunginn maður hafa meðaumkun, þeir mundu bara þurfa að læra að vinna fyrir sér eins og óbrotið og heiðarlegt fólk.

Þér spyrjið, og ekki af ástæðulausu, hvað verði þá um sægreifana okkar, fjárfestana og embættismannastóðið. Jú, það fólk hyrfi eins og dögg fyrir sólu til annarra og heilnæmari verka, eins og til dæmis að sjá um hunda- og kattahótél, tæma bændum hlanforir í akkorði og sendast í búðir fyrir gamalt og lasburða fólk. Og þér varpið fram spurningunni: Hvaða andskotans poletik verður þá ef poletikin verður landræk? Þá svörum vér strax í einum skýrmæltum kór: Það verður engin poletik því allir munu leggja orðalaust til eftir getu og fá það sem þeir þarfnast, enginn mun svelta, enginn vera klæðalaus og engan skorta þak yfir höfuðið; flækjur, orðhengilsháttur og þjófseðli verða úr sögunni, sem og fals og lýgi, því þjóðin verður komin upp á efra plan. 


mbl.is Þingfundi frestað til morguns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband