Leita í fréttum mbl.is

Hér fyrrum var tóbaksþjófnaður höfuðglæpur

smoke2.jpgÍ þá gömlu góðu daga, þegar fár og hungur voru vort daglegt brauð á Íslandi, sögðu þeir sem sem af lifðu, að matarskortur og drepsóttir hefðu ekki verið það versta í þá daga. Það langversta var tóbaksleysið og þar á eftir brennivínsleysið. Ef menn höfðu nógan svartadauða og tóbak til nefs og lungna var hægt að lifa lengi án þess að eiga í soðið. Og ef einhver gerðist svo ófyrirleitinn að brjótast inn og stela tóbaki frá náunga sínum var hann óðar handsamaður og leiddur til snörunnar; en snaran sú hékk oftast niður úr sterku þvertré, sem lagt var yfir þröngan gilskorning, en stundum var snaran framan á bæjargafli eða viðkunnanlegum kletti, gjarnan úti við sjó.

Tóbaksþjófurinn á Ísafirði hefir áreiðanlega verið aðfram kominn af tóbaksleysi og vafalaust hefir hungrið lengi sorfið að honum, að ekki sé misst á brennivínsleysið. Maðurinn er eflaust öreigi, sem auðvaldið og krataeðlisfantarnir hafa tekið sig saman um að svelta til hlýðni við borgaralegar siðvenjur. Hann hefir og verið mjög örvinglaður þegar hann skreið inn um gluggann í krambúðinni Hamraborg, enda kom í ljós, þá er hann var handtekinn, að hann mundi ekki lengur hvað hann heitir; en hann var búinn að reykja upp úr þremur vindlingspökkum þegar að var komið og stífla báðar nasir með fáheyrðum neftóbaksvaðli og sat flötum beinum á búðargólfinu, lamaður af tóbaksnautn.

Hinsvegar fór lögreglan á Vestfjörðum illa að ráði sínu er henni var falið að rannsaka innbrotið í Hamraborg, því hún stormaði út í Bolungarvík og leitaði þar dauðaleit að höndluninni Hamraborg, en án árangurs. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem lögreglan þar vestra stingur fingri í illilega rangan þumal. Hvernig var það nú þegar lögregla og sýslumaður á Vestfjörðum handtóku sárameinlausa kvenpersónu, að órannsökuðu máli, fyrir að hafa nauðgað og slasað tvo vestfirska heiðursmenn? Það fór eins og til var stofnað, allt út um læri og maga og heiðursmennirnir máttu sitja undir því að vera aðhlátursefni samborgara sinna í mörg ár á eftir. En frekar en ekki neitt handtók lögreglan drukkinn Bolvíking og hafði hann með sér inn á Ísafjörð og kærðu hann, alsaklausan manninn, fyrir innbrot, tóbaksþjófnað og hórdóm.  


mbl.is Lögreglan leitar að tóbaksþjófi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband