Leita í fréttum mbl.is

Lífsgleði á elliheimili.

Á tíræðisaldri var Kolbeinn Kolbeinsson orðinn svo snakillur, að til fullkominnar hörmungar mátti telja og fengu þeir sem á vegi hans urðu, iðulega að þola andstyggð og smán af hans hálfu - ekki síst hans nánustu, afkomendur hans. Allt það fólk titlaði hann hórúnga, aumíngja, fituhlúnka og skattsvikara. Sá gamli Kolbeinn hafði sem sé í elli sinni uppgötvað ,,stóru blekkinguna." Honum taldist til, að hann hefði í liðug níutíu ár tórt til einskis, umvafinn skítapakki á alla kanta. Og væri hann ekki orðinn svona helvítisdjöfull sjóndapur myndi hann draga fram gömlu tvíhleypuna og skjóta eitthvað af þessum óþjóðalýð, þó ekki væri til annars en að kvitta fyrir skömm sína á honum. Svo kom leiðinlega kerlingin og leiddi hann til sætis í matsal elliheimilisins. Þetta fólk ætlaðist líka til þess að hann æti þennan nýtísku mat, hver ættaður er frá Ítalíu, Mexíkó, Indlandi og fleiri slíkum fátæktarbælum. Hann, Kolbeinn Kolbeinsson, sem hafði á sinni tíð verið gildur bóndi til landbúnaðar og útvegs, skyldi fyrr dauður liggja og fara í gröfina en að bragða svo mikið sem örðu af þessum óþverra. Þess í stað heimtaði hann skyr, saltfisk, magál, hákarl, brennivín og þykkan hrísgrjónavelling. - Við eldum ekki svoleiðislagað hér, sagði leiðinlega kerlingin og leysti hljóðlega vind. En þrátt fyrir háan aldur, sjóndepru og handskjálfta, reit karl margar blaðagreinar þar á elliheimilinu, sem þóttu svo mergjaðar, sumar hverjar, að ritstjórar þorðu ekki að birta þær. Undantekningarlaust snerust greinar þess gamla um eitt meginþema, einhvernveginn svo hljóðandi: ,,Við sem hörðum höndum byggðum upp undir rassgatið á þessu endemis fyrirbæri sem kallar sig nútímafólk, ætluðumst ekki til að það temdi sér þann lífsmáta sem raun ber vitni. Úrkynjun, öfuguggaháttur, skrílslæti og leti eru boðorð dagsins hjá þessu auma hyski, sem étur útlenskan drullujafning í hvert mál og dælir þar á ofan í sig eitri sem það fær hjá læknum og öðrum dópsölum, en fúlsar við þjóðlegum réttum ávið borð  signa grásleppu, súran blómur og herta þorskhausa, og foraktar þar á ofan guðsótta og góða siði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband