Leita í fréttum mbl.is

Brennuvargur í Hafnarfirði - og sögur af andstyggilegum brennumönnum

eldur2Getur verið að brennuvargur gangi laus í Hafnarfirði? Eða jafnvel fleiri en einn og fleiri brennuvargar, - sem bíða eftir hentugu tækifæri til að brenna allt saman? Í það minnsta er ekki einleikið hve eldsvoðar eru svakalega tíðir í Hafnarfirði. En ... ,,Þókt borgir standi í báli og beitt sé eldi og stáli, þá skiptir mestu máli að maður græði á því." Má vera að upp sé kominn hópur varga sem sjá sér gróðaveg í að leggja eld að smáborginni Hafnarfirði og brenna hana til ösku? Er einhver Njálsbrenna þar í uppsiglingu? Hvur veit?

Einusinni höfðu þeir sona brennuvarg í Skinnafirði. Sá djöfsi hljóp með bensínbrúsa heiman að frá sér og hellti úr honum innum glugga hjá Valgarði skrifstofustjóra og kastaði eldspýtu á eftir. Brátt logaði svona ljómandi vel í húsi Valgarðs, en Valgarður þessi er bróðir gamla Kolbeins Kolbeinssonar kaupfélagsstjóra. En sem hendi væri veifað, brast á norðan stormur, allt að því ofviðri, sem æsti eldinn svo skelfing upp að þegar morgnaði voru fimmtán hús brunnin. Hálfum mánuði síðar stóð veiðarfæragerð og geymsla kaupfélagsins í björtu báli. Nóttina efir það tjón hvarf gamli Kolbeinn bakdyramegin út hjá sér með tvíhleypta haglabyssu meðferðis. Og um morguninn fannst Eggert, ritari Lionsklúbbsins Nóa, dauðskotinn á heldur hroðalegan hátt heima hjá sér. Síðan hafa Skinnafirðingar verið að mestu lausir við eldsvoða.

hangi2.jpgAnnað dæmi af slíku er úr Faxavíkurhreppi. Þar fór að kvikna í dráttarvélum bænda upp úr þurru. Og bændurnir og konur þeirra komu sér saman um að einhver sálsjúkur aumingi úr kaupstaðnum stæði að öllum þessum glæpum, sem nú voru langt komnir með að útrýma öllum traktorum í sveitinni. Þá var það að Bernharður bóndi í Kólaskarði stóð hreppstjórann að verki við þá þokkalegu iðju að kveikja í síðustu dráttarvél hreppsins. Og þar sem bændum hefur alla tíð verið gjarnt að viðhafa snör handtök, þá biðu þeir ekki boðann og hengdu hreppstjóra sinn tafarlaust upp í símastaur, beint fyrir framan útidyrnar á hreppstjórabænum. Með fyrstu skímu morgunsins kom kerlíng hrepparans auga á bónda sinn hangandi uppi í staur með reipisspotta um hálsinn. Kom öllum saman um að láta kyrrt liggja og var látið heita að hreppstjórann hafi yfirsteypst svo ægileg skyndidepurð og óyndi að hann hafi ekki séð sér annað fært en að hengja sig til bana í símastaurnum úti fyrir fordyri heimilis síns. Var til þess tekið að eftir skyndilegt fráfall hreppstjórans saknaði hans enginn og engum datt í hug að syrgja hann, ekki einusinni hans nánustu.    


mbl.is Eldur kom upp í fjölbýli í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband