Leita í fréttum mbl.is

Moggamenn vekja upp draug

gaman.jpgEnn á ný sannast sannast orð þjóðskáldsins: ,,Á Mogganum er mikið puð / menn þar trúa ekki á Guð." Árum saman hefur það verið keppikefli Moggans að reyna að særa fram sem mestan púkafans til þess eins að hræða landsmenn til hlýðni og viðunandi undirgefni við heilagan Mammon og siðleysi hans. Flestir sem komnir eru til vits og ára muna eftir vofunni Rússagrýlu, sem reið röftum um þvert og endilangt Morgunblaðið áratugum saman, svo við lá að Morgunblaðshöllin sykki ásamt allri áhöfn í jörðu niður eins og kirkjan í Hruna forðum daga.

Og enn eru Moggamenn ekki dauðir úr öllum æðum þegar kemur að uppvakningafræðum. Í sunnudagsmogga þessarar helgar er svo að sjá að nú hafi vikapiltum heimskapítalismans á Hádegismóum tekist magna fram úr skúmaskoti hinna pólitísku eterheima draug sem um munar og er, ef að líkum lætur, enginn eftirbátur hins skapvonda Þorgeirsbola, sem hljóp milli héraða með húðina flegna af sér til hálfs í eftirdragi, landsins börnum til ama og skelfingar. Það verður þó að segjast eins og er, að það var vel viðeigandi af Galdra-Loftum Moggans og þann smekk sem þeim er áskapaður að vekja Davíð Oddsson, hrunadansmeistara, upp til pólitísks draugalífernis, einmitt þegar dagurinn er lengstur á Íslandi. Því verður heldur ekki á móti mælt að uppvakningurinn Davíð blæs hressilega úr nösum fram, ekki síður en Þorgeirsboli. Eftir að hafa legið í sinni pólitísku gröf um hríð að kórbaki kirkjunnar í Hruna, stekkur hinn fallni hershöfðingi frjáshyggjunnar fram í dagsljósið, bölvandi og ragnandi öllu og öllum í sand og ösku. Meðal annars heldur þessi Þórólfur bægifótur nútíma draugagangs því fram að ráðamenn Íslands síðustu níu mánaða hafi ásamt embættismannahyski sínu sammælst um að láta þjóð sína borga Icesave-reikninginn hvað sem tautar og raular og hafi í því sambandi falið öll gögn sem sanna að Íslendingar eigi ekki að greiða umræddan reikning Björgólfsfeðga. Ég geri ráð fyrir, að landsmenn allir, að undanskyldum fyrrnefndum ráðamönnum og þeirra hyski, óski þess heitt og innilega að orð draugsins séu þeirrar guðlegu náttúru að vera hverjum degi sannari og nú sé ekki um annað að ræða en að leita uppi hin földu gögn sem að ein duga til að reka Breta, Hollendinga og annan óþjóðalýð af höndum vorum í eitt skipti fyrir öll.  


mbl.is Ekki setja þjóðina á hausinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég sem var að vona að menn héldu flokkspólitík utan við þetta risa mál. Þeir álitsgjafar sem ég tek mest mark á eru Evrópu- og þjóðréttarfræðingar (Davíð er ekki í þeim hóp).  Meðal annars þess vegna er ég á móti því að Ísland (næstu kynslóðir) undirgangist þessar byrðar. Ég set mitt traust á Liljurnar,  Ögmund, Atla og vonandi fleiri.

Sigurður Þórðarson, 4.7.2009 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband