Leita í fréttum mbl.is

Þá sýslumaður á rauðum kjól hjó börn á Snæfellsnesi í spað með frægri öxi

davi_2_1244720.jpgÞetta er dapurleg frétt og rétt með naumindum að nokkur komist ógrátandi frá því að lesa hana. Og nú er af sem áður var, þegar landsmenn gjörðu nánast hvað sem var til að forðast sýslumenn; nú bíða eignirnar í löngum röðum til að ná tali af sýslumönnum og láta þá hrakyrða sig og berja. Eða eru máske sýslumenn hættir að lúskra á óbótamönnum? Ef svo er væri betur heima setið en af stað farið.

Áður og fyrr, þegar afar okkar og ömmur voru smábörn, og fyrir þann tíma, óðu sýslumenn um héröð í rauðum kjól og með hárbeitta öxi í hönd og hjuggu óþekka krakka og vergjarnar kvinnur í spað úti á víðavangi. Á Snæfellsnesi var einn sýslumaður af þessu tagi og var um öxi hans trúað, að hún væri rimmgýgr, eða remegie, er Skarphéðinn í brennunni átti og notaði til að myrða menn með. Þessi sýslumaður skarar mjög fram úr þeim sýslumönnum íslenskum, sem nú þykir nokkur manndómur að, einkum hvað varðaði röð og reglu, aga og refsingu, eða hvað eina er er til menningarauka er talið. Þá var og haft fyrir satt, að öxi þessi hefði um skeið verið í eigu Bjarnar bónda að Öxl í Breiðavíkurhreppi og hafi hann unnið með henni þau þrekvirki, sem halda munu nafni Björns uppi meðan land byggist.

Afar fáir vita með vissu hvar öxi Skarphéðins, Björns og sýslumanns er nú niðurkomin, en þó er vitað með óyggjandi vitnisburði, að hún kom síðast við sögu þá maður var veginn fyrir um það bil fimmtán árum. Yngri dæmi um vel heppnuð víg með öxinni eru til, en þau hafa ekki verið staðfest að fullu. Eins og gefur að skilja var lítið gamanmál að vera barn og unglingur á Snæfellsnes í þá daga sem sýslumaður á rauðum kjól réði þar ríkjum. Mjög var minnistætt héraðsbúum, þegar sýslumaður birtist öllum að óvörum á messudegi, hreif á braut með sér tólf ára dreng, sem fyrir nokkru hafði lagt út á glæpabrautina, hann hafði stolið lambi frá nágrannabóndanum og reynt að fá gifta stúlku til kynferðissamlags við sig. Drengurinn sat millum foreldra sinna í messunni þegar sýslumann bar að garði, en á þeirri stund stóð klerkur í stól og var að leggja út sögunni um góða hirðinn. Svo dró sýslumaður á rauðum kjól strákskrattann á hárinu úr kirkju og hjó hann í bita úti á túni, um það bil tuttugu faðma frá dyrum musteris Guðs. Var gerður góður rómur á staðnum um röggsemi sýslumanns og árvekni.


mbl.is Sýslumaður vinnur að lausn við röðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jóhannes Ragnarsson
Jóhannes Ragnarsson

Höfundur er búsettur í Ólafsvík.

netfang: joiragg@visir.is  Sími:436-1438 og 895-1438

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband