Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Frú Ragnhildur magister í norrænum fræðum. III. hluti.

    Íbúð frú Ragnhildar var á efstu hæð í fjögurra hæða blokk og hafði sameiginlegan inngang með íbúðunum á hæðunum fyrir neðan.

Þegar Arnkell kom, ásamt Gretti, Þórólfi, Hallgerði og Arnkatli hinum unga, að dyrum íbúðar frú Ragnhildar, hófu þau að hnusa vel og vandlega af samskeytum stafs og hurðar til að kanna hvort einhverja torkennilega lykt legði að innan. Dóttirin Hallgerður, sem kvaðst lyktnæmust þeirra allra, lagðist meira að segja á gólfið og þefaði meðfram þröskuldinum. Svo stóð hún upp náföl og tilkynnti, að það væri örugglega stæk ólykt innan við hurðina. - Við verðum að komast inn undir eins, lagði Grettir til og tók nokkur skref afturábak, rak undir sig hausinn og hjóp á hurðina af öllu afli, með hægri öxlina á undan.

Það kvað við ægilegt brak og brothljóð, þegar hurðin og hurðarkarmarnir létu undan, svo glumdi í niður allan stigaganginn.

Svo þurstu þau inn.

Hallgerður leitaði þegar í stað uppi svefnherbergi móður sinnar því hún var kjarkmikil kona og ódeig við allt sem á vegi hennar varð.

Neineineineinei!!! orgaði Hallgerður upp yfir sig af undrun og skelfingu þegar hún sá hvað var á seyði í svefnherberginu. Karlpeningurinn kom að vonum þjótandi á vettvang og staðnæmdist í dyrunum að svefnskála frú Ragnhildar. Það trúði enginn sínum eigin augum. Gat þetta virkilega verið? Arnkatli eldri varð svo mikið um, að kjálkavöðvar hans lömuðust og hakan seig viðstöðulaust niður á bringu; honum hefði ekki brugðið meir þó frú Ragnhildur hefði legið myrt og kasúldin í rúmi sínu ...

 

(Framhald síðar)


Af setningarræðu Steingríms J. á landsfundi VG

images

Ég tók mig til og prentaði út setningarræðu Steingríms á landsfundi VG. Úr prentaranum vall ræðuflaumur formannsins upp á einar 13 blasíður, og það hvein og söng í prentaragarganinu svo á köflum hélt ég hann væri hreinlega að gefast upp á ræðulátunum.

Þegar ég fór yfir ræðuna, fór sem mig grunaði. Það má ljóst vera, að Steingrímur er kominn með fullkomna rörsýn á ráðherrastól þann sem hann hefur væntingar til að setjast í að loknum kosningum.

Einhversstaðar í ræðu sinni (jú, það mun vera á bls. 6) fullyrðir formaðurinn að Vinstrihreyfingin - grænt framboð sé vinstri flokkur og hnykkir á með að segja: Við erum ekki miðjuflokkur!!! eins og það þurfi að taka sérstaklega fram að "vinstriflokkur" sé ekki "miðjuflokkur".

Ef ræðan er skoðuð nánar, kemur í ljós að formaður vinstriflokksins minnist hvergi á verkalýshreyfingu eða hlutverk hennar til eða frá. Er það trúverðugur vinstriflokkur sem kemur sér algjörlega hjá því að nefna verkalýðshreyfingu á nafn eins og hún sé ekki til? Það næsta sem formaðurinn kemst,  að ýja að verkalýðshreyfingu, má finn á bls. 9. En þar segir Steingrímur: "Í níunda lagi myndum við bjóða "aðilum vinnumarkaðarins" til viðræðna við stjórnvöld um breyttar áherslur í launamálum, þar sem að tvennt væri meginmarkmiðið: að hækka lægstu laun umtalsvert í tengslum við skattkerfisbreytingar sem léttu sköttum af fólki upp að lágmarkslaunum ... En hitt meginmarkmið slíkra viðræðna yrði að segja kynbundnum launamun stríð á hendur ..."

Mín skoðun er einfaldlega, að flokkur sem ekki hefur stéttarbaráttu og verkalýðshyggju af einhverju tagi á dagskrá á ekkert tilkall til að kalla sig vinstriflokk. Samkvæmt því er Vinstrihreyfingin - grænt framboð ekki vinstriflokkur nema að nafninu til - því miður.

Að öðru leyti  er keimurinn af ræðu Steingríms formanns ekki ósvipaður á bragðið og málflutningur framsókanrmanna þegar þeir voru síðast í stjórnarandstöðu.


Svavarsvædd stjórn VG

422002BÉg sé á þessari frétt að Svandís og Gestur Svavarsbörn hafa verið kosin í Stjórn VG, sem að mínu mati er býsna athyglisvert. Ég hefi talið að hægt hefði verið að komast af með annað þeirra.

Þá vekur eftirtekt mína að fallkandídatarnir Lilja Rafney og Hlynur Hallsson hlutu kosingu í stjórnina, sem bendir til að vel hafi tekist til með val á atkvæðisbærum landsfundarfulltrúum.

Svo er skemmtilegt, svo ekki sé meira sagt, að hafa mynd af Hjörleifi Guttormssyni með fréttinni því þar fer raunverulegur stjórnarmaður í VG, þó ekki hafi hann verið kosinn til þess arna. En svona er lífið: menn geta ráðið lögum og lofum í stjórnmálaflokkum án þess að nokkur hafi kosið þá formlega til trúnaðarstafa.

 

Jóhannes Ragnarsson


mbl.is Kosningaáherslur VG kynntar í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frú Ragnhildur magister í norrænum fræðum. II. hluti.

c_documents_and_settings_joi_my_documents_my_pictures_images_139309En þegar sex mánuðir voru liðnir án þess að nokkuð hefði heyrst eða sést til kerlingar, fóru nánustu aðstandendur að undrast um afdrif hennar. Þau Grettir, Þórólfur og Hallgerður, ásamt Arnkatli, höfðu endrum og sinnum ekið af mikilli hægð framhjá íbúð Ragnhildar, án þess að verða nokkurs vísari. Það var alltaf ljós í sömu gluggum, sem gat bent til að hún væri heima. En að aldrei væri hreyft við ljósunum í íbúðinni var samt einhvað hráslagalegt og einkennilegt. Og þeirri kaldranalegu hugsun sló niður, að máske lægi gamla frúin ósjálfbjarga eða dauð inni hjá sér. Við því yrði að bregðast, með góðu eða illu, hvað sem tautaði og raulaði.

Í framhaldi af hinni nagandi óvissu, var sonarsonur frú Ragnhildar, Arnkell Þórólfsson, gerður út af örkinni og settur á njósn við íbúð hennar.

Þegar strákskrattinn hafði njósnað, án árangurs, í tvo sólarhringa, var ekki um annað að ræða en að láta til skarar skríða og brjótast inn til þeirrar gömlu.

(Framhald síðar ...)


VG í vargakjafti öfgafeminista

imagesÁ landsfundi VG liggja fyrir drög að samþykkt, sem ber yfirskriftina "Aðgerðir til kvenfrelsis". Er þar skemmst frá að segja, að sjaldan hef ég séð annað eins bull. Það er engu líkara en þar hafi um vélt samansafn af rauðvínsdrukkum kerlingum úr efri-millistétt, sem á hátíðarstund hafa kjaftað sig upp í rjáfur heimsku og vitleysu.

Í þessum framúrskarandi drögum er talað fjálglega um "kynjakerfi samfélagsins" sem takmarki aðgengi kvenna að völdum og fjármagni. Svona orðbragð segir mér það eitt, að þarna séu á ferð kvinnur sem ekki eru af alþýðustandi og raunar væri hvaða atvinnurekandi sem er, eða samtök atvinnurekenda, fullsæmdur af svona valda- og fjármagnstalsmáta.

En mestu flugi ná þó hinar öfgafullu efri-millistéttarkerlingar í VG þegar þær leggja til, að bundið verði í stjórnarskrá að jafnt hlutfall karla og kvenna sitji á Alþingi og í sveitarstjórnum og að lögbundið verði jafnt hlutfall sömu kynja í stjórnum fyrirtækja. Svo hnýta þær aftan í þennan kafla hugaflugsins, magnaðri yfirlýsingu á nauðsyn þess að koma á "kynjaðri fjárlagagerð".

Síðar í drögunum er lagt til, "að karlar sem beita ofbeldi verði fjarlægðir af heimilum". En hvað með konur sem beita ofbeldi? Er ekki tilvalið að afgreiða þær á sama hátt og ofbeldiskarlana. Um þá hlið málsins er ekki minnst einu orði eins og sá möguleiki sé ekki fyrir hendi.

Loks brydda blessaðar frúrnar upp á því nýmæli að nauðsynlegt sé að "koma á kynjafræðikennslu á öllum skólastigum".

Eftir lestur draga efri-millistéttarkerlinganna í VG, er farinn að læðast að mér grunur um að umræddar kvinnur hafi einhvenrtímann í ósköpunum komist að þeirri niðurstöðu að karlar og konur séu fráleitt af sömu dýrategundinni, ekki fremur en fálki og rjúpa.

Ég verð að segja eins og er, að mér er hulið hvernig samsetningur á borð við drög að "Aðgerðum til kvenfrelsis" hafa komist inn á landsfund VG. Datt engum heilvita manni að stoppa þessa vitleysu af, eða hvað? Ég skil t.d. ekki, af hverju formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon kom ekki veg fyrir svona uppákomu, annað eins hefur hann tekið sér fyrir hendur. Eða er hann sammála bullinu í efri-millistéttarkerlingunum?


Frú Ragnhildur magister í norrænum fræðum. I. hluti.

images

Gamla frú Ragnhildur, magister í fornbókmenntum, sem setið hafði að grúski áratugum saman með gleraugun á nefinu, stóð dag nokkurn upp úr sæti sínu og sagði öllum sínum fræðum og doðröntum að fara til andskotans; hún væri, hvort sem er, fyrir löngu búin að fá yfir sig nóg af þessum endemis lygaþvættingi.    Ennfremur varpaði hún á dyr eiginmanni sínum, dr. Arnkatli Karlssyni, prófessor í Norður-Evrópskri miðaldasögu. Þá setti hún sig í samband við börn sín, þau Gretti, Þórólf og Hallgerði, og fyrirbauð þeim að ónáða sig eftirleiðis; hún kærði sig nákvæmlega ekki um nein samskipti við þau og þeirra börn hvað þá heldur aðra ættingja.            Hvur djöfullinn hefur hlaupið í kerlinguna?, spurði Arnkell , öldungis forviða, en börnin gláptu ráðþrota hvert á annað. Þau voru öll sem eitt þrumulostin yfir ruddalegu framferði frú Ragnhildar og grimmd. Að hugsa sér: kona á hennar aldri að haga sér svona. Sennilega væru þetta þó elliglöp sem hvolfst höfðu svona illilega yfir hana eins og hellt væri úr fötu, og við því væri svosem lítið að gera; öldrunin tæki ævinlega sinn toll í ýmsum myndum.    Og Frú Ragnhildur, sem greinilega var harðákveðin í sínum elliglöpum, flutti sama dag og hún tilkynnti ákvörðun sína, í litla þriggja herbergja íbúð í blokk í austurbænum.   

    Var síðan allt kyrrt um hríð, að minnsta kosti á yfirborðinu.

                                                                       (Framhald síðar) 

 


Uppeldispróblem og neyslugræðgi

images

Í búðinni upphóf krakkaskrípið æðisgengna baráttu fyrir sælgætiskaupum. En móðirin var föst fyrir, enda hlaðin diazepami, og lét ekki hagga sér um millimetersbrot og keypti þar af leiðandi ekki svo mikið sem fimmaura kúlu upp í trantinn á unganum.

Þegar út var komið tók krakkaskrípið grjót upp af strætinu og fleygði því að móður sinni og hæfði hana á milli augnanna.

Og þar sem móðirin lá rotuð á stéttinni, rændi barnið hana og óð að svo búnu inn í búðina og keypti sér þá gnótt sælgætis að fyllti tvo innkaupapoka.

 


Vinstri grænir halda landsfund

images[32]

Það hefur varla farið framhjá fólki, að landsfundur VG fer fram þessa dagana að Grandhóteli í Reykjavík. Mun þar vera mikið um dýrðir og herma fregnir að í dag hafi ritari og gjaldkeri flokksinns verið sjálfkjörnirkjörnir við mikil fagnaðarlæti. Orðalagið minnir á vel heppnaða leiksýningu þar sem leiktjöld og búningar skipta meira máli en innihald verksins.

Ég hef verið að glugga dálítið í drög að fyrirliggjandi landsfundarsamþykktum og mun ég reyna að fjalla eitthvað um þau ósköp í næstu færslum.


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband