Leita í fréttum mbl.is

Úr dagbókum Arnfreðs Lyngdalh (1)

Síðastliðið haust komst ég yfir hluta af dagbókasafni Arnfreðs Lyngdalh fyrrverandi vörubifreiðarstjóra. Eftir því sem ég best veit, strauk Arnfreður þessi úr landi fyrir um það bil aldafjórðungi ásamt hyski sínu og hefur lítið til þess spurst síðan, en talið er að fjölskyldan hafi að minnsta kosti búið á nokkrum stöðum í Afríku og Asíu. Eitt af því sem Arnfreður skildi eftir við brottförina frá Íslandi voru áminnstar dagbækur, sem ég var svo lánsamur að komast yfir eins og áður er getið. - joiragnars

En gefum nú Arnfreði Lyngdalh fyrrverandi vörubifreiðarstjóra orðið:

16. mars (ártal óvíst) Áður en ég varð fjórtán ára hafði ég þrívegis fengið á mig kláðamaur. Tólf ára hafði ég um skeið hvort tveggja í senn, kláðamaur og njálg. Þá varð ég svo óþekkur að önnur eins býsn hafa ekki þekkst í minni fjölskyldu allt fram á þennan dag. Ég var sífellt á iði því ég var friðlaus af kláða. Það var alveg sama hvað ég potaði í mig og klóraði, kláðinn hopaði ekki hætishót, magnaðist bara ef eitthvað var. Það er engum vafa undirorþið að það voru þessi óskaplegu kláðaflog sem gerðu mig svona hræðilega óþekkan á sínum tíma, að við lá að ég yrði tekinn úr umferð. Ég man eins og gerst hafi í gær, þegar ég braut í einu áhlaupi allar rúðurnar í næsta húsi. Fólkið sem þar bjó fór í taugarnar á mér. Karlinn var drykkfelldur groddi en kerlingin verta skass og háfjallameri. Hvort kerlingin var vínhneigð eins og bóndi hennar er mér ekki kunnugt um. Þetta var aðkomufólk, hafði búið þarna um það bil ár, og hafði verið mér til ama frá fyrsta degi. Aldrei vissi ég hvaðan úr ósköpunum þetta fólk kom, en hitt man ég að þau hurfu á braut einum og hálfum mánuði eftir að ég braut hjá því rúðurnar, en þennan eina og hálfa mánuð ofsótti ég þau linnulaust. Aðeins einu sinni fór ég hallloka í þessari styrjöld, en það var þegar kerlingarnautið náði mér (sat fyrir mér milli húsa í hryssingsskafbyl) og rassskellti mig svo ofboðslega, að ég hélt á þeirri stundu að hún myndi drepa mig í alvöru. Á eftir lá ég einhvern óratíma , hálfgrafinn í skafl, með buxurna á hælunum. Mér varð svo um þetta óþokkabragð kerlingainnar, að ég lagðist veikur í viku, með háan hita og andþrengsli. En ég varð þó aldrei svo veikur að ég hætti að hugsa um hefnd. Þegar ég komst aftur á fætur lét ég umsvifalaust til skarar skríða. Ég náði mér í tóma síldartunnu að kvöldlagi, hallaði henni upp að útdyrum fólksins, fyllti hana nálega af notaðri smurolíu, málningu og lifrargrút sem ég komst yfir í lifrabræðsunni í frystihúsinu. Þegar allt var til reiðu, bankaði ég valdsmannslega á hurðina og hljóp að svo búnu í felur. Það var skelfilegt að sjá þegar konugarmurinn kom til dyra, því um leið og hún opnaði hurðina, valt tunnan inn í forstofuna og gumsið úr henni sullaðist langt inn í hús ...

Fleiri færslur úr dagbókum Arnfreðs Lyngdalh verða birtar síðar á þessu bloggi.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband