Leita í fréttum mbl.is

Flugnasaladið.

Þau ósköp komu yfir Kolbein eitt vorið, að hann fór að éta flugur. Þetta byrjaði með því að hann fór að tína húsflugur úr stofuglugganum og hræra þær saman við mayones og hafa ofan á brauð. Svo færði hann út kvíarnar og fór að fanga maðkaflugur, feitar og gljáandi. Stundum sleit hann vængi og lappir af kvikindunum áður en hann varpaði þeim í mayoneskviksyndið. Það kallaði hann, að éta lappalaust og/eða vængjalaust. Best þókti Kolbeini að brúka flugnasaladið ofan á brauð, eins og fyrr segir, en ekki síður sem viðbit með tekexi eða harðfiski og drekka pilsnér með eða gott kaffi. Og þegar hann var fullur, en það kom einstaka sinnum fyrir, þá át hann flugurnar eintómar og var þá ekki frítt við að hann gengi fram af fólki. Frú Ingveldur var alveg rasandi yfir þessu einkennilega uppátæki bónda síns og neyddi hann með ofbeldi í geðrannsókn. Þegar sálar- og geðvísindamenn höfðu skoðað og skilgreint Kolbein, gáfu þeir út eftirfarindi tilkynningu: ,,Eftir nákvæma og ítarlega rannsókn á hr. Kolbeini Kolbeinssyni höfum við komist að þeirri niðurstöðu, að hr. Kolbeinn Kolbeinsson sé alheill á geði og í alveg einstalega góðu sálarjafnvægi. Það eina sem vera má að sé aðfinnsluvert í hans fari er, að honum þykja flugur góðar til átu, en það er frá okkar bæjardyrum séð, ekkert frábrugðið því að finnast aðrar fæðutegundir ljúffengar, til dæmis hangikjöt eða framskar kartöflur."  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband