Leita í fréttum mbl.is

Sumir piltar eru ekki gefnir fyrir rosknar konur þó svo að aðrir séu það kanski

old1.jpgJá, sumir piltar eru ekki gefnir fyrir samlag við rosknar konur meðan aðrir piltar leitast við að komast í tæri við gamlar skjóður, helst geðíllar og harðhentar með sígarettuna í munnvikinu. Ég man eftir tveimur strákakrypplingum frá því í gamla daga, sem vóru í meira lagi dularfullir og grunsamlegir. Þegar aðrir ungir menn fóru um helgar í Klúbbinn, nú eða Röðul, laumuðust þessir þokkapiltar í Æðahnútinn elligar Ljónagryfjuna og aungum gat dulist að þeir vóru á höttunum eftir öldruðum og draugfullum kerlingarsmánum, sem lögðu gjanan leið sína á fyrrnefnda skemmtistaði þar sem harmónikkan var látin framleiða dillandi spil og vasapelarnir réðu ríkjum.

Eitt sinn sást til þessara endemis kláðagemlinga styðja eina af þeim gömlu á milli sín út úr Ljónagryfjunni og út í leigubíl. Síðan var ekið beint inn í Glaðheima, þar sem sú gamla bjó út af fyrir sig í kjallaraholu. Jón gamli forhleri, frægur garpur af síðutogurunum, var á vakki í Glaðheimunum þegar leigubílinn bar að garði og hann á eftir kerlíngunni og krypplingunum slaga og slangra inn í kjallaraíbúð frúarinnar. En hvurnig sem á því stóð, þá stóðst Jón forhleri ekki mátið og laumaðist að gluggum kjallaraíbúðarinnar og varð vitni að mörgu og merkilegu sem gerðist þar innandyra. Gamli togarajaxlinn varð svo gáttaður á því sem hann sá þar inn um gluggann að hann var hálfruglaður lengi á eftir; það hafði aldrei flökrað að honum að svona djöfuls ósómi væri til.

Þá var ekki síður merkilegt, enda í annála fært, þegar sveitamaðurinn að vestan kom til Reykjavíkur í vertíðarlok. Hann var ekki beint veraldarvanur í borginni við Sundin og af einhverri duldri ástæðu höguðu örlögin því þannig til að hann hafnaði annaðhvort í Æðahnútnum eða Ljónagryfjunni er hann hugðist létta sér upp og fá sér snúning. Eftir að okkar maður var kominn inn á skemmtistaðinn fór allt að verða eins og í svartnættisþoku og hafvillu. Um morguninn vaknaði hann nakinn í rúmi nokkru á gjörókunnum stað. Eitt hið fyrsta sem okkar maður rak augun í eftir hann rankaði við sér var hroðalegur kvennmaður við hlið hans í bælinu; hún var svo hroðaleg að því verður seint með orðum lýst og það var lykt af hróinu, svipaður og er af útbæstri stórhvela er þau koma upp á yfirborðið til að anda. Sem betur fer tókst sveitamanninum að vestan að laumast með eitthvað af fötum sínum í fanginu út úr herberginu án þess að hvalþjósið í rúmbælinu vaknaði. Við hliðina á elhúsvaskinum stóð flaska hálf með vodka, sem okkar maður sturtaði í sig í einum teyg áður en hann hringdi á leigubíl. Leigubílstjórinn, rúmlega hálf níræður skröggur, búsettur á Hrafnistu, horfði með ódulinni vanþóknun á viðskiptavininn og ekki batnaði honum þegar viðskiptavinurinn slökkti á gjaldmælinum og skipaði karli með þjósti að hundskast til að keyra sig beint niður í bæ, niður á Hotél Borg. 


mbl.is Konan er of gömul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband