Leita í fréttum mbl.is

Ráð við ósiðlegum lifnaðarháttum

Síra BaldvinÞað olli frú Ingveldi nokkurri sálarangist hve mikla löngun hún hafði til ósiðlegra lifnaðarhátta. Leitaði hún því til síra Baldvin og skriftaði. Síra Baldvin afgreiddi hana með hefðbundinni handayfirlagningu og signingu, og bað hana umfram allt að gæta sín á myrkrinu. Nóttina eftir dreymdi frú Ingveldi makalausan soradraum og þegar hún vaknaði var hún stjörf sem af krampaflogi. Var þá sóttur til hennar Gottfreð læknir, sem sá samstundis hverskyns var og sprautaði hana umsvifalaust í rassgatið með kraumandi upplausn, sem hann hafði sjálfur samið. Að svo búnu tjóðraði hann frú Ingveldi vel og vandlega ofan í rúmið og skipaði að láta sækja síra Baldvin. Þegar síra Baldvin kom, fóru þeir Gottfreð læknir afsíðis og töluðu drykklanga stund saman á latínu. Síðan gengu þeir saman að beði hinnar sjúku konu. Þar sameinuðu þeir guðfræðina og læknisfræðina í eitt kröftugt átak, er sprengdi upp sálarstíflu frú Ingveldar, sem saman stóð af mörgum tegundum andlegra óhreininda. Meðal annars þursti út af henni hópur drýsildjöfla á stærð við nýútskriðna kríuunga. Þann fénað rak síra Baldvin niður að fjörukamp og kom þeim þar fyrir í dálítilli grjóturð. En það er af frú Ingveldi að segja, að hún kættist all vel af meðferðinni, en iðraðist einskis.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband