Leita í fréttum mbl.is

Samfylkingin opinberar barnaskap sinn og persóuleikabrest

Jahérna, - lengi getur vont versnað og vitleysan og heimskupörin magnast.

Með bókun sinni á ríkisstjórnarfundi, þess efnis að Davíð Oddsson starfi alfarið í umboði Sjálfstæðisflokksins, virðist Samfylkingin hafa opinberað barnaskap sinn og persónuleikabrest í pólitík svo um munar. Hvernig í ósköpunum þessu fólki dettur í hug að gera tilraun til að frýja sig ábyrgð á Davíð karlinum er ansi óskiljanlegt. Ríkisstjórn eða ríkisstjórnarflokkur getur nefnilega ekki tekið út afmörkuð málefni eða einstaka menn sem tilheyra stjórnkerfinu og sagst ekki bera neina ábyrgð á þeim. Slíkt háttalag flokkast einfaldlega undir lýðskrum og grunnhygginn popúlisma, ef ekki heimsku.

Ef forystuhjörð Samfylkingarinnar væru heiðarlegt fólk og ærlegt, gengi það hreint til verks og sliti ríkisstjórnarsamstarfinu hið snarasta. En því miður held ég sé borin von að Samfylkingin hafi yfir að ráða eiginleikum sem gerir henni kleyft að koma hreint fram. Vindgangur samfylkingarfólks og trúarofstæki í ESB málum gerir einnig að verkum, að Samfylkingin er illa stjórntæk eins og sakir standa til að vinna af alvöru í innanlandsstjórnmálum og að skapa nýtt og betra þjóðfélag á Íslandi. 


mbl.is Samfylking afneitar Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Umrenningur

Hárétt mat hjá þér. Þessi bókun samfó sýnir svo ekki verði um villst hvurslags lið þetta er. Engin ábyrgðarkennd og helst að koma ábyrgðinni til seðlabanka evrópu.

Umrenningur, 2.11.2008 kl. 11:37

2 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Þetta er furðulegt fólk, ég efast um að nokkur flokkur mundi vilja starfa með þeim.

Ragnar Gunnlaugsson, 2.11.2008 kl. 11:45

3 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Ótrúlega barnalegt.  Þrátt fyrir djúpstæðan ágreining á mönnum og málefnum, þá væri það ábyrgðarleysi að rjúfa þing og boða til kosninga í dag.  Heldur þú kannski að Steingrímur J. myndi frekar tjónka við Geir.  Svo sér maður á Valgerði að hún er meira en tilbúin að stökkva uppí hjá Geira.

Skrif þín. (og kannski er það meiningin hjá þér, ekki veit ég) eru helst til þess fallin að sundra en að sameina vinstri menn. 

Ég hef alla tíð verið álitin kommi en er orðin krati, því að ég skil það að peninga þarf að afla til að halda úti velferðarþjóðfélagi.  Ég á miklu meira sameiginlegt með SF heldur en VG, þó er VG minn flokkur þegar kemur að náttúru landsins og ég vil einnig halda vörð um landbúnað.

Við eigum undir öllum kringumstæðum að vera sjálfum okkur næg um matvæli.

Svona er um marga sem kjósa Samfylkinguna.  Á sínum tíma þegar flokkarnir Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur voru sameinaðir var því haldið til haga að um ágreining væri að ræða en aðaláherslan lögð á það að jafna ágreining, starfa saman undir þeim formerkjum að félagshyggjufólk stæðu betur að vígi sameinaðir en sundraðir.  Því megin verkefnið væri að jafna kjör og standa vörð um sameiginlegar þarfir þegna þjóðar okkar.

Ég er ekki alltaf sammála SF eða VG, en bið vinstra fólk um að hafa vit á því að beina spjótum sínum frekar að þeim sem virkilega traðka á íslenskri alþýðu.  Það mun skila sér betur og ég vil sjá í framtíðinni að vinstri menn geti starfað saman hvort heldur sem það eru einn eða tveir flokkar sem að starfinu kæmu.

Þú ert skrýtinn og skemmtilegur penni.  Notaðu gáfur þínar í eitthvað betra en að kasta rýtingnum í næstum því skoðanabræðrum.

Ragnar!  Langar þig uppí hjá Geir?  Og Umrenningur þætti þér það mikil ábyrgð að hoppa frá borði við þessar aðstæður og hleypa kannski Framsókn að sem skóp allan þennan vanda með Sjálfstæðismönnum?

Ég bara spyr.

Ingibjörg Friðriksdóttir, 2.11.2008 kl. 12:43

4 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Þú segir nokkuð Ingibjörg.

1. Það getur svo sem verið að það væri ábyrgðarleysi að rjúfa þing í dag og boða til kosninga. Það getur líka verið ábyrgðarleysi að gera það ekki. En eins og staðan er, þá væri það tilræði við lýðræðið að draga það lengur en í 4-5 mánuði að boða til alþingiskosninga. Ég lít þannig á að engum komi til hugar að skríða uppí til Gjeirs Haaarde og Sjálfstæðisflokksins á næstunni þar sem Sjálfstæðisflokkurinn lítur út eins og útbíuð svínastía í augum fólks.

2. Skrif mín um svokallaða vinstrimenn eru ekki að tilefnislausu. Í mínum augum er það alvarlegt mál að vera ekki það sem maður segist vera, en á vinstrivængnum eru, eins og þú veist eflaust, mikil brögð slíkri háttsemi. Mér var frá upphafi lífsins ómögulegt að líta á Samfylkinguna sen vinstriflokk, hverju svo sem fólk þar á bæ hélt fram í þá veruna. Enda kom það á daginn að Samfylkingin tók sér stöðu þokkalega vel hægramegin við miðju. Ég er einn af þeim sem tók þátt í að stofna VG. Upphaflega stóð fólk í þeirri meiningu að verið væri að stjórnmálaflokk sem hefði klassískan sósíalisma að leiðarljósi ásamt þungri áherslu á umhverfismál. VG þróaðist hinsvegar útí það að verða fyrst og fremst þingmannaflokkur með ríkisstjórnarþáttöku efst á dagskrá. En eitt eiga Samfylkingin og VG þó sameiginlegt, en það er sú nöturlega staðreynd að báðir flokkarnir eru komnir að mestu leyti úr tengslum við þær rætur sem þeir eru, þrátt fyrir allt, sprottnir af.

3. Þú biður vinstrisinna að hafa vit á að beina spjótum sínum frekar að þeim sem virkilega traðka á íslenskri alþýðu. Þá áttu væntanlega við Sjálfstæðisflokkinn. En hvað með þá stjórnmálaflokka sem stutt hafa Sjálfstæðisflokkinn, árum og áratugum saman, við að traðka á alþýðunni? Eiga þeir bara að vera stikkfrí, af því að þeir segjast vera mið- eða vinstriflokkar? Er það virkilega skemmdarverkastarfsemi af einhverju tagi að beina spjótum að auðvirðilegum auðvaldshækjum, sem boða ,,jöfnuð og manngildi ofar auðgildi," öðru orðinu, en í frjálshyggju og samstöðu með auðvaldsöflunum í hinu? 

4. Að lokum við ég leiðrétta þann meinlega misskilning, að það hafi verið Framsókn sem skóp allan þennan vanda með Sjálfstæðismönnum. Alýðuflokkurinn og Samfylkingin (sem reyndar eru eitt og sama tóbakið) eiga svo sannarlega sinn þátt í því hvernig komið er. Af þeim 17 árum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur samfleytt verið við völd hefur hann notast við framsóknarhækjuna í 12 ár en kratahækjuna í 5 og hálft ár.

Svo er nú það Ingibjörg.

Jóhannes Ragnarsson, 2.11.2008 kl. 16:01

5 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Jóhannes, ég ólst að miklu leyti upp við þann málflutning sem þú hefur.  Við erum næstum sammála, en þó ekki.  Kratahækjan eins og þú kallar hana eru fordómar, sem gera ekkert fyrir okkur.  Ég á við það að orðið krati, sem þýðir jafnaðarmaður var bannorð á mínu heimili og það var ótrúlega þreytandi fyrir okkur systkinin og jafnvel skaðlegt, þegar .....fólkið mitt kom saman.  Ótrúlegá hástemmt andrúmsloft með bannorðum og heift var talað um kratadjöflana.

Ekki höfðum við krakkarnir nokkrar forsendur til að vega og meta gildi orðanna.  Við trúðum bara því sem fullorðna fólkið sagði.  Að kjósa Alþýðuflokkinn var það sama og selja skrattanum sálu sína, stefna sjálfstæði þjóðarinnar í voða og af tvennu illu væri nú skárra að kjósa íhaldið en helvítis föðurlandssvikarana.

Svona málflutningur er ekki til góðs, ekki fyrir nokkurn mann.  Við búum hérna örfáar hræður og með skynsemi, kærleik, jöfnuði og bræðralagi eigum við að geta látið okkur koma saman um hlutina.

Það sjá það allir heilvita menn að hér ríkir ófjöfnuður sem er svo hróplega óréttlátur að manni liggur við gráti.  Karlmenn mega auðvitað ekki gráta, þessvegna eru þeir reiðir, því það er miklu karlmannlegra enn að vera hræddur.

Ég er ekki sammála þér um það að Kratar hafi verið með í að skapa þennan vanda sem við erum í núna.  Ég horfði á Silfur Egils í dag og´sá kúrfuna sem sýndi gjaldeyrisskuldasöfnun þjóðarinnar og súlan sýndi allt það sem við stöndum frammi fyrir núna.  Hún byrjaði að aukast upp úr 2003 og síðan hefur nýfrjálshyggjan sem bæði Steingrímur og Ingibjörg Sólrún hafa varað sterkt við allar götur sína Dabbi og Dóri nánast gáfu Landbankann og Búnaðarbankann.

Ég styð VG að halda landbúnaði í landinu, og þá eiga þeir að fá raforkuna á sama verði og álverin.  Ég vil ekki fleiri álver, þau eru of mörg ef eitthvað er.  Ég styð VG í náttúruvernd.

Ég styð SF í að sækja um aðild að Evrópubandalaginu og rökstyð það með því að einkavinavæðing á landsins gögn og gæðum og allir flokkar hér hafa tekið þátt í, er gengin sér til húðar.  Að hér skuli það viðgangast að stjórnmálamenn þurfi aldrei að taka ábyrgð gengur ekki og Jóhnannes!                                                                Alþýðubandalagið er ekkert undanskilið, það veit ég og get sannað, ég býst við, að ef tillit er tekið til veru þeirra í stjórn þá væru þeir engir eftirbátar hinna.

Mér finnst að við höfum núna hvort eð er afsalað okkur sjálfstæði þjóðarinnar.  Misvitrir stjórnmálamenn (ekkert endilega illa þenkjandi) hafi með stjórn og stjórnleysi komið því þannig fyrir að flestir ættu að sjá að okkur er betur borgið þar sem lög og reglur eru um stjórnskipulag og hver sá sem verður staðinn að því að fara í kring um þau er umsvifalaust látinn segja af sér eða rekinn ella.

Við sjáum Finnanna þeir hafa nú ekki glatað sjálfstæði sínu með því að ganga í Evrópubandalagið, síður en svo.  Þeir blómstra sem aldrei fyrr og geta þakkað að hafa sloppið undan oki granna sinna í austri.

Þú ert mikilvægur, þú ert duglegur, þú getur hjálpað til við að sameina félagshyggjufólk.  Það er búið að sýna sig að án heilbrigðrar markaðshyggju, gengur ekki neitt þjóðfélag.  Við þurfum alltaf að passa okkur á öfgunum.

Svo mörg voru þau orð.  Erum við ekki vinir?

Ingibjörg Friðriksdóttir, 2.11.2008 kl. 16:42

6 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Hmmm ... kratahækjan er því miður staðreynd, en ekki byggð á fordómum. Sömu sögu er að segja af íslenska krataeðlinu, sem alltaf leitar til hægri. Það er eins og náttúrulögmál.

Helsti munurinn á íslenskum krötum og íhaldinu er sá, að maður veit hérumbil upp á hár hvar maður hefur íhaldið. 

Jóhannes Ragnarsson, 2.11.2008 kl. 17:23

7 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Ekki erum við sammála um það.  Flestir sem Samfylkinguna kjósa eru heiðarlegt fæelagshyggjufólk og hana nú.  En svo eru það hægri kratarnir, þeir fóru flestir í Sjálfstæðisflokkinn, en snúa kannski til baka núna.

Ég bíð spennt eftir að heyra meira frá Björk og svo finnst mér Stefán Ólafsson flottur

Ingibjörg Friðriksdóttir, 2.11.2008 kl. 18:07

8 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Nei félagshyggjufólk eða jafnaðarflokkur er eini flokkurinn sem er á miðjunni, því með því að viðurkenna markaðshyggju, þá skerum við okkur frá VG til að mynda.  Við verðum að hafa þetta í bland, því núna á þessum tímum, þurfum við að afla peninga til að geta boðið upp á velferðarsamfélag. 

Ingibjörg Friðriksdóttir, 3.11.2008 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband